Afleikurinn mikli

 

Sagnfræðingar og aðrir hafa löngum skellt skuldinni af síðari heims­styr­jöld­­­inni á herðar Þýskalandi. Að ákveðnu leyti er það rétt. Þjóð­verj­­ar hófu heimsstyrjöldina óformlega með því að hunsa ákvæði Versala­samningsins, innlimunKiev Súd­eta­héraða Tékk­ó­­slóvakíu og Austur­ríkis. Bein átök við Vestur­veldin hófust svo þeg­ar Ad­olf Hitler skipaði herjum sínum að gera innrás í Pólland, 1. sept­­­­ember 1939. En þjóðir Evrópu hefðu aldrei þurft að hleypa nasistum svo langt, aukinheldur voru það Bretar og Frakkar sem lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum, ekki öfugt. En nóg um það.

  Bretar höfðu talið að hafa mætti hemil á Hitler með því að gefa honum eftir forn-þýsk svæði í Mið-Evrópu. Margir breskir stjórn­mála­­menn höfðu aukinheldur samúð með og studdu jafnvel sameiningu Þjóð­­verja í eitt ríki. Þannig gæti myndast öflugt mótvægi við Sov­ét­ríkin, ríki sem hrund­­­­­­ið gæti hugsanlegri atlögu kommúnistaríkisins í austri gegn lýð­ræð­­­is­­­ríkjum Evr­ópu. En utanríkisstefna Bretlands, leik­ur­inn mikli, var eins lítt skynsamleg þá og hún hafði alltaf verið. Eins og leikurinn mikli hafði getið af sér styrjaldir í tæp 200 ár leiddi þessi stefna Breta til styrj­aldar að þessu sinni.

  Þegar í upphafi árs 1933 gerði breska sendiráðið í Þýskalandi stjórn­völdum í London nákvæma grein fyrir eðli ríkisstjórnar Adolfs Hitl­ers: Gyðingaofsóknir, morð á og fangelsanir pólítískra andstæðinga, gífurleg vopnaframleiðsla og hernað­ar­uppbygging til árásarstríðs. Bresk stjórn­völd vissu því nákvæmlega hver stefna Hitlers var. Joach­im von Ribb­en­­­trop, sendiherra Þýskalands í London og síðar utanríkisráðherra, hafði lagt fram samningsdrög sem hljóðuðu upp á að Þýskaland myndi ekki ásæl­­­ast lönd eða áhrif Breta­veldis í stað þess að Bretar gæfu Þjóð­verjum frjáls­ar hendur í austri.



Bretar vissu þegar árið 1933 að Hitler ætlaði í stríð við Sovétríkin. Þeir töldu víst, að mörgu mætti fórna til að hjálpa hon­­um í því að kveða niður komm­únismann. Því tóku Bretar með silki­hönsk­­um á nasistum Hitl­ers, ólíkt þeim gaddasvipum sem þeir höfðu stöð­­ugt lamið með lýð­ræðis­kjörin og friðsöm yfirvöld Weimar-Þýska­­­lands. Ráðherrar sem höfðu barið í gegn niðurlægingu Þýskalands 1932 tóku nú að frið­mæl­ast við einræðisherrann í Berlín. Jafnvel þegar Frakk­ar reyndu að hafa hemil á Þjóðverjum, mættu þeir skilningsleysi af hálfu ráða­manna í London.


Árið 1935 höfðu Frakkar og Ítalir myndað óformlegt harð­línu­bandalag gegn Nasista-Þýskalandi. Á ráðstefnu Frakklands, Ítalíu og Bret­lands í Stresa tókst Bretum að kæfa niður harðlínuandstöðu ríkj­anna tveggja. Og til að bæta við smá olíu á eldinn, beindi breski utan­ríkisráðherrann og síðar fjármálaráðherrann John Simon augum Múss­ól­ínis frá Þýska­landi og gaf honum þegjandi samkomulag sitt við innrás Ítala í Abystalinss­in­ínu (Eþíóp­íu). Simon leit á þetta fornfræga sjálf­stæða ríki í Afríku eins og krabba­mein í líkama heimsins og á keis­ara þess sem Djöfulinn sjálf­an, einkum vegna þrælahalds sem enn við­gekkst í landinu. Mússólíni væri því vel­kom­­ið að strunsa þangað inn og leggja landið undir sig. Ítalía, sem fylgt hafði vinsamlegri utan­ríkis­stefnu gagnvart Bretaveldi frá valda­töku Múss­ólínis 1922, fékk nú að njóta ávaxtanna.


En skömmu eftir að Mússólíni réðist inn í Abessinínu sneru Bretar við blað­­inu og samþykktu refsiaðgerðir gegn Ítalíu. Því til stað­fest­ingar var Anth­­ony Eden, gamalgróinn Þjóðverjavinur og hatrammur andstæð­ing­ur Ítala, gerð­ur að utanríkisráðherra. Með efnahags­þving­ununum á hend­ur Ítalíu var Mússólíni allt að því rekinn á fjör­ur Hitlers og Þýska­lands nasista. Enn einn fáránleiki breskr­ar utan­ríkis­stefnu var orð­inn að veruleika og ekki sá síðasti.



NevilleÁrið 1937 tók Neville Chamberlain við húslyklunum að Downing­stræti 10 í London og þarmeð löglegri setu í stóli forsætisráðherra Breta­veldis.  Hann hræddist fasistaógnina í Evrópu og leit á spænsku borg­ara­­styrjöld­­ina sem vísi þess sem koma myndi ef ekki yrði gripið í taumana. En Chamberlain réði lítið við Eden utanríkisráðherra sem skeitti því litlu þótt Hitler ógnaði Austur-Evrópu og Austurríki. Eden, væglega vitiborinn maður sem stjórnaðist meira af tilfinningum en rökhyggju, var jafnvel hlynnt­­­­ur inn­limun Austurríkis í Þýskalands, en afdrif Austurríkis voru helsta deilu­­efni Hitlers og Mússólínis. Hann hafði viðbjóð á Mússólíni og Ítal­íu en aðdáun á Þýskalandi og lét hann þær persónulegu tilfinn­ing­ar hlaupa með sig og hálfa heims­byggðina í gönur.



Neville Chamberlain, friðsamur og veikgeðja stjórnmálamaður, var of seinn að átta sig og þegar hann tók loksins af skarið og vék Anthony Ed­en úr embætti, einkum vegna þess að Eden neitaði að samþykkja banda­­lag við Mússólíni til að hindra innlimun Austur­rík­is, var það orðið of seint. Hersveitir Hitlers voru komnar að landa­mærum Austurríkis og skömmu síðar var innlimun þess í Þýskaland staðreynd. Að því búnu vakn­aði Chamberlain upp við þann vonda draum að nú gæti Tékkó­slóv­ak­ía ekki lengur varist þýskri árás, nú þegar hernaðaraðstaða í Austur­ríki væri á valdi Þjóðverja. Því reyndi hann að friðmælast við Hitler með því að gefa eftir tékknesku Súd­eta­­hér­uð­in, en þau voru einkum byggð Þjóð­verjum.


fasistarFrakkar og Sovét­menn voru hins vegar tilbúnir að berjast við Hitler til að bjarga Tékkó­slóv­akíu. En eins og Eden hafði hatað Ítalíu, hataði Chamb­­­­e­rlain kommún­ista­ríkið í austri. Hversu mikil sem ógnin væri frá Hitlers-Þýska­landi teldist hún skömminni skárri en rauða pest­in í austri. Hann neitaði algjörlega að berjast við hlið Sovétríkjanna til að bjarga Tékk­ó­sló­vak­íu og sendi leynileg skilaboð til Hitlers og Mússól­­ínis. Þau leiddu til friðar­ráð­stefn­unnar í München í september 1938, þar sem Chamb­­erlain samþykkti skilmála Hitlers í andstöðu við samþykktir eigin ríkis­stjórnar.


En vonir Chamberlains um að Hitler myndi láta staðar numið við inn­limun Austurríkis og Súdetahéraðanna urðu að engu í mars 1939 þegar þýskar hersveitir þrömmuðu inn í Prag. Bretar höfðu gefið Þjóð­verj­um eftir hinn forna Bæheim og Mæri og nú var röðin komin að Pól­landi sem hafði stærra „þýskt" land innan mæra sinna en nokk­uð annað ríki. Þegar Hitler krafðist þess að pólska hliðið og frí­ríkið Danzig, sem aðskildu meginland Þýskaland frá Austur-Prúss­landi, yrði sameinað Þýskalandi lýstu Bretar yfir vernd Póllands.


Chamberlain vissi þó að varnir Póllands yrðu aðeins tryggðar með samvinnu Sovétmanna, braut odd af oflæti sínu og hóf leynilegar samninga­viðræður með Frökk­um og Sovétmönn­um um bandalag gegn Hitler og stöðvun útþenslu Þýska­lands í austur. En Chamber­lain lék tveimur skjöldum. Hann leit enn á Hitler sem skjöld Evrópu gegn kommúnista­hættunni og sumarið 1939, meðan hann stóð enn í samningum við Stalín, kom hann á biðils­bux­un­um til Hitlers og Mússólínis. Stalín, sem vildi helst af öllu koma á banda­­lagi með Bret­um, komst að svikum Chamberlains og sendi þá erin­­dreka sína til Berlínar.


Skömmu síðar sömdu Joachim von Ribben­trop, utanríkis­ráð­herra Þýska­lands, og Vlad­islav Molotov, sovéski starfs­bróð­ir hans, um skipt­ingu Póllands og hluta Evrópu milli Þýskalands og Sov­ét­ríkj­anna. Leikurinn mikli, hin kjána­lega utanríkisstefna sem Bret­­­­ar höfðu fylgt um langt skeið, hafði breyst í afleikinn mikla. Vit­leys­is­­gangur breskra ráða­manna var engu síður en árásarstefna Hitlers orsök síðari heimsstyrjald­ar­­innar. Vitfirring Hitl­ers og kumpána hans hefði aldrei þurft að ná lengra en til Berlínar hefðu Bretar ekki látið persónulegar skoðanir ráðamanna og fornar hefðir í utanríkismalum blinda sér sýn. Afleikurinn mikli opnaði fyrir honum hálfa Evrópu. Aldrei hafa jafn margir átt jafn fáum svo mikið að bölva.

Síðari heimsstyrjöldin var hafin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Góður Pistill.

Mættir skrifa fleiri svona. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 8.7.2008 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband