Annus horribilis?

0,1658,5165301,00Árið 2006 var mjög slæmt hvað mig varðar, a.m.k. hvað snertir eitt mitt helsta áhugamál, skák. Mér tókst að sóa hagnaði síðasta árs með því að vera of þrjóskur, og halda áfram að tefla þegar hvorki var til staðar nægjanlega góð heilsa né kraftur á batteríinu. Ég lækka nú einhvern helling á alþjóðlegum skákstigum; fer eiginlega niður í logum. Og til að kóróna allt, náði ég ekki að taka þátt í "slagsmálunum" um Arienne, eina af fallegri skákkonunum um þessar mundir (sjá mynd t.v.)

Nokkrir ljósir punktar voru þó, t.d. fékk ég 2.5 af þremur skákum í röð við stórmeistara, og hefði bætt einum sigri við, undir eðlilegum kringumstæðum, hefði ég ekki leikið skelfilega af mér. En náði þó nokkrum punktum gegn stórmeisturum, t.d. Rajkovic og Votava, og var almennt að tefla ágætlega gegn sterkari mönnum, en lagði of of mikið á stöðurnar gegn þeim veikari, þegar jafntefli kom ekki til greina, og tapaði. En svona er skákin. En ljósi punkturinn var síðan Meistaradeildin í október, þegar við í T.R. náðum glæsilegum árangri og lentum í 5.-12. sæti, þrátt fyrir að hafa ekki á neinum stjörnum að skipa, og hefðum átt að lenda c.a. í 30. sæti, ef allt hefði verið "eðlilegt".

Náði þó að lagfæra málin aðeins í árslok. Varð jafn Arnari Gunnarssyni á atskákmóti Reykjavíkur (tapaði í einvígi um titilinn), varð Íslandsmeistari í internetskák, 3.-4 sæti á sterku Jólahraðskákmóti T.R. og náði nú 6. sæti á hinu geysisterka Friðriksmóti. En þetta er eins og að vinna leikina, sem skipta ekki máli, en tapa þegar á reynir.

En núna þarf maður að vera duglegur í ræktinni fyrstu vikuna í janúar til að koma sér í form fyrir næsta mót, sem ég tek þátt í. Það verður Opna Pragmótið 2007, sem hefst í Prag 11. janúar og stendur yfir í rúma viku. Ég hef aðeins einu sinni komið til Prag, það var fyrir c.a. 5-6 árum síðan, og stoppaði þá stutt; var á leiðinni í sagnfræðilegan leiðangur á þjóðskjalasafnið í Bratislava. Að þessu sinni vonast maður til að geta skoðað borgina eitthvað á hinum hefðbundnu morgungöngum, a.m.k. ef ekki verður mjög kalt.

Skák er skemmtileg, segja Hróksmenn. Hrafn er í Winnipeg, en hægri hönd hans, varaformaðurinn Róbert Harðarson, mun einnig tefla á Pragmótinu. Við fórum einnig saman á mótið í Serbíu í nóvember og vorum báðir á Evrópumótinu í Fuegen í október. Verður gaman að fara með honum út aftur, enda er hann ekki kallaður Mr. Bigtime fyrir ekki neitt. En vonandi höldum við heilsu þetta skiptið, en síðast vorum við báðir meira og minna úr leik seinni helmings mótsins, í Serbíu, vegna veikinda.

En nú er bara að duga eða drepast, og vonandi mun ég komast í internet þarna úti til að blogga aðeins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband