Fimmtudagur, 21. desember 2006
Jólafriður í Landinu helga?
1. Frá því á miðvikudagsmorgni hefur a.m.k. átta Kassam eldflaugum verið skotið frá Gasa yfir til Ísraels, þrátt fyrir að enn standi formlega séð "vopnahlé" milli Ísraela og Palestínumanna. Samtals hefur 40 Kassam flaugum verið skotið á Ísrael frá því "vopnahléð" tók gildi. Sökum þessa hefur Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, gefið til kynna, að fljótlega muni Ísraelsher taka til við að svara þessum árásum, ef ekki verði breyting á: "Ísrael mun ekki taka neina áhættu með öryggi þegna sinna; þolinmæði okkar eru takmörk sett." Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, tók síðan undir þessar hálfkveðnu yfirlýsingar ráðherrans meðan á fundi hans og Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, stóð í Jerúsalem í gær. Aðstoðarmaður Olmerts varaði síðan Mahmoud Abbas, forsætisráðherra Palestínumanna, við, að þessar árásir verði að stöðva, eigi einhver friður að haldast á svæðinu, eftir að Kassam flaug lenti nærri skóla í bænum Sderot.
Það sem helst mælir á móti því, að Ísraelar svari fyrir sig, er, að ríkisstjórnin skilur mætavel, að með þessum árásum eru palestínsk hernaðarsamtök að egna Ísrael til árása, sem síðan yrði notaðar sem tilefni til enn frekari árása á Ísrael. Þá myndi hringrás ofbeldis og hefndarárása halda áfram, eins og Palestínumenn eru greinilega fúsir til að taka á sig, fyrir sitt leyti a.m.k. Í sömu mund berast þær fregnir, að Hamas ætli að fjölga verulega í vopnuðum hersveitum sínum.
2. Hizb'Allah hreyfingin í Líbanon heldur nú áfram að endurvopnvæðast, þrátt fyrir skilmála vopnahléssamnings Sameinuðu þjóðanna frá því í sumar m.a. þess efnis, að slíkt væri óheimilt. Í Jerúsalem Post á miðvikudag var m.a. rætt um, að samtökin væru nú að nálgast ófluga sinn fyrri styrk, frá því fyrir átökin í sumar. Þar hafa Sýrlendingar og Íranir lagt fram gríðarlegt magn vopna, m.a. mjög þróaðar eldflaugar og hefðbundin vopn. Fyrstu misserin eftir vopnahléð voru þessar vopnasendingar í orði kveðnu framdar í leyni, en það varð m.a. til þess, að ísraelskar eftirlitsflugvélar voru sendar til að fylgjast með -- og hlutu Ísraelar af þeim sökum skammir og hótanir eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna, sem jafnvel hótuðu að skjóta á vélarnar. Þeir hafa hins vegar þagað þunnu hljóði og látið vera að ibba gogg, þegar kom að vopnaflutningum Hizb'Allah, en þeir fara nú fram fyrir opnum tjöldum, enda á líbanska ríkisstjórnin nóg með að verjast stuðningsmönnum Sýrlendinga og Írana á eigin heimavelli og því óhægt um vik, þó einlægur vilji væri fyrir hendi, að stöðva enduruppbyggingu hernaðarveldis Hizb´Allah í S-Líbanon.
Líklegt er, að ef svo fer fram sem horfir, muni Ísraelar og Hizb´Allah-liðar fyrr en varir að undirbúa sig fyrir síðari hálfleik sumarátakanna, og jafnvel æfa "vítaspyrnur", fáist ekki úrslit þá eða í framlengingu. Bæði Hizb´Allah og Hamas liðar stunda nú heræfingar í Sýrlandi og/eða Íran, og jafnvel víðar. Jafnframt hafa Íranir og Sýrlendingar sent sérfræðinga til S-Líbanon, til að hafa umsjón með enduruppbyggingu vopnabúrs Hizb´Allah, að því að frést hefur, ásamt því að reyna stöðuglega að koma lýðræðislegri stjórn landsins frá völdum.
Meðan Íranir og Sýrlendingar leika sakleysingja á alþjóðavettvangi, en reyna á bakvið tjöldin að hleypa öllu í bál og brand í Miðausturlöndum, aftur og enn á ný, er engin von um, að friður haldist og enn síður að málefni Ísraela og Palestínumanna verði rædd í friðsamlegu andrúmslofti milli þeirra sjálfra.
Flokkur: Miðausturlönd | Breytt s.d. kl. 20:04 | Facebook
Athugasemdir
Ég trúi þér ekki - eru Hamans samtökin að skjóta eldflaugum á Ísrael í miðju vopnahléi? Þetta er eitthvað alveg nýtt og hefur aldrei sést áður.
Ætli Sveinn Rúnar og hinir í mannúðarfélaginu Ísland - Palestína verði ekki mættir fyrir utan utanríkisráðuneytið á morgun til að hvetja íslensk stjórnvöld til að fordæma þetta?
Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 02:16
Ójú, flaugunum rignir yfir; en íslenskir fjölmiðlar greina auðvitað ekki frá þessu, enda gætu mál þá litið þannig út, að Palestínumenn væru að reyna að egna til átaka: Það má ekki. Ef ekki er hægt að kenna Ísraelum um, er málið ekki fréttnæmt.
Snorri Bergz, 22.12.2006 kl. 08:20
Síðan þetta var skrifað, hafa a.m.k. fimm Kassam flaugar farið á loft, tvær reyndar fallið á palestínskt landsvæði á Gasa.
Snorri Bergz, 22.12.2006 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.