Jólin hjá Werner Gerlach 1939

 

Jæja, datt í hug að skjóta fram hluta af gömlu handriti, sem ég gróf upp úr hirslum mínum. Vonandi verður þetta upplýsandi fyrir einhverja. Kv. SGBergz

hakakross

Haustið 1939 var annatími hjá Gerlach. Þá sáu menn stríðsbjarma í fjarska og evrópsku stórveldin hófu að leggja smiðshöggin á undir­bún­ing stríðs­rekst­urs. Flota­málaráðuneytið í Berlín sendi skeyti til þýskra skipa á At­lantshafi, hinu sögu­­lega áhrifasvæði Breta, aðvöruðu skip­stjóra þeirra um mögulega árekstra við bresk herskip og skipuðu þeim að leita vars í hlut­lausri höfn. Á haustdögum 1939 komu nokkur þýsk flóttaskip til Reykja­víkur, auk kafbáta og annarra mið­ur vel­kom­i­nna skipa. Þegar í ágústlok birtist hér skipið Erika Hendrik Fisser, skömmu síðar Sardinen og svo bættust þau við eitt af öðru: Hamm, Lübeck og Bianca. Þessi skip lágu nærri hvert öðru á Við­eyjarsundi og biðu ör­laga sinna. Á meðan reyndi Gerl­ach að smygla þeim aftur til Þýska­lands og tókst svo eftir mikið harðræði, eins og Þór Whitehead lýsir í bók sinni Stríði fyrir strönd­um.[1] En Gerlach til mik­illa skap­rauna, neituðu nokkr­ir skip­verja að sigla aftur til síns heima, eink­um af ótta við hafn­bann Breta. Svo fór þó að með hótunum og til­tölum tókst ræð­is­mann­in­um að sannfæra flesta þeirra, en eftir sátu þrír ungir menn af Er­iku Hendr­ik Fisser og kyndarinn af Sardin­ien. Hétu þeir Günth­er Schild (létta­dreng­ur, f. 1923), Waldimar Eck­mann (háseti, f. 1923), Karl Heinz Sal­­ewski (að­stoðar­mað­­ur, f. 1921), og Erich Schleicher (kyndari, f. 1911). Þess­ir menn voru þyrnar í síðu Gerl­achs. Þeir væru ó­vinir Þriðja ríkis­ins og höfðu flúið á brott frá skyldum sín­um, væru lið­hlaupar og svikarar við föður­land­ið. Slíkir menn ættu þunga refsingu skilda að mati ræð­is­mannsins. Gerlach ók því á Benz­­inum sínum til fundar við Stefán Þor­varðs­son.

Að und­ir­lagi Gerlachs lét Hermann Jónasson dómsmálaráðherra vista þá á vinnu­hælinu að Litla-Hrauni. Samkvæmt þröngum laga­skiln­ingi var á­kvörð­un Her­manns réttlætanleg, þótt til dæmis Alþýðublaðið og Þjóðviljinn hefðu gagn­rýnt að­far­ir­nar harka­­lega á mannúðarforsendum.[2] Sam­kvæmt ís­lensk­um lög­um bar þó að vísa úr landi er­lend­um ríkis­borg­­urum, sem eftir­­lýstir væru í heima­­landi sínu. En hvernig gátu Ís­lend­­ingar sent mennina aft­ur til Þýska­lands, þegar eng­ar samgöngur voru orðn­ar við landið? Auk­in­­held­ur voru ekki í gildi samn­ingar milli Íslands og Þýska­lands um fram­­sal saka­manna, þótt það muni hafa komið til tals um miðj­an fjórða ára­­tuginn, þegar Íslendingar spurðust fyrir um afdrif Óskars Vil­hjálms­sonar garð­yrkju­stjóra Reykjavíkur, en hann hafði flúið réttvísina til Þýskalands, þar sem hann lést síðar í fangabúðum nasista.[3] Því var eðli­legasta lausnin sú, úr því að íslenska ríkis­stjórn­in við­ur­­kenndi ekki rétt þeirra til hjálpar vegna ríkjandi aðstæðna og stöðu þeirra sem flótta­­manna, að koma þeim fyrir á Litla-Hrauni. Lík­legt verð­ur þó að telj­ast, í ljósi sam­skipta ríkis­stjórn­ar­innar og Gerl­achs, að þessi ákvörð­un hafi eink­um verið gerð til að losa ráðamenn við nöldr­ið í Gerlach, sem þeir voru orðnir langþreyttir á að sitja und­ir á dimmum haustkvöldum.

   En ræðismaðurinn var síður en svo laus við ungu flóttamennina. Hann sagði svo frá í bréfi til íslenskra stjórnvalda:

 

Hinir fjórir þýzku sjómenn...hafa, svo sem konsúlatið hefir komizt að raun um, dv­alið yfir jóladagana í Reykjavík. Strax þann 23. des. sáust þeir á veitingahúsinu „Hressingarskálinn" í Austurstræti. Um eftir­mið­dag­inn þann dama dag gerðist einn þeirra meira að segja svo djarfur að spyrj­ast fyrir um innkominn póst á konsúlatinu. Næstu daga sáust þeir hvað eftir annað í bænum. Þeir gistu á sjó­manna­heim­ili Hj­álp­ræðis­hers­ins og fengu greiða á matsölu frú Mörthu Björns­son, Hafnarstræti 4. Nótt­ina milli 25. og 26. desember voru óeirðir hafðar í frammi fyrir fram­an kon­súl­atshúsið og óhreinkaðist þá á hinn versta hátt full­veldismerki þýzka ríkisins á garðs­hliðinu.[4]

 

Og Gerlach vissi hvaðan skotin komu, því hann hafði heyrt það frá njósnurum sínum í bænum, að Wilhelm Beck­mann hafi fengið flokks­bræður sína í Alþ­ýðu­flokkn­um til að láta þá lausa yfir hát­íð­ir­nir. Og sama mann hafði hann grun­aðan um að hafa ver­ið hvata­­manninn að „upp­reisninni á Við­eyjar­­sundi."[5] Svo segir í punkt­um Gerl­achs: „Lið­hlaupa­málið er hneyksli. Um jól­in [var] hlaðið á þá gjöf­um hér í bæn­um. Sagt er að Beckmann hafi fengið frí fyrir þá hjá ut­an­­ríkis­ráð­herr­anum. Beckers segir að einn þeirra hafi sagt þegar hann var spurð­ur hvort þeir gerðu sér ekki ljóst að þeir hafi eyðilagt líf sitt: „Okk­ur langar ekk­ert til að láta skjóta okkur.""[6] Ríkis­stjórnin beiddist und­an því að halda „aurkasts­mál­inu" áfram, en tjáði þó Gerl­ach að Beckmann hafi ekkert haft með lausn fang­anna að gera, held­ur annar „góðvinur" ræðis­manns­ins, Paul Künd­er. En Gerlach var nokkuð sama hvor þeirra átti í hlut. Þór Whitehead segir svo frá:

   

Útlagarnir Beckmann og Künder voru báðir óalandi og óferjandi land­ráða­menn í augum ræðismannsins og hann hafði látið ís­lensku ráð­herr­ana heyra, að hon­um bl­öskraði, að Stefán Jóhann Stef­ánsson utan­ríkis­ráð­herra skyldi dirfast að leggja lag sitt við slíka menn. Til að bíta höfuð­ið af skömm­inni hafði dóms­mála­ráðu­neytið nefnt Künd­er „Þjóð­verja." Eng­inn Þjóð­verji væri til með því nafni í Reykja­vík. Þar byggi reyndar Paul nokkur Christian Künder, en ekki leyfð­ist að nefna hann Þjóð­verja, „þessi pers­óna" hefði ver­ið svipt ríkis­borg­ararétti í Þýska­landi fyrir þrem­­ur ár­um.[7]

 

Künder og Beckmann voru helstu haturs­menn ræðismannsins, einkum sá þeirra, sem Gerlach taldi vera hrein­ræktaðan „aría" og því her­skyld­­an í Þýska­landi. En annars var Gerlach ánægður með árangur hausts­ins. Hann hafði kom­ið særðum kafbátsmanni í öruggt skjól, hj­úkr­­að öðrum og komið fimm flótta­skipum undan, allt í trássi við ís­lensk lög. En mál út­lag­anna skyggði þó á gleði hans, sem birtist í bréfi til Heinrich Himml­ers, en þar kvartar „hann undan „hatri", sem útlagi einn hefði lagt á sig: „Mað­­­ur þessi, sem væri ,komm­únisti' og ,njósn­ari Breta', hefði spillt nokk­­­uð fyrir starfi þeirra." Hér átti hann vísast við Beck­mann, sem var þá undir vernd Stefáns Jóhanns Stefánssonar.[8]

   Frásögn Gerlachs af Reykjavíkurferð strokumannanna er í meginatriðum rétt, þótt dálítið hafi slegist til í heimilda­söfnun hans, því samkvæmt fang­elsis­bók Litla-Hrauns og yfirheyrslum yfir mönnunum, höfðu þeir farið frá vinnu­hæl­inu á aðfangadag og haft það náðugt yfir jólahátíðina í Reykjavík. Frásögn þeirra er mjög trúverðug, því gistiheimili Hjálpræðishersins lokaði klukkan eitt eftir mið­nætti, klukkutíma áður en aurkastið átti sér stað við Túngötu 18. Sam­kvæmt vitnisburði fjórmenninganna hafði „fimmti maðurinn" veitt þeim félags­skap þá um kvöldið og reyndar gaukað að þeim víni. Var þar á ferðinni góð­kunningi Gerlachs, útlaginn Beckmann, sem þótti dá­lítið hallur undir Bakkus og hafði setið að sumbli með öðrum útlögum allt kvöldið, fyrst hjá vini sínum Künder og síðan hjá Albert Klahn.[9] Þeir félagar heimsóttu síðan Kurt Sonnen­feld tann­lækni, sem bjó á Öldugötu, og saman fóru menn þessir niður á Tún­götu og skyldu eftir sig menjar.

Jólin 1939 stóðu því ekki undir væntingum Werners Gerlachs.

  

 

[1] Þór Whitehead: Stríð fyrir ströndum, 278-293.

[2] „Ósæmileg meðferð"; „Er þetta íslensk gentlemennska?" Alþbl. 25. okt; 20. nóv. 1939. Þjóðviljinn ræddi þetta mál einnig í sama dúr.

[3] Þessar upplýsingar koma frá Ásgeiri Guðmundssyni sagnfræðingi, sem rannsakað hefur líf og störf Óskars, sem síðar átti eftir að láta lífið í fangabúðum nasista.

[4] ÞÍ. UR. db. 2/965: Gerlach til Hermanns Jónassonar, 28. des. 1939.

[5] Þór Whitehead: Stríð fyrir ströndum, 284.

[6] ÞÍ. UR. „Þýska konsúlatið 1896-1988", Punktar Gerlachs. Nafn Þjóðverjans er rangt lesið hjá breskum þýðendum. Arthur Beikers var þýskur sjómaður, sem settur hafði ver­ið veikur á land.

[7] Þór Whitehead: Milli vonar og ótta, 56-58. Gerlach skrifaði: „Þó að konsúlatið verði þess vegna að áskilja sér rétt til frek­ari skýringa í þessu sambandi þar til síðar, þá þarfn­ast þó eitt atriði í bréfi dómsmálaráðuneytisins leiðréttingar, nefnilega það, að Künder...sé þýzkur ríkis­borgari. Konsúlat­inu er ekki kunn­ugt um neinn þýzkan ríkis­borgara á Íslandi með því nafni, en aftur á móti hefir konsúlatið komizt að raun um, að viss Paul Christian Künder, fæddur 17. okt. 1897 í Wands­bek, hafi verið sviptur þýzkum ríkis­borgararétti með yfir­lýsingu 2. des. 1936... ÞÍ. UR. db. 2/965: Gerlach til ríkis­stj­órnar Íslands, 9. janúar 1940.

[8] Þór Whitehead: Stríð fyrir ströndum, 288-289. Björn Th. Björnsson, símtal 17. sept 1997.

[9] ÞÍ. DR. db.....Sama heimild, Endurrit af útskrift úr dómsmálabók Árnessýslu, 15. febrúar 1940.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband