Miðvikudagur, 13. desember 2006
Aldraðir og öryrkjar
Jæja, þá líður að jólum einu sinni enn. Það er einkum nú, að erfiðast er fyrir þá, sem minna mega sín í samfélaginu, að taka þátt í því. Það á sérstaklega við öryrkja með börn á framfæri.
Mig grunar, að desember mánuður sé ekki tími hátíðar og gleði hjá ofangreindum. Þrátt fyrir að ég sé fylgjandi samdrætti í ríkisrekstri og útgjöldum, tel ég öryrkja og aldraða búa við skertan hlut af ríkiskökunni. Þegar embættismenn fá kannski sömu upphæð í risnu fyrir nokkurra daga ferðalag erlendis, t.d. á vegum ríkisins, og öryrkjar fá á heilum mánuði, þá er eitthvað að í samfélaginu.
Nýkratar sögðu nýlega hér á blogginu, og vitnuðu í ISG, að hleranamálið væri svartur blettur á sögu Íslands. Greinilegt er, að sá flokkur er orðinn málsvari einhverra annarra en fátæka fólksins, skoðanalausa fólksins, tel ég nærri lagi. Ég held, að þessi ræða ISG sé svartur blettur á sögu Íslands. Hvernig dirfist formaður næst stærsta flokks landsins (a.m.k. fram að næstu kosningum, þegar VG fer vísast yfir afturhaldskommana) að láta svona út úr sér? Þetta er önnur ræðan á stuttum tíma, þar sem formaðurinn sýnir, að eitthvað er notað í flokknum og henni sjálfri.
Margir raunverulegir svartir blettir eru á sögu Íslands: Píningsdómur 1490 og eftirfylgjandi áhugasemi þingmanna um að leggja landið í rústir, vistarbandið, og alls konar atriði, sem snertu hag fólksins verulega. Síðan má nefna stefnu stjórnvalda í garð erlendra flóttamanna, en hún hefur lengst af verið til háborinnar skammar og stjórnvöld logið hreint út í skýrslum til erlendra stofnana, og nú síðast stefnu stjórnvalda í garð öryrkja og að nokkru leyti aldraðra.
Aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum öryrkja er einn af svörtum blettum í sögu landsins, og svartur blettur á annars ágætri ríkisstjórn, sem nú hefur setið í meira en áratug (þ.e. sömu flokkar). Láglaunafólk getur unnið aukavinnu og lyft sér upp í launum, það geta ekki allir öryrkjar. Og jafnvel þeir sem geta unnið eitthvað með, missa þá bætur í staðinn. Að vísu er þetta hugsanlega að lagast, ef úr verður að setja 300.000 frítekjumark, áður en bætur skerðast. En þessi viðmiðunarmörk þyrftu að vera 500.000 að minnsta kosti. Og loksins er persónuafslátturinn að hækka úr 79.000 í 90.000 c.a., ef ég man rétt. Það er allt í áttina, en persónuafsláttur þyrfti að vera amk 120.000.
Ég varð vitni að því nýlega, í stórmarkaði, að barn var að biðja móður sína um eitthvað, en hún neitaði og sagði: "Þú veist við höfum ekki efni á þessu." Barnið þagði, leit niður og gekk áfram með móður sinni. Það var greinilega orðið vant því, að þurfa að neita sér, eða láta neita sér, um það, sem flest önnur börn fá, og það oft.
Stétt með stétt drengir; stjórnvöld bera ekki síður ábyrgð á þeim þegnum, sem búa við skertan hlut. Við ættum að hafa efni á því, sem þjóð, að hlúa betur að þeim, sem minna mega sín.
Öryrkjar verr staddir en áður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.