Miðvikudagur, 2. júlí 2008
Jón Valur, sósíalisminn, mannréttindi o.fl.
Á bloggsíðu sinni greinir Jón Valur Jensson, í umræðu sinni um lífsverndarmál, frá athygliverðri grein í Þjóðviljanum gamla. Þar segir:
Trausti Ólafsson, gamall og gegn sósíalisti, skrifaði þannig í Þjóðviljann haustið 1974:
- "Er ekki manneskjulegra að krefjast úrbóta þessu fólki til handa og það skilyrðislaust og án tafar, ráðast gegn vandanum sjálfum í stað þess að svíkja sjálfan sig og sósíalismann með vaðli um ímynduð mannréttindi?...
Nú þekki ég ekki umræddan Trausta Ólafsson og veit ekkert beinlínis um skoðanir hans annað en það sem Jón Valur segir hér. Jón Valur hefur vísast þekkt Trausta, sem vísast hefur verið félagi hans í Æskulýðsfylkingunni, félagasamtökum róttækra, ungra sósíalista.
En miðað við að sósíalistar nútímans eru gjarnir á að tala um mannréttindi í hinum ýmsu aðstæðum langar mig til að velta þeirri spurningu fram, hvers vegna sósíalistar vilja ræða þetta hugtak svona oft og iðulega nú til dags, miðað við hvernig skor sósíalískra ríkja hefur verið í mannréttindamálum.
Sjálfur tek ég voðalega lítið mark á umræðu sósíalista hér um mannréttindi og mannréttindabrot þetta og hitt, meðan þeir hafa enn ekki tekið beinagrindina úr skápnum og líkið úr lestinni. Þeir gagnrýna, og það með réttu, mannréttindabrot vondra einræðisherra, sem ekki eru sósíalistar, en gleyma yfirleitt að gera slíkt hið sama við sósíalíska einræðisherra og bandamenn þeirra. Þessi hræsni er mjög útbreidd...en af einhverjum ástæðum vilja sósíalistar ógjarnan ræða glæpi sósíalískra ríkja og vilja helst beina umræðunni að meintum eða raunverulegum glæpum einhverra annarra.
Hvenær kemur að því að íslenskir sósíalistar gangast við fortíðinni, þeirri að þeir voru handbendi grimmilegrar ógnarstjórnar í austri og sóttu á spena leppríkja Sovétríkjanna, þar sem mannréttindi voru brotin í stórum stíl og með yfirlögðu ráði? Þessi sæluríki íslenskra sósíalista voru lönd þar sem grundvallar mannréttindi fólks voru afar takmörkuð ef nokkur. En íslenskir sósíalistar setja slík mál bara undir teppið...en líkið í lestinni lyktar.
Er þessi skortur á viðurkenningu á mistökum og glæpum fortíðarinnar ekki "svik við sósíalismann", sem í framkvæmd a.m.k. gerir ekki ráð fyrir að mannréttindi fólks séu til staðar, heldur aðeins "ímynduð"? Hvar er þessi fræga "sjálfsgagnrýni" sem var a.m.k. á topp tíu í orðabók sósíalista?
En gott að Jón Valur skyldi nú hafa, að mér virðist af skrifum hans, hafa sagt skilið við þá hugmyndafræði, sem borin var áfram, í einni eða annarri mynd, af stærsta glæpafélögum sögunnar, kommúnistaflokkum Sovétríkjanna og Kína, og fylgjendum þeirra í öðrum löndum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.