Þriðjudagur, 8. júlí 2008
Afleikurinn mikli
Sagnfræðingar og aðrir hafa löngum skellt skuldinni af síðari heimsstyrjöldinni á herðar Þýskalandi. Að ákveðnu leyti er það rétt. Þjóðverjar hófu heimsstyrjöldina óformlega með því að hunsa ákvæði Versalasamningsins, innlimun Súdetahéraða Tékkóslóvakíu og Austurríkis. Bein átök við Vesturveldin hófust svo þegar Adolf Hitler skipaði herjum sínum að gera innrás í Pólland, 1. september 1939. En þjóðir Evrópu hefðu aldrei þurft að hleypa nasistum svo langt, aukinheldur voru það Bretar og Frakkar sem lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum, ekki öfugt. En nóg um það.
Bretar höfðu talið að hafa mætti hemil á Hitler með því að gefa honum eftir forn-þýsk svæði í Mið-Evrópu. Margir breskir stjórnmálamenn höfðu aukinheldur samúð með og studdu jafnvel sameiningu Þjóðverja í eitt ríki. Þannig gæti myndast öflugt mótvægi við Sovétríkin, ríki sem hrundið gæti hugsanlegri atlögu kommúnistaríkisins í austri gegn lýðræðisríkjum Evrópu. En utanríkisstefna Bretlands, leikurinn mikli, var eins lítt skynsamleg þá og hún hafði alltaf verið. Eins og leikurinn mikli hafði getið af sér styrjaldir í tæp 200 ár leiddi þessi stefna Breta til styrjaldar að þessu sinni.
Þegar í upphafi árs 1933 gerði breska sendiráðið í Þýskalandi stjórnvöldum í London nákvæma grein fyrir eðli ríkisstjórnar Adolfs Hitlers: Gyðingaofsóknir, morð á og fangelsanir pólítískra andstæðinga, gífurleg vopnaframleiðsla og hernaðaruppbygging til árásarstríðs. Bresk stjórnvöld vissu því nákvæmlega hver stefna Hitlers var. Joachim von Ribbentrop, sendiherra Þýskalands í London og síðar utanríkisráðherra, hafði lagt fram samningsdrög sem hljóðuðu upp á að Þýskaland myndi ekki ásælast lönd eða áhrif Bretaveldis í stað þess að Bretar gæfu Þjóðverjum frjálsar hendur í austri.
Bretar vissu þegar árið 1933 að Hitler ætlaði í stríð við Sovétríkin. Þeir töldu víst, að mörgu mætti fórna til að hjálpa honum í því að kveða niður kommúnismann. Því tóku Bretar með silkihönskum á nasistum Hitlers, ólíkt þeim gaddasvipum sem þeir höfðu stöðugt lamið með lýðræðiskjörin og friðsöm yfirvöld Weimar-Þýskalands. Ráðherrar sem höfðu barið í gegn niðurlægingu Þýskalands 1932 tóku nú að friðmælast við einræðisherrann í Berlín. Jafnvel þegar Frakkar reyndu að hafa hemil á Þjóðverjum, mættu þeir skilningsleysi af hálfu ráðamanna í London.
Árið 1935 höfðu Frakkar og Ítalir myndað óformlegt harðlínubandalag gegn Nasista-Þýskalandi. Á ráðstefnu Frakklands, Ítalíu og Bretlands í Stresa tókst Bretum að kæfa niður harðlínuandstöðu ríkjanna tveggja. Og til að bæta við smá olíu á eldinn, beindi breski utanríkisráðherrann og síðar fjármálaráðherrann John Simon augum Mússólínis frá Þýskalandi og gaf honum þegjandi samkomulag sitt við innrás Ítala í Abyssinínu (Eþíópíu). Simon leit á þetta fornfræga sjálfstæða ríki í Afríku eins og krabbamein í líkama heimsins og á keisara þess sem Djöfulinn sjálfan, einkum vegna þrælahalds sem enn viðgekkst í landinu. Mússólíni væri því velkomið að strunsa þangað inn og leggja landið undir sig. Ítalía, sem fylgt hafði vinsamlegri utanríkisstefnu gagnvart Bretaveldi frá valdatöku Mússólínis 1922, fékk nú að njóta ávaxtanna.
En skömmu eftir að Mússólíni réðist inn í Abessinínu sneru Bretar við blaðinu og samþykktu refsiaðgerðir gegn Ítalíu. Því til staðfestingar var Anthony Eden, gamalgróinn Þjóðverjavinur og hatrammur andstæðingur Ítala, gerður að utanríkisráðherra. Með efnahagsþvingununum á hendur Ítalíu var Mússólíni allt að því rekinn á fjörur Hitlers og Þýskalands nasista. Enn einn fáránleiki breskrar utanríkisstefnu var orðinn að veruleika og ekki sá síðasti.
Árið 1937 tók Neville Chamberlain við húslyklunum að Downingstræti 10 í London og þarmeð löglegri setu í stóli forsætisráðherra Bretaveldis. Hann hræddist fasistaógnina í Evrópu og leit á spænsku borgarastyrjöldina sem vísi þess sem koma myndi ef ekki yrði gripið í taumana. En Chamberlain réði lítið við Eden utanríkisráðherra sem skeitti því litlu þótt Hitler ógnaði Austur-Evrópu og Austurríki. Eden, væglega vitiborinn maður sem stjórnaðist meira af tilfinningum en rökhyggju, var jafnvel hlynntur innlimun Austurríkis í Þýskalands, en afdrif Austurríkis voru helsta deiluefni Hitlers og Mússólínis. Hann hafði viðbjóð á Mússólíni og Ítalíu en aðdáun á Þýskalandi og lét hann þær persónulegu tilfinningar hlaupa með sig og hálfa heimsbyggðina í gönur.
Neville Chamberlain, friðsamur og veikgeðja stjórnmálamaður, var of seinn að átta sig og þegar hann tók loksins af skarið og vék Anthony Eden úr embætti, einkum vegna þess að Eden neitaði að samþykkja bandalag við Mússólíni til að hindra innlimun Austurríkis, var það orðið of seint. Hersveitir Hitlers voru komnar að landamærum Austurríkis og skömmu síðar var innlimun þess í Þýskaland staðreynd. Að því búnu vaknaði Chamberlain upp við þann vonda draum að nú gæti Tékkóslóvakía ekki lengur varist þýskri árás, nú þegar hernaðaraðstaða í Austurríki væri á valdi Þjóðverja. Því reyndi hann að friðmælast við Hitler með því að gefa eftir tékknesku Súdetahéruðin, en þau voru einkum byggð Þjóðverjum.
Frakkar og Sovétmenn voru hins vegar tilbúnir að berjast við Hitler til að bjarga Tékkóslóvakíu. En eins og Eden hafði hatað Ítalíu, hataði Chamberlain kommúnistaríkið í austri. Hversu mikil sem ógnin væri frá Hitlers-Þýskalandi teldist hún skömminni skárri en rauða pestin í austri. Hann neitaði algjörlega að berjast við hlið Sovétríkjanna til að bjarga Tékkóslóvakíu og sendi leynileg skilaboð til Hitlers og Mússólínis. Þau leiddu til friðarráðstefnunnar í München í september 1938, þar sem Chamberlain samþykkti skilmála Hitlers í andstöðu við samþykktir eigin ríkisstjórnar.
En vonir Chamberlains um að Hitler myndi láta staðar numið við innlimun Austurríkis og Súdetahéraðanna urðu að engu í mars 1939 þegar þýskar hersveitir þrömmuðu inn í Prag. Bretar höfðu gefið Þjóðverjum eftir hinn forna Bæheim og Mæri og nú var röðin komin að Póllandi sem hafði stærra þýskt" land innan mæra sinna en nokkuð annað ríki. Þegar Hitler krafðist þess að pólska hliðið og fríríkið Danzig, sem aðskildu meginland Þýskaland frá Austur-Prússlandi, yrði sameinað Þýskalandi lýstu Bretar yfir vernd Póllands.
Chamberlain vissi þó að varnir Póllands yrðu aðeins tryggðar með samvinnu Sovétmanna, braut odd af oflæti sínu og hóf leynilegar samningaviðræður með Frökkum og Sovétmönnum um bandalag gegn Hitler og stöðvun útþenslu Þýskalands í austur. En Chamberlain lék tveimur skjöldum. Hann leit enn á Hitler sem skjöld Evrópu gegn kommúnistahættunni og sumarið 1939, meðan hann stóð enn í samningum við Stalín, kom hann á biðilsbuxunum til Hitlers og Mússólínis. Stalín, sem vildi helst af öllu koma á bandalagi með Bretum, komst að svikum Chamberlains og sendi þá erindreka sína til Berlínar.
Skömmu síðar sömdu Joachim von Ribbentrop, utanríkisráðherra Þýskalands, og Vladislav Molotov, sovéski starfsbróðir hans, um skiptingu Póllands og hluta Evrópu milli Þýskalands og Sovétríkjanna. Leikurinn mikli, hin kjánalega utanríkisstefna sem Bretar höfðu fylgt um langt skeið, hafði breyst í afleikinn mikla. Vitleysisgangur breskra ráðamanna var engu síður en árásarstefna Hitlers orsök síðari heimsstyrjaldarinnar. Vitfirring Hitlers og kumpána hans hefði aldrei þurft að ná lengra en til Berlínar hefðu Bretar ekki látið persónulegar skoðanir ráðamanna og fornar hefðir í utanríkismalum blinda sér sýn. Afleikurinn mikli opnaði fyrir honum hálfa Evrópu. Aldrei hafa jafn margir átt jafn fáum svo mikið að bölva.
Síðari heimsstyrjöldin var hafin.
Athugasemdir
Góður Pistill.
Mættir skrifa fleiri svona.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 8.7.2008 kl. 18:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.