Fimmtudagur, 14. desember 2006
Eiga framsóknarmenn að vera atvinnulausir?
Smá viðbót: blogg Björns Inga Hrafnssonar.
Hér fyrir nokkrum árum, sennilega 10-15, sá ég einhverja fræðilega samantekt yfir, hvaða stjórnmálaflokki væri best að tilheyra, já og vera virkur í, til að fá bitlinga. Samkvæmt þessari grein, sem hlýtur að hafa verið í einhverju dagblaðinu, var best að vera félagi í Alþýðuflokknum sáluga. Kratarnir væru nefnilega duglegastir að skapa störf fyrir trúa félaga sína.
Ég veit ekki hversu þetta er útbreitt nú til dags, en vinur minn og kollegi nokkur, innvígður í Sjálfstæðisflokkinn í marga áratugi, sagðist aldrei hafa notið þess, að vera meðal innstu koppa í búri flokksins. Eflaust hafa þó einhverjir sjálfstæðismenn notið sambanda sinna, en ég hef heyrt fleiri segja þetta sama og þessi vinur minn hin síðari ár, þrátt fyrir að flokkurinn hafi verið ráðandi í ríkisstjórn frá 1991. En á hinn bóginn virðist mér borgarapparatið vera gjörspillt, þar sem frambjóðendur, sem ekki ná kjöri, virðast eiga greiðan aðgang að allskonar nefndarstörfum og setu í stjórnum fyrirtækja borgarinnar. Í sjálfu sér finnst mér það eðlilegt, því nefndir og fyrirtæki borgarinnar skulu a.m.k. að einhverju leyti lúta pólítískri forsjá, þó mér sýnist R-listinn hafa verið full stórtækur í, að kratavæða borgarkerfið.
Framsóknarflokkurinn hefur á síðustu misserum verið harkalega gagnrýndur fyrir að pota sínu fólki í stöður og störf á vegum hins opinbera, eða fyrirtækja, sem áhrifamenn í flokknum eiga eða stjórna. Sumir hafa jafnvel talað um, að flokkurinn væri ekkert annað en atvinnumiðlun. Og nú hefur komið upp mál hálfnafna míns, Óskars Bergssonar, sem þiggur 390.000 krónur á mánuði fyrir að gera samasem ekki neitt, og Péturs Gunnarsson, sem tók að sér einhver verkefni á vegum Björns Inga Hrafnssonar, enda pólítískur félagi og vinur. Hann rekur þetta sjálfur í bloggi sínu.
En mér finnst þetta vera full harkalegt, t.d. af þeim sökum, að vinstri sinnaðir sjónvarps- og aðrir fjölmiðlamenn, sem nú geisast fram á völlinn og ráðast að framsóknarmönnunum, sáu enga ástæðu til að fjalla um hið sama, þegar R-listinn sálugi var við völd. Jafnframt er ljóst, að ef ég væri í stöðu Björns Inga, myndi ég ráða til starfa fólk sem ég treysti. Þá kæmu fyrst upp í hugann þeir, sem ég hefði góða reynslu af. Finnst mér ráðning Péturs í smáverkefni vera þess eðlis, og eðlilegt. En ég veit ekki um Óskar Bergsson, hins vegar, enda virðist hann hafa verið látinn hafa bitlinga til að þagga niður í honum, en hann var með einhver mótmæli í vor. Ég fæ ekki séð, að hann sé neitt sérstaklega hæfur, eða hæfari en aðrir, í það starf, sem um ræðir. En á hinn bóginn er eðlilegt, að hann sé fulltrúi Framsóknarflokksins í alls konar nefndum, og er þar ekki verri en hver annar.
En að lokum vil ég segja, og koma á framfæri við ráðandi sjálfstæðismenn í borginni: Hafiði ekki einhverja góða bitlinga fyrir fátækan sagnfræðing? Málið er nefnilega, að það versta við hina meintu spillingu er, að komast ekki í hana sjálfur. Það sem mest ergir veslings kratana er ekki að spilling sé ráðandi í t.d. borgarkerfinu; heldur að fá ekki að njóta hennar lengur, eftir að hafa setið við kjötkatlana og étið sig sadda í mörg herrans ár.
Sjálfur þekki ég marga áhrifamenn, aðallega í mínum flokki, þeim bláa. En ég hef aldrei beðið um, og aldrei fengið, neina bitlinga úr þeim herbúðum. Heldur ekki frá fyrrverandi erfðaprinsi Framsóknarflokksins, sem er giftur náfrænku minni og stjórnar nú stórfyrirtæki. En á þessum síðustu og verstu tímum verða þeir, sem ekki eru með þannig menntun að þeir fái "milljón eða meira bankastarf", að taka því sem býðst. Jafnvel þótt vinir, frændur eða félagar skaffi.
Og varla viljum við að framsóknarmenn gangi um atvinnulausir í stórum hópum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.