Mánudagur, 1. janúar 2007
Í upphafi nýs árs
Jæja, þá er árið 2007 gengið í garð með látum. Flugeldarnir lýstu upp himininn með hefðbundnum hávaða og litadýrð. Þetta skiptið fylgdist ég með, en yfirleitt nenni ég því tæplega. Ég er fyrir löngu búinn að fá leið á flugeldum og hef ekki verslað mér svoleiðis síðan ég var innan við tvítugt. Og varla að ég nenni að glápa á það, sem aðrir keyptu sér.
Ég hef heldur ekki mikinn áhuga á að vera þvælast úti á þeirri merku nótt, sem tengir gamla árið og hið nýja. Sofnaði bara um eittleytið og hafði það náðugt. Sit nú hér á BSÍ enn einn morguninn og reyni að vakna almennilega með sterkum kaffibolla.
Þessi áramót voru mun betri en þau síðustu. Þá sofnaði ég yfir áramótaskaupinu, þar sem ég lá í rúminu með tölvuna í fanginu á hóteli í Hastings, á suðurströnd Englands, frekar þreyttur eftir erfiða skák fyrr um kvöldið, þar sem ég lék niður unninni stöðu í skák, sem skipti sköpum í mótinu. Ég hef eiginlega ekki náð mér á strik síðan. En nú er framundan nýtt ár og vonandi betra.
Ég horfði á kryddsíldina í gær, eins og margir aðrir. Ómar kom ágætlega út, sömuleiðis Geir Haarde, sem sannaði fyrir mér þarna í gær, að hann er afburða stjórnmálamaður. Steingrímur var samkvæmur sjálfum sér, og Ingibjörg líka. Satt best að segja finnst mér stórkostlegt að hafa hana þarna, því mig grunar að Samfylkingin tapi fylgi í hvert skipti sem Ingibjörg heldur ræðu opinberlega eða kemur fram í sjónvarpi. Það var stórkostlega fyndið, þegar hún reyndi að grípa frammí fyrir Guðjóni Arnari, sem sagði henni tvisvar að róa sig, og það hvasst og skilmerkilega. Stakk hann þar gjörsamlega upp í gamla kommann í jafnaðarmannagærunni. Kom hann einnig ágætlega út, fannst mér, þó sumir hér á blogginu hefðu nánast hæðst að honum í gær. Jón Sigurðsson kom betur út en ég átti von á. Hann leynir á sér kallinn.
Annars held ég, að evruboðskapur Ingibjargar Sólrúnar í gær, og ýmislegt annað rifrildi milli sósíalistanna tveggja, hafi mjög líklega jarðað þær hugmyndir, sem sumir hafa haft á lofti um, að núverandi stjórnarandstaða myndi stjórn eftir kosningar. Finnst mér nú líklegt, að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir myndi stjórn í vor, þar eð ég efast um að Framsókn fái nógu mikið fylgi til að standa undir ríkisstjórnarþátttöku. En ríkisstjórn með kommum? Fræg voru ummæli Ólafs Thors 1944 eða 1945, þegar bandarískur stjórnarerindreki spurði Ólaf, hvers vegna hann hefði myndað stjórn með kommúnistum. Hann svaraði þá: "Þeir höfðu svo góð meðmæli". Hinn svaraði: "Frá hverjum?" Ólafur svaraði þá: "Frá Roosevelt og Churchill".
Ég var einn af þeim sem fíluðu skaupið í gær. Flestir hér á blogginu voru á öndverðri skoðun, sýndist mér í gærkvöldi. Þetta var svona skemmtilegur aulahúmor, sem höfðaði ágætlega til mín, a.m.k.
Jæja, farinn að fá mér ábót á kaffibollann. Kveð að sinni. Þakka þeim sem hlýddu. Gleðilegt nýtt ár.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.