Sunnudagur, 24. desember 2006
Góðkunningi Slysó...
Það var dálítið furðulegt, að koma á mótttöku Slysó í gærkvöldi og vera heilsað: "Sælir. Þú hefur ekki komið hingað í nokkurn tíma." Ég er semsagt "góðkunningi" Slysó, eins og það heitir reyndar.
Ég sat þarna og rakti atburði dagsins fyrir mótttökuritaranum, vingjarnlegri hjúkku sem hefur tekið þarna á móti mér nokkrum sinnum áður. Já, ég var að bakka út úr stæði, þegar ég lenti skyndilega í samstuði við sérútbúinn fjallajeppa. Ok, afturendinn á bílnum mínum er illa farinn, en hinn skemmdist ekki. Og ég var í órétti, því hann var kyrrstæður. En ég glotti bara: "Jæja, hefði getað farið verra." Og taldi málinu lokið, í bili a.m.k.
En síðan fór ég að stífna upp í hálsinum, fékk ógleði, hausverk og ýmis smá leiðindi. Af stað til Slysó. Ég settist síðan niður og beið eftir því, að komast að.
Biðstofan á Slysó er mér ekki ókunnug. Mér tókst að fá eins konar blóðeitrun í annan fótinn í ágúst s.l., og var þarna meira eða minna seinni hluta ágústmánaðar og fyrri hluta september. Maður mætti þarna kl. 7 að morgni, kl. 13, 18 og 23.30 uns rauða bólgusvæðið var algjörlega horfið. Og síðan var endalaust vesen að sprauta þessum lyfjum í mig, því æðarnar þoldu þetta ekki nógu vel. Mér taldist til, að á mánaðar tímabili hafi ég setið rúmlega þrjá sólarhringa á Slysó. Ég var farinn að þekkja flesta starfsmennina...
Ég var því góðkunningi Slysó, þegar ég mætti þarna í gærkvöldi. Nokkuð margir voru að bíða, misjafnlega slasaðir. Einn af öðrum fór inn. Ég hafði komið þarna rúmlega níu og var komið miðnætti, þegar ég loksins komst inn. Ég var síðan skoðaður af huggulegum kvenlækni, sem vann sitt verk vel. Ég fékk síðan góð ráð og hélt heim, setti stuttbylgjutæki á bólguna á hálsinum, og fór að sofa. Vaknaði síðan morkinn á aðfangadagsmorgni. Nú á ég eftir að kaupa ýmislegt...Þorláksmessu kauptíminn fór í að bíða á Slysó.
Ég er alls ekki að gagnrýna starfsfólkið á LSH-Slysó. Ég hef hvorki nú né fyrr haft neitt út á það að setja. Við eigum þarna mjög hæft starfsfólk, almennilegt og fagmenn fram í fingurgóma. En ég átta mig ekki á því, hvers vegna við Íslendingar, rík þjóð, getum ekki skaffað fleiri af þessu fína starfsfólki og borgað því nógu vel, svo það flytji ekki til Noregs eða Svíþjóðar, já, eða Bandaríkjanna.
Jæja, þá eru að koma jól, einu sinni enn. Ohh, voðalega verð ég feginn þegar þetta verður búið.
Breytt s.d. kl. 08:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.