Annáll ársins 2006

Einn athygliverðasti bloggarinn hér á mbl.is er Akureyringurinn Stefán Fr. Stefánsson. Hann skrifar nær undantekningarlaust mjög vandaða og vel unna pistla. Einn þeirra er áramótapistillinn, sem hér á blogginu er reyndar aðeins framlenging, eða vísun á lengri og ítarlegri pistil. En þar segir m.a. um helstu atburði ársins 2006.

Ársins 2006 verður í framtíðinni eflaust minnst hér heima sem ársins er herinn fór, Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum og sagði af sér sem forsætisráðherra, Geir H. Haarde varð forsætisráðherra, Jón Sigurðsson varð formaður Framsóknarflokksins og skipti um kúrs í Íraksmálinu, R-listinn leið undir lok og Vilhjálmur Þ. varð borgarstjóri, talað var um hleranir í kalda stríðinu, Jón Baldvin sagðist hafa verið hleraður, þjóðin hafnaði slúðurblaðamennsku DV, Hálslón varð að veruleika, Ómar kastaði af sér grímu hlutleysis í virkjunarmálum, Árni Johnsen náði öruggu þingsæti að nýju í prófkjöri í Suðurkjördæmi og nefndi afbrot sín tæknileg mistök, slökkt var á NFS og hvalveiðar hófust að nýju í atvinnuskyni.

Á erlendum vettvangi bar hæst að Saddam Hussein var tekinn af lífi í Bagdad, George W. Bush og Tony Blair áttu í miklum pólitískum erfiðleikum, repúblikanar misstu meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og breski Verkamannaflokkurinn missti mikið fylgi í byggðakosningum, Donald Rumsfeld sagði af sér, vargöld ríkti í Líbanon, Ariel Sharon fékk heilablóðfall sem leiddi til þess að hann varð óstarfhæfur og áratugalöngum stjórnmálaferli hans lauk, Ehud Olmert varð forsætisráðherra Ísraels, vinstristjórn Göran Persson féll í Svíþjóð og borgaraflokkarnir komust til valda, skopmyndir af Múhameð ollu ólgu í Mið-Austurlöndum, Augusto Pinochet og Slobodan Milosevic létust og Berlusconi missti völdin.

Fleira má svosem nefna, en þessi upptalning felur aðeins í sér atburði á stjórnmálasviðinu, en er sem slík mjög góð og telur fram þetta helsta. Guðmundur Steingrímsson bætir nokkrum góðum við. En menn geta talið upp t.d. aukna útrás íslenskra fyrirtækja og góðan árangur þeirra, áframhaldandi Baugsmál, áfangasigur Hannesar Hólmsteins á tvennum vígstöðum, "dissun" íslensku bókmenntaverðlaunanna, Íslandsmet Hannesar Hlífars, sem varð Íslandsmeistari í skák í 8. sinn, stórkostlegan árangur skáksveitar Taflfélags Reykjavíkur, sem lenti í 5.-12. sæti í Meistaradeild Evrópu í skák (þar sem flestir sterkustu skákmenn heims kepptu), heimsmeistarakeppnina í fótbolta, endurkomu Guðjóns Þórðarsonar í fótboltann á Íslandi, góðan árangur íslenska handboltalandsliðsins, afrek Eiðs Smára, skandall Silvíu nætur, ýmsa merkilega menningarviðburði, og ekki má gleyma Unni Birnu, sem var brosandi fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi, útrás Latabæjar, aukinni sölu íslenskra bóka erlendis, hræringar á fjölmiðlamarkaði, deilur um virkjanir og álver, útlendingaumræðu Frjálslynda flokksins, málefni Byrgisins, o.s.frv. Af nógu er að taka.

Árið 2006 var að mörgu leyti viðburðaríkt, og sennilega viðburðarríkara þegar á heildina er litið en síðustu ár. Það sem mér sjálfum er eftirminnilegast er t.d.:

  • Fuegen 2006, þegar við strákarnir í Taflfélagi Reykjavíkur slógum í gegn í Meistaradeild Evrópu í skák, þrátt fyrir að vera með töluvert veikari sveit en önnur lið í toppbaráttunni, og lenda þar að auki í ýmsum hremmingum, s.s. veikindum liðsmanna og að tveir lykilmenn þurftu af persónulegum ástæðum að bregða sér heim á undan hinum.
  • Borgarstjórnarkosningarnar 2006, þegar R-listinn gaf upp öndina og Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur til valda.
  • Hræringar á vettvangi stjórnmála (Halldór hættir osfrv) og á fjölmiðlamarkaði (DV o.fl.)

Persónulega hef ég misst áhugann á umræðunni um virkjanir og álver. Og ekki skil ég, hvers vegna Ómar Ragnarsson, sem hefur í mörg ár verið í miklu uppáhaldi hjá mér, var kosinn maður ársins. Hann hefur í mörg ár haft tækifæri til að ferðast um óbyggðirnar og þar liggur hjarta hans. En sum okkar hafa aldrei farið þangað, sumir hefðu aldrei farið þangað (norð-norðaustur af Vatnajökli) nema þar stæði til að virkja, osrfv. Ég held nefnilega að mótív Ómars séu af persónulegum hagsmunum fram borin, en ekki skv. þjóðarhagsmunum. Ég vil líka vitna í Halldór Laxness, sem sagði svo:

Erlendur vinur minn í Unuhúsi [var] vanur að segja við mig: þú nýtur þess ævi­lángt að vera borinn og barnfæddur við leingsta borgarstræti á Ís­landi (semsé Lauga­­veginn). Fyrir bragðið þurftirðu ekki að eyða tíu-tutt­ugu árum til að hafa úr þér sv­eitamanninn. Erlendur þreyttist aldrei á að þakka sínum sæla að vera reyk­vík­ingur, og það var fjallgrimm vissa hans að ekki væri nema einn staður á Íslandi and­styggilegri en sveit­irnar, og það væru óbygðirnar.[1]

Það er nokkuð merkilegt, en sumir reyna að láta líta svo út fyrir, að þeir einir séu umhverfisverndarsinnar og til að geta kallað sig svo, þurfi menn að vera á móti því að hrófla við hvorki einu né neinu. Ég er sjálfur alinn upp í sveit, þar sem eru miklar "óbyggðir" og met bæði landslag og náttúru mikils, svo ekki sé talað um dýralíf. En ég fatta ekki þennan gauragang út af stað, sem innan við 1% þjóðarinnar höfðu komið til, og fæstir jafnvel vitað að væri til, þegar mikið hagsmuna mál þjóðarinnar er að veði, að mínum dómi a.m.k. Umhverfisvernd er góð, í teoríunni, en svo er með hana eins og margt annað, að hún hefur þá tilhneigingu að falla í hendur róttæklinga og öfgamanna, og verður þá oft á tíðum óaðgengileg venjulegu fólki.

Fjölmiðlafárið hefur verið meira nú en oft áður. Baugur á orðið beit eða óbeint flesta helstu miðla landsins. Það snertir mig voðalega lítið. Það er engin sáluhjálparforsenda fyrir sjálfstæðismenn að vera á móti Baugi. Jón Ásgeir og Jóhannes mega eiga þessa miðla ef þeir vilja, mín vegna, eins lengi og þeir beita þeim ekki í eigin hagsmunabaráttu. Á því hefur reyndar borið, en hugsanlega fyrst og fremst af vilja þjónustufólksins til að þjóna húsbændum sínum af trúfesti. En DV var sem betur fer komið á haugana, í fyrri mynd a.m.k. Það var gott að losna við þessa sorablað af markaðnum. En ekki er útséð með, að það rísi kannski aftur.

Og framundan er kosningavetur. Ég efa ekki, að margt athyglivert muni gerast á næstu mánuðum. En nú er kaffið tilbúið, svo ég segi mig frá frekari orðræðu um árið sem er að líða.

[1] Halldór Laxness: Í túninu heima (Rvík 1975), 8.



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Já, Stefán Fr. skrifar góða pistla og hann leggur gott til málanna og forðast alla illmælgi. Mér finnst soldið fyndið að ég hélt á sínum tíma að Stefán Fr. væri vélmenni sem einhver hefði búið til sér til skemmtunar til að svara öllum innleggjum á malefnin.com. Þá var hann að mig minnir með 2500 merkingarlaus innlegg þar sem öll voru með flennistórri mynd af honum. Hann hefur vaxið verulega og leggur nú miklu meira í skrifin. Það er gaman að rifja þetta upp

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.12.2006 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband