Þriðjudagur, 5. desember 2006
Úr pólítíkinni
Skemmtileg grein birtist á Vefþjóðviljanum (www.andriki.is) í morgun. Þar segir m.a. frá því, að þjóðin sé samtaka um vantraust á þá þrjá þingmenn Samfylkingarinnar, sem nú ætli að draga sig í hlé.
Formaður Samfylkingarinnar hélt ræðu á dögunum og útskýrði þar fyrir öllum hvernig stæði á því undri að Samfylkingin hefði, þrátt fyrir vonir þjóðarinnar, ekki enn komist til valda. Á því reyndist vera skýring sem ekki tengdist stefnu flokksins og alls ekki formanninum. Þjóðin treystir ekki þingflokki Samfylkingarinnar, sagði formaður flokksins og virtist sjálf ekki gera neinn ágreining við þjóðina um það vantraust, en bætti við öruggur í fasi að frá og með næstu kosningum myndi þetta allt breytast.
Í framhaldinu segir síðan, að sami þingflokkur verði áfram næsta kjörtímabil (vísast miðað við nánast óbreytt fylgi) að þessum þremur þingmönnum, sem hverfa á braut. Jóhann Ársælsson og Rannveig Guðmundsdóttir hætta, og Guðrúnu Ögmundsdóttur var (ó)skiljanlega hafnað.
Það er því brotthvarf þeirra Rannveigar, Jóhanns og Guðrúnar sem veldur því að þjóðin, sem í dag treystir ekki þingflokki Samfylkingarinnar til neins, mun á morgun láta drauminn rætast og kjósa þau Ingibjörgu Sólrúnu, Jóhönnu, Lúðvík, Ástu Ragnheiði og félaga.
Formaðurinn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sýnir ekki pólítíska ábyrgð í málinu, þar eð hún ber sjálf ábyrgð á slakri stöðu flokksins, málefnaskorti, stefnuskorti, almennum leiðindum og vantrausti kjósenda á flokknum, já flokknum, en ekki bara þingflokknum. Kjósendur virðist þess í stað flykkjast um Vinstri græna, sem hafa frá upphafi haft skýra stefnu og haldið sig við hana, meðan Samfylkingin skiptir um stefnu eftir því hvernig vindurinn blæs og nýjustu skoðanakannanir sýna, að landsmenn hafi áhuga á. Þessi tækifærissinnaði vinstriflokkur, klofinn í herðar niður milli hægri krata og gamalla komma og kvennalistakellinga, mun vonandi fá það sem hann á skilið, afhroð í næstu kosningum.
En talandi um vinstri græna og gamla komma, þá heldur Vefþjóðviljinn áfram og snýr sér nú að hinum sósíalistaflokknum, Vinstri hreyfingunni-grænu framboði, og ræðir aðeins um nýafstaðið prófkjör flokksins á höfuðborgarsvæðinu og segir, að þar hafi frambjóðendur m.a. komist í öruggt þingsæti, skv. skoðanakönnunum, með aðeins 400 atkvæði að baki sér.
Á dögunum var haldinn aðalfundur Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Aðeins um fimmtánhundruð manns tóku þátt í fundinum enda var hann aðeins opinn fyrir reykvíska félagsmenn á tilteknum aldri og auk þess haldinn á einum stað í bænum og það um miðjan virkan dag. Ekki var því við öðru að búast en fundurinn yrði fámennur og hvor formannsframbjóðandi hlyti aðeins um sjöhundruð atkvæði eða svo. Öðru máli gegnir hins vegar um glæsilegt prófkjör vinstrigrænna nú um helgina þar sem flokksmenn á öllum aldri og ekki aðeins úr Reykjavík heldur einnig Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og öðrum sveitarfélögum suðvesturkjördæmis komu á einhvern þriggja kjörstaða og kusu. Þar mættu samtals um þúsund manns til að velja á milli þrjátíu frambjóðenda svo að hver frambjóðandi hefur að meðaltali dregið langt yfir 30 kjósendur á kjörstað. Til að gera prófkjörið enn glæsilegra mátti svo kjósa þrjá frambjóðendur í hvert sæti.
Það eru því fleiri ungir sjálfstæðismenn í Heimdalli en vinstri grænir á höfuðborgarsvæðinu; þ.e. fleiri sem komast frá til að taka þátt í kosningu á vinnu/skólatíma í miðri viku, en kusu í prófkjöri á frídegi hjá VG á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þetta er víst öll "stórsóknin", sem Vinstri grænir voru að státa sig af. Síðan hnykkja andríkismenn út með: "Annars er sérstakt að á aðalfundi Heimdallar hafi tvær ungar konur fengið um sjöhundruð félaga sína til að kjósa til sig formennsku í litlu félagi. Hvers vegna fengu þær ekki þetta fólk til að skrá sig í Vinstrihreyfinguna grænt framboð og kjósa sig á þing?"
En um prófkjör VG. Fyrir nokkrum mánuðum síðan lagði ég hart að Katrínu Jakobsdóttur, varaformanni VG, að drífa sig nú á þing hið snarasta. Hún gaf ekki afdráttarlaust svar, en mig grunaði, að hún hefði þá þegar ákveðið að bjóða sig fram. Rök mín voru, að þrátt fyrir að ég væri í raun ekki algjörlega sammála neinu öðru í stefnu VG en andstöðu við inngöngu í EB, væri skárra að fá gáfaða konu inn á þing, þó hún hefði að mínum dómi rangar skoðanir, en vitleysinga með rangar skoðanir. Og nóg er af slíku fólki á þingi. Katrín náði síðan góðri kosningu í fyrsta sæti í einum af þremur kjördæmunum, sem í hlut áttu. Síðan bauð Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands, sig líka fram og fékk kosningu í 2. sætið, vísast í liði með Ögmundi, sem gæti orðið frambærilegasti stjórnmálamaður landsins, myndi hann skipta um skoðun á flestum málum og hætta þessu nöldri. Báðar þessar konur, sem ég þekki en þó mismikið, eru frambærilegar, Lilja þó að vísu óreynd á þessum vettvangi, en um hæfileika hennar og vitsmuni þarf ekki að fjölyrða; og er þar að auki ein yndislegasta kona sem ég þekki.
En mér sýnist, að þessar tvær hæfu konur séu fulltrúar tveggja arma: Lilja er meira græn en rauð, Katrín meira rauð en græn (+Lilja femínisti, Katrín sósíalisti); rétt eins og Ömmi er meira rauður en Steingrímur (nema í útliti), en Steingrímur virðist vera fulltrúi "Ragnars Arnalds armsins" gamla, fyrst og fremst þjóðernissinni af 30. mars 1949 skólanum og ætti kannski frekar heima í Frjálslynda þjóðernissinnaflokknum nema fyrir það, að hafa smitast af bæði rauðu og grænu með árunum. SJS var þó meira rauður í gamla daga...rétt eins og Ómar Ragnarsson.
En að Alþingi. Með Lilju og Katrínu á Alþingi mun meðalgreindarvísitala þingmanna hækka nokkuð, þó á móti komi að nokkrir "frjálslyndir" og Árni Johnsen verða þar víst á næsta þingi...ja, svo ekki sé talað um ónefnda framsóknarmenn. En vera þessara manna þar er og verður auðvitað "tæknileg mistök" kjósenda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.