Föstudagur, 20. júní 2008
Hin útlenda siðspilling
Gamalt ritgerðarundirkaflabrot sem ég fann þegar ég var að taka til í tölvunni.
****************----------------------------*************
Eins og hegðun lýsir innri manni birtist skapgerð þjóðar í háborg hennar. Reykjavík reis eins og fuglinn Fönix úr öskustó sveitanna. Vöxtur bæjarins var hægur til að byrja með, en loks þegar krumlur sveitakolbrabbans losuðu tök sín af þjóðarsálinni, hófust stórfelldir fólksflutningar á mölina.
Íslendingar höfðu fengið sína eigin háborg stjórnsýslu og viðskipta, menntunar og menningar. Hún var Aþena sumra en Sódóma annarra, elskuð og hötuð, heimili hundruða. en fjarlægur draumur margra, sem þjakaðir voru af átthagafjötrum og vistarbandi. Skapgerð þjóðarinnar var ekki lengur opinberuð frá hálfhrundum moldarkofum, heldur virðulegum miðbæ Reykjavíkur. Íslensku sveitalubbarnir voru nú smám saman að taka á sig nýju klæðin heimsborgarans.
Halldór Laxness skýrði eitt sinn frá því, að stórmennin væru andlit þjóðmenninganna og ágætustu afsprengi þjóðarinnar um leið og fullkomnastar opinberanir á kjarna tímans, sem þá ól. Þannig er ekki stórmennið þjóð sinni meira, heldur saman dregið tákn um mikilleik hennar. Stórmennið er ris einhverrar einstakrar þjóðvitundar
.[1]
Því er það næsta kaldhæðnislegt, að fyrsti íslenski ráðherrann skuli hafa verið af hálf-erlendum ættum, Júðadjöfull, eins og dr. Helgi Pjeturss lýsti yfir í heyranda hljóði. Og frægustu Íslendingarnir, Nóbelsverðlaunahafinn Niels Finsen og myndhöggvarinn Bertel Thorvaldsen, voru af hálf-erlendu ætterni, en sóttu vitaskuld gáfur sínar í hinn einstak íslenska kynþátt, ef Sigurður Nordal prófessor hafði einhver lög að mæla:
Þeir tveir menn af íslenskum ættum, sem víðfrægastir hafa orðið á síðari öldum, Bertel Thorvaldsen og Níels Finsen, voru báðir danskir í móðurætt. Samt eigna Íslendingar sér þá að mestu leyti, og það með fullum rjetti, því að varla er vafamál að þeir sóttu sjergáfur sínar í hinn íslenska kynþátt. Það mun búast við, að mannakynbætur (eugenics) verði eitt hið mesta áhugamál framtíðarinnar og Íslendingar standa þjóða best að vígi til þess að taka þátt í slíkum rannsóknum.[2]
Á Íslandi var því gott kyn að finna og mætti því ekki spilla með erlendum áhrifum og blóðblöndun.
[1] Halldór Laxness, Alþýðubókin (Rvík, 1929), 67.
[2] Sigurður Norðdal, Ættarvitund, Lesbók Mbl. 23. apríl 1939. (Leturbreyting).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.