Fimmtudagur, 7. desember 2006
Samsæri þagnarinnar?
Upp á síðkastið hefur Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og blaðamaður, rætt nokkuð um áhrif eigenda fjölmiðla á fréttaflutning þeirra. Ég hef lítið fylgst með þessari umræðu, en lesið það sem Guðmundur hefur skrifað. En nú hófst þessi fimmtudagsmorgunn á því, að taka aðeins til á skrifstofunni, fjarlægja gömul ljósrit, sem ég er búinn að nota eða mun ekki nota, skila bókasafnsbókum og þess háttar. En þar rakst ég á merkilega grein, sem ég hafði af einhverjum ástæðum ljósritað, þegar ég las gömul blöð vegna ákveðins verkefnis, en síðan hent beint í stóra ljósritabunkann og ekki skipt mér meira af. Innihald þessarar greinar snýr einmitt að því, að eigendur fjölmiðla, beint eða óbeint, hafa áhrif á fréttaflutning þeirra, með einum eða öðrum hætti.
Höfundur greinarinnar hefur mál sitt á að segja:
Undanfarin misseri hefur ýmsum orðið tíðrætt um hlutverk fjölmiðla í íslensku þjóðfélagi og möguleika þeirra til að fjalla um atburði og málefni á gagnrýnan hátt. Umræðan hefur einkum beinst að þeim skorðum sem stjórnvöld og aðrir aðilar setja fréttaflutningi og málsmeðferð í fjölmiðlum. Ritstjórar og blaðamenn hafa bent á takmarkaða upplýsingaskyldu stjórnvalda, sjálfdæmi embættismanna, hvað snertir fréttir af athöfnum þeirra, leyndarkvaðir á opinberum gögnum og fjölmörg önnur atriði sem hindra opna umræðu um málefni þjóðarinnar.
Þetta gæti í raun átt við í dag, annars vegar hvað snertir "hleranamálið" svokallaða og starfsemi íslenskrar leyniþjónustu, og hins vegar áhrif eigenda ýmissra fjölmiðla, þó einkum Fréttablaðsins, sem hefur um hríð leynt og ljóst gengið erinda aðaleigenda sinna í dómsmáli, sem þeir hafa staðið í. Greinarhöfundur heldur síðan áfram og talar um samsæri þagnarinnar, þegar forvígismenn fjölmiðla neita að fjalla um ákveðin mál -- láta sem þau séu ekki til, eða með öðrum hætti sniðganga þau, ef tekið er tillit til, að þau ættu, alvarleikans vegna, að fá töluverða umræðu.
Hinni gagnrýnu og rannsakandi blaðamennsku er meðvitandi einungis beint í tilteknar áttir. Sumum áhrifamiklum aðilum er algerlega hlíft við hinu gagnrýna ljósi. Það er því ekki nóg að benda á skorður hins opinbera, þótt bölvaðar séu, stjórnendur fjölmiðla verða einnig að hafa manndóm til að líta í eigin barm og ástunda hlífðarlausa sjálfsgagnrýni. Þeir eru ekki stikkfrí.
Höfundur tekur síðan fjölmörg dæmi um þetta sama frá Bandaríkjunum, þar sem stjórnvöld og auðkýfingar komist "stikkfrí" frá rannsóknarblaðamennsku (tekið skal fram, að þessi grein er skrifuð hálfum áratug eða meira frá Watergate!) og hinu gagnrýna ljósi. Þetta eigi sér líka stað á Íslandi. "Hefur máttur auglýsingafjármagnsins hindrað umfjöllun um málefni íslenskra stórfyrirtækja? Hvaða fyrirtæki hafa svo sterka markaðsaðstöðu, að þau geta treyst því að fjölmiðlarnir takmarka sjálfkrafa umfjöllun um málefni þeirra?" Fjölmiðlarnir "virða því í reynd mátt fjármagnsins og vilja stjórnvalda, þeir forðast fjölmarga viðkvæma málaflokka."
Nú, síðan gerist það, að um 25 árum síðan reyna stjórnvöld á Íslandi að setja fjölmiðlalög, þar sem reynt var að takmarka eignarhald fjársterkra einstaklinga á fjölmiðlum, einmitt með það í huga, m.a., að takmarka eða hindra "samsæri þagnarinnar." Þá hefði mátt ætla, að ofangreindur greinarhöfundur færi í fararbroddi þeirra, sem væru hlynntir því, að stórfyrirtæki og auðkýfingar gætu ekki ráðskast með fjölmiðla í eigin þágu, í eigin hagsmunaskyni. Nei, umræddur greinarhöfundur var þá orðinn forseti Íslands og neitaði að skrifa undir fjölmiðlalög þessi. Skyndilega var máttur stórfyrirtækjanna mikilvægari en hagsmunir lesendanna. Já margt gerist á 25 árum.
Sjá: Ólafur Ragnar Grímsson: "Hin sjálfvirku bönn - frelsisskerðing í fjölmiðlum", Þjóðviljinn 5. mars 1977.
Meginflokkur: Saga | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 11.12.2006 kl. 17:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.