Mánudagur, 25. desember 2006
Óvinir ríkisins?
Ég hef verið að glugga í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Óvinir ríkisins, nú síðustu daga. Bókin er að mörgu leyti mjög athygliverð og að mínum dómi ein af bestu bókum ársins. Ég hef svosem ekki mikið við hana að athuga, fræðilega, enda skortir mig gögn og þekkingu á ákveðnum atriðum, sem þar eru rædd. Þegar ég les fræðibækur sagnfræðinga set ég mig jafnan í ákveðnar stellingar; sumum treysti ég ekki til að hafa unnið vinnuna sína, jafnan af fyrri reynslu, en öðrum treysti ég og les bókina án þess að hafa smásjá á vinnubrögðum og efnisinnihaldi. Guðni er einn þeirra, sem ég treysti til að fara með rétt mál, þ.e. ég treysti vinnubrögðum hans og heilindum Það mál er því afgreitt.
En mér finnst samt vanta svolítið framan á bókina, t.d. erlendar skýrslur um íslenska kommúnista frá því snemma á þriðja áratugnum, þar sem m.a. íslensk stjórnvöld eru vöruð við starfsemi þeirra. En auðvitað getur enginn sagnfræðingur fundið allar heimildir. Þetta atriði skiptir þó engu máli fyrir samhengið.
En mig langar til að draga hér fram gamlan pistil, sem ég skrifaði fyrir löngu, en hafði aldrei fyrir að birta. Hann kallaði ég þá DRAUMSÝN KOMMÚNISTA og birti hér óbreytta.
Á fjórða áratugnum komst í tísku að líta í austurveg. Gerska ævintýrið var í uppsveiflu og skósveinar stálbóndans í Kreml streymdu hverjir á fætur öðrum austur til Bjarmalands. Í kennslustofum Kominterns fengu föngulegir ungir Íslendingar uppfræðslu í fagnaðarerindi sósíalismans og útbreiðslu þess til föðurhúsa sinna. Nokkrir Íslendingar sóttu til að mynda Lenín-skólann í Moskvu þar sem mönnum var kennt að skipuleggja og reka undirróðursstarfsemi og vopnaskak hvers kyns. Aðrir sátu í Vestur-háskólanum svokallaða (KÚNMZ) og lærðu þar marxísk fræði og annað misjafnlega gagnlegt. Sovét-Ísland var draumur margra mætra manna og þegar þeir losnuðu loks við timburmenn byltingarinnar afréðu þeir að stofna sérstakan kommúnistaflokk á Íslandi 1930, þótt vitaskuld hafi háu herrarnir í Moskvu orðið að samþykkja ráðahaginn fyrir sitt leyti. Markmið kommúnistaflokksins var að koma á sósíalísku skipulagi á Íslandi í stíl við það sem reist hafði verið á rústum rússneska keisaradæmisins. Markmið íslenskra kommúnista komu mjög skilmerkilega fram í ritdeilu Einars Olgeirssonar við Jónas frá Hriflu á fjórða áratugnum. Deildu þeir félagarnir hart um samvinnustefnu og kommúnisma og þá þjóðfélagsgerð sem fylgismenn hvorrar stefnunnar um sig lögðu fram á vettvangi stjórnmála. Í síðustu svargrein Einars fjallaði hann um framtíðarsýn kommúnista fyrir Ísland. Þar boðaði hann þjóðnýtingu, aukin útgjöld ríkisins, aukin viðskipti við sósíalísk eða hálf-sósíalísk lönd, útrýmingu frjálsrar samkeppni, innrætingu æskulýðsins, ríkiseinkasölur, erlendar lántökur og fleira í þeim moll.[1] Hann taldi einnig að alþýðan þyrfti ekki að óttast auðmagnið í landinu en
[ú]rhrakið úr íslenzkri auðmannastétt kemur til með að beita öllum ráðum, allt frá skemmdarverkum og til vopnaðrar uppreisnar, ef það þorir Vopnuð uppreisn auðvaldsins gegn lýðræðinu, líklega studd frá Þýskalandi, er vafalaust langhættulegasta formið, sem mótspyrna auðvaldsins gegn lögum og rétti lýðræðisins getur tekið á sig. En það er um leið langhættulegasta formið fyrir auðmannastétt Íslands.[2]
En hvernig átti alþýðan að ná völdum? Jú, með því að sameina vinstri flokkana þrjá: Kommúnistaflokkinn, Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkinn undir stjórn kommúnista. En galli var á gjöf Njarðar. Alþýðuflokkurinn og Framsókn þurfa að losna við óttann af hringa- og bankavaldinu, flokksprincipið í embættaveitingum, yfirhylminguna með afbrotum sinna manna, yfirdrottnunarafstöðuna til alþýðunnar og metinginn og misklíðina milli flokkanna [og] verjast spillingunni í þeim sjálfum.[3] Þegar slíkum hrösunarhellum hefði verið rutt úr vegi myndi öflug vinstri stjórn undir forystu kommúnista taka völdin á Íslandi. En hvað svo? Hvað myndi gerast ef kommúnistar kæmust til valda? Einar Olgeirsson ímyndaði sér að alþýðuflokkarnir þrír næðu völdum á Íslandi í kosningum 1942. Næstu árin færu í framkvæmd sósíalískrar atvinnustefnu í ætt við búskap Kremlarbóndans. Að lokinni fyrstu fimm ára áætluninni, árið 1947, væri ástand þjóðfélagsins orðið breytt:
Undir stjórn þessa sameinaða flokks alþýðunnar hafði Ísland upplifað slíkar framfarir að engin dæmi þektust þess fyrri í sögunni. Landinu hafði verið gerbreytt úr landi, þar sem atvinnuleysi, gjaldeyrisvandræði, fátækt og basl ríkti og í land þar sem stórkostlegur iðnaður starfaði á grundvelli almennrar virkjunar fossanna og hagnýtingar hinna auðugu fiskimiða Landbúnaðurinn var orðinn gerbreyttur Aðbúnaður verkalýðsins hafði gerbreyst
Síðan yrðu kosningar haldnar hið sama ár. Efnahagur landsins væri í blóma, bændaflokkurinn hættur störfum og
Íhaldsflokkurinn var horfinn, nokkrir af forsprökkum hans höfðu verið gerðir landrækir fyrir landráð, en leyfarnar af flokknum leystust upp, eftir að heildsalar og stóratvinnurekendur hurfu úr sögunni Stéttamunurinn var horfinn, svo stéttaflokkar voru ekki lengur til og ekkert rúm fyrir þá í hinu sósíalistíska þjóðfélagi. Að vísu höfðu nokkrir fjárglæframenn sem flúðu af landi til Lundúna árið 1940, þegar Landsbankinn varð gjaldþrota og öll óstjórn valdaklíkunnar varð þjóðinni opinber, gefið úr blað erlendis og ráðist á hinn sameinaða flokk alþýðunnar og sakað hann um einræði, af því að hann var eini stjórnmálaflokkurinn í landinu, og höfðu þessir menn reynt allskonar spellvirki, einu sinni tekist að eyðileggja Sogsstöðina um stundarsakir, en einkum þó reynt með erlendu fé að magna flokk gegn alþýðunni í landinu, en aldrei tekist.[4]
Þetta var nú líka draumurinn í Sovétríkjunum og sjá menn langa þrautasögu þjáninga og harðstjórnar. En Íslendingar lærðu ekkert af mistökum annarra. Stefna íslenska Kommúnistaflokksins var því að koma á fót samskonar skipulagi og ríkti í Sovétríkjunum þegar Íslendingar hefðu komist gegnum erfiðleika lýðræðisins til sósíalisma.[5] Ísland skyldi því verða ólýðræðislegt sósíalistaríki að sovéskri fyrirmynd. Þetta var hin nýja lífssýn sem Íslendingum var boðin í kreppunni og margir aðhylltust. Og til að reyna að koma því á koppinn seldu menn Öxar við ána úr landi og fluttu inn internasjónalinn. Trúnaður þessara rauðleitu byltingarsinna var fyrst og fremst við Sovétríkin og stálbóndann í Moskvu. Íslensk vitund hafði nú vikið fyrir marx-stalínískri alþjóðahyggju í hugum margra og fór þeim fjölgandi sem hugsuðu svo. Hefði draumsýn Einars Olgeirssonar orðið að veruleika myndi Ísland hafa orðið að litlu sovétríki. Reynsla þjóða sem lentu undir stálhælnum geta gefið vísbendingar um hvernig staðið hefði verið að málum hér á Íslandi. Mannréttindi hefðu verið afnumin í sovéskum stíl, efnahagur landsins eyðilagður með vonlausum efnahagsstefnum og aðgerðum stalínismans. Síðar meir, eftir stríðið, hefðu síðan rússneskar hersveitir komið til landsins til að verja Íslendinga gegn ágangi heimsvaldasinna. Og eins og í öðrum fylgiríkjum Sovétmanna hefðu kannski verið flutt hingað kjarnorkuvopn, í varnarskyni. Og þetta óskuðu sér og boðuðu sömu menn og síðar mögluðu einna mest gegn hersetu Bandaríkjanna á Íslandi og kjarnorkuvígbúnaði Atlantshafsbandalagsins! Það er víst ekki sama hver er, Jón eða séra Jón.
Kannski voru þessir menn óvinir ríkisins...eða a.m.k. óvinir þjóðarinnar, úr því þeir óskuðu henni þess, að komast undir kúgun og áþján morðóðra glæpamanna úr austurvegi? En sú draumsýn, sem kommúnistar höfðu 1938, var auðvitað ekki sú sama og þeir höfðu 1968, og enn síður 2006. En var réttlætanlegt að hafa eftirlit með starfsemi þeirra? Það er auðvitað spurning, sem erfitt er að svara. Slíkt hlýtur að hafa verið bundið við persónur og aðstæður. Hvað snerti harðlínukommúnista, tel ég það réttlætanlegt, miðað við það hugarfar, sem þá var ríkjandi. Hafa ber í huga, að þessir menn höfðu þá stefnu, beint eða óbeint, að selja Ísland á vald erlends einræðisríkis, sem hafði fram að því ekki sýnt neitt það af sér, sem réttlætt gæti slíka hollustu. Vestrænar ríkisstjórnir munu hvarvetna hafa haft eftirlit með starfsemi kommúnista og ekki að ósekju. Og af hverju ekki hér? En þó voru ekki allir þeir, sem tóku þátt í starfsemi herstöðvarandstæðinga í raun og veru kommúnistar. Ég get skilið eftirlit með starfsemi Sósíalistaflokksins, meðan hann var sem harðsvíraðastur, en hvað snertir herstöðvarandstæðinga, fæ ég ekki skilið hvaða ástæður lágu þar að baki. En auðvitað er auðvelt að fletta fingur nú í dag, þegar andrúmsloftið er frábrugðið því sem var. En þeir, sem í dag gagnrýna þessar hleranir af sem mestu móði, verða að hafa í huga, að kommúnistar höfðu stefnu, sem bæði hættuleg hagsmunum ríkis og þjóðar; það fyrrnefnda vildu þeir færa á vald annars ríkis; setja Ísland í einskonar "Sovétbandalag". Og sömu menn, og/eða pólítískir arftakar þeirra eru nú fremstir í flokki þeirra, sem berjast gegn Evrópusambandinu, sem er einskonar póstmódernísk útgáfa af gömlu Sovétblokkinni. Ég verð að viðurkenna, að ég sé lítinn mun. En gott að íslenskir sósíalistar skuli hafa áttað sig á þessu; betra fyrr en síðar.
[1] Leið íslenzku þjóðarinnar úr gjaldþroti auðvaldsins til velmegunar sósíalismans Réttur XXII (1937), 1-25.[2] Sama heimild, 31-32.[3] Sama heimild, 25.[4] Kosningar á Íslandi sósíalismans Þjóðviljinn, 16. janúar 1938.[5] Leið íslensku þjóðarinnar, 28.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.