Mánudagur, 18. desember 2006
Byrgið og Kompás
Jæja, nú á ég von á, að umræðan haldi áfram um Byrgið, eftir Kompás-þáttinn í gær.
Mín skoðun er, að burtséð frá því, hvort Guðmundur Jónsson í Byrginu sé sekur eða saklaus, þá varð mér óglatt þarna í gær; ekki síst yfir þeim fréttaflutningi, sem þarna átti sér stað. Þetta er farið að minna á slúður- og sorpritið DV, meðan Mikael og Jónas stjórnuðu þar á bæ. Menn eru saklausir uns sektin er sönnuð fyrir dómi, en DV, og núna Kompás, skjóta fyrst og spyrja síðan.
Ég efa reyndar ekki, að maðkur sé í mysunni hjá Guðmundi, því miður, en ég veit ekki hvort allt það, sem sagt var þarna í gær, eigi við rök að styðjast. Engu að síður finnst mér spurning, hvort það sé hlutverk Kompáss að dæma menn til dauða með þessum hætti. Í fyrsta lagi er starf Byrgisins ónýtt. Það liggur ljóst fyrir, nema ríkisvaldið taki yfir og setji einhverja, t.d. Samhjálp, til að halda þessu starfi áfram. Hvað verður þá um alla fíklana, sem ekki eiga í önnur hús að venda? Í öðru lagi, þá er í raun lífi Guðmundar lokið. Hann mun ekki eiga sér viðreisnar von hér eftir og verður sennilega að flýja land, nái þessar öldur ekki að lægjast. Burtséð frá sekt eða sakleysi, er það óviðundandi að sjónvarpsstöð hrekji menn úr landi fyrir sakir, sem ekki hafa verið sannaðar fyrir dómi. Hver verður næstur? Flestir hafa einhverjar beinagrindur í skápnum; atburði í fortíðinni, sem þeir vilja helst gleyma. Aðrir hafa þær í stofunni.
Ef Guðmundur er sekur um lögbrot, á að dæma hann. Svo einfalt er það. Ef hann er sekur um siðleysi, hlýtur starf Byrgisins að hrynja, nema nýr aðili taki við.
En hvers vegna tekur Kompás sér það vald, að fella "dóm götunnar" yfir mönnum útí bæ, bara af því Stöð 2 vill innleiða hér bandaríska sjónvarpsmenningu? Miklu nær hefði verið, að Stöð 2 hefði látið lögregluna hafa þetta efni sitt, eða félagsmálaráðherra. Hvað kemur næst? Kókaínneytandi á Alþingi? Klámhundur í löggunni? Sjálfstæðismaður á fréttastofu útvarps?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.