Þjóðernisvarnir og innflutningur útlendinga

"Útlendingavandamálið" er alls ekki nýtt af nálinni á Íslandi; áður var það aðeins huglægt, ekki landlægt. En forðum var annar tíðarandi og ólík viðhorf, og Íslendingar fordómafylltri gagnvart framandi útlendingum en nú er. 

Á Íslandi var búseta útlendinga bönnuð frá 1490 til 1787 og aðeins með ströngum skilyrðum fram til 1855. Eftir að innflutningur útlendinga var laga­lega séð frjáls með tilkomu stjórnarskrár Íslands 1874, þegar tak­mark­an­ir á bú­setu af trúarlegum ástæðum voru afnumdar, höfðu Íslendingar þó þann vara á sér, að hleypa hingað aðeins þeim mönnum, sem orðið gætu landinu til uppbyggingar.

tryggviÍslendingar voru hrein, norræn þjóð (a.m.k. að eigin mati) og vildu halda þeim einkennum sínum, en ekki smita þjóðina af framandi ætterni. Tryggvi Þórhallsson, ritstjóri og síðar for­sætisráðherra, virðist hafa höggvið nærri hinum almennu viðhorfum Ís­lend­inga um útlendinga, þegar hann reit eftirfarandi í Tímann:

Aðal­vand­­kvæðin fyrir Ís­lend­inga, ef þeir vilja vernda séreðli sitt, eru ein­mitt þessi, að landið er svo auðugt, að fá­menn þjóð virðist tæplega get­að ráð­­ið við alt það, sem lagt er upp í hend­ur hennar. Ekki er ó­senni­legt að fólk leiti hingað frá öðr­um lönd­um. Það þarf ekki iðnaðinn til. Sjávar­út­veg­ur­inn reynir fyr en varir að draga til sín starfsafl frá útlönd­um. Og mörg­um sveita­bændum mun koma hið sama í hug.

Tryggvi lagði til, að helst yrði leitað fanga á slóðum Vest­­ur-Ís­lendinga í Kan­ada og heim­­flytj­end­ur það­an boðn­ir vel­komnir með hlunn­­ind­um. Væn­leg­asti inn­flutn­ing­­ur útlend­inga væri að sjálf­sögðu fólk af ís­lensk­um stofni. Í annan stað væru „frænd­ur okkar Norð­­menn, sem bæði laga sig vel eftir skilyrðum landsins og eiga auð­velt með að verða hold af holdi íslensku þjóð­ar­innar." Síð­an kæmu „fjar­­skildu frænd­­­urnir" Danir, Þjóð­­verjar og Bret­­­ar, en aðrar þjóð­ir töld­ust víst í hópi óæskilegra út­lend­­inga. Annars taldi höf­undur enga bráða hættu stafa að þjóðerni Íslend­inga og því bæri að svala hungri og þorsta lands­manna að flytja inn erlent vinnuafl, „til að opna auð­­lindir lands­ins."[1] Tryggvi bætti við: „Eins og fyr hefir verið sann­­að, hljót­­um við að fá inn­flytjendur. Vand­­inn er sá að fá eftir­sókn­ar­­verða menn, sem hverfa inn í ís­lensku þjóðina, og efla hana með því að verða hold af hennar holdi. Hinsvegar stendur þjóð­­erninu hætta af þeim inn­flytj­end­um, sem ekki læra tungu þjóðar­inn­ar, allra helst ef þeir telja sig beitta ó­­eðli­leg­um höftum, og mynda eins­kon­ar ný­lendu utan við hið ís­lenska þjóð­félag og í and­­stöðu við það."[2] Íslendingar voru af norrænu ætterni og ætluðu helst ekki að leyfa inn­flutning of margra af fjarskyldu þjóðerni.

Komu merki þess meðal annars fram á Alþingi Íslendinga 1903, þegar Valtýr Guðmundsson flutti þings­álykt­unar­til­lögu um „fólks­­­­­flutn­inga til Ís­lands", sem varð svo að lögum. Þannig buðu Ís­lend­ingar til sín innflytjendum frá Nor­egi, enda væru þeir skyldastir Íslend­ingum í þjóðerni og menningu. valtyrInn­flutningi finnskra bænda var hins vegar hafnað, enda væru þeir framandi þeim norrænu mönnum, sem byggju hér á landi.[1] Jónas landlæknir Jónassen var einn þeirra, sem amaðist við inn­­flutn­­ingi Finna, „sem aldrei myndu samlagast ísl­[ensku] þjóð­erni." Þeir myndu „hafa mjög ill áhrif á þjóðina, fyrst og fremst af því, að megn­ið af því fólki, sem inn flyttist, mundi verða tómt rusl. Það kynferðið mundi bland­­ast sam­an og hafa í för með sér ýmsa ósiði og ef til vill sjúk­dóma."[2] Eitt­hvað hefur þing­­mönn­um blætt finnski þjóð­flokk­urinn í aug­um, því Valtýr leið­rétti sjálfan sig og sagði, að „með þessu á­kvæði um Finna, var ekki átt við hina eig­in­­legu Finna, heldur hina sænsku tal­andi Finna, sem byggja alla strand­lengj­una í Finn­­landi."[3] Þannig var það gjört ljóst, að samhliða því að útlendingar festu hér rætur og gengju inn í þjóðina, urðu þeir að vera á­kveðnu marki brenndir. Við sjáum hér koma fram þá stefnu, sem var ríkjandi á Íslandi fram á hin síðustu ár, að Íslendingar væru norræn þjóð og helst aðeins fólk af skyldum þjóð­stofnum fengi að tilheyra henni.

Í umræðum á Alþingi 1927 um atvinnurétt útlendinga á Íslandi kom það enn og aftur í ljós, að útlendingar voru að sönnu velkomnir, en þá aðeins ef þeir settust hér að til frambúðar og væru af norrænum upp­runa. Bernharð Stef­áns­­son og fleiri óttuð­­ust, að innflutningur útlendinga gæti bernharðskemmt ís­lenska kyn­­stofn­­­inn. Þing­menn voru þó sammála um það, að Danir og Norð­menn teld­ust engin ógn­un við þjóðernið, en hins vegar væri hætta á að hefj­ast myndi inn­flutn­ing­ur „Pól­verja, Rússa og annarra álíka fjarskyldra þjóða, ef bænd­um yrði leyfð sú und­an­þága að mega ráða sjer er­lend hjú."[4] Héðinn Vald­­imars­son var einn þeirra sem lýsti yfir hvað mest­um ótta við slíkan inn­flutn­ing. Danir og Frakkar hefðu flutt inn Pól­verja í stórum stíl, enda væru þeir bæði ó­dýrt og gott vinnu­afl. Hins veg­ar hefðu pólsku verka­menn­irnir dreg­­ið úr þjóð­­inni vegna marg­­vís­legra bresta sinn­ar.[5] Flestir þing­menn töldu þó, að enga hættu staf­aði af Pólverjum vegna þess, að ís­lensk­ir bænd­­ur myndu aldrei flytja inn slíkt fólk til landsins. Ekki fer hjá því, að hér hafi for­dómar blandast inn í umræðuna, en í ljósi tíðar­andans kemur það kannski ekki á óvart.

En útlenda hættan var ekki eingöngu bundin við atvinnusókn erlendra manna, heldur biðu spillingaröflin færis við landhelgi Íslands og þráðu víst ekk­ert frekar en það, að smita Íslendinga af einhverju óæskilegu. Finnskir sjómenn, sem reynt höfðu að kaupa íslenskan fisk í höfn eða jafnvel utan landhelgi Íslands 1932, voru til að mynda send­ir í burtu að ráði land­læknis. Ástæðan var einföld: Finnskir sjó­menn væru vafalaust smit­berar næmra sjúk­dóma og gilti það engu, þótt finnskur læknir væri stað­settur á mið­unum, til að annast um og varðveita góða heilsu sjómannanna. Urðu nokkur bréfaskrif milli finnska ræðis­manns­ins á Ís­landi og ís­lenskra stjórn­valda, þar sem sá fyrr­nefndi gagnrýndi stjórnvöld fyrir aðgerðir þeirra. Ásgeir forsætis­ráð­herra Ásg­eirs­son tók þó vel í mál­ið, því lands­­menn myndu hagnast á við­skipt­um sínum við Finna, en þó af­réð ríkis­stjórnin að stöðva þessi viðskipti, að kröfu land­læknis, enda væru Finnar dularfullur kynstofn og ósamræmanlegur þeim íslenska.[6]

En hvað ætli Tryggvi, Jónas landlæknir og Vilmundur landlæknir og margir fleiri áhrifamenn myndu segja nú, þegar Pólverjar og aðrir "framandi útlendingar", búa hér í þúsundavís?

 

[1]  „Þjóðernisvarnir", Tíminn 9. ágúst 1919.

[2] „Enn um þjóðernisvarnir", Tíminn 23. ágúst 1919. (Leturbreyting).

[1] Stjórnartíðindi 1903, 334.

[2] Alþingistíðindi 1903, 687­-689,

[3] Sama heimild, 690.

[4] Alþingistíðindi 1927, 162-­163.

[5] Sama heimild, 167, 177-­178.

[6] ÞÍ. DR. db. 7/807: Ýmis skjöl.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband