Laugardagur, 3. maí 2008
Af spjöldum sögunnar: Rómaveldi I
Við grunnvað á Tíberfljóti myndaðist lítill bær, sem óx síðan og dafnaði uns hann náði yfir hæðirnar sjö beggja vegna fljótsins og varð að Rómaborg, voldugustu borg sögunnar. Rómaveldi þanndist smám saman út og náði að lokum yfir stærsta hluta hins þekkta heims. Þar ægði saman Rómverjum og barbörum, kristnum mönnum og heiðnum, ríkum og fátækum í mesta þjóðernisgraut, sem hrærður hefur verið saman í einu ríki.
En stöðug valdabarátta á milli öldungaráðsins, sem lengstum var skipað fulltrúum fornra höfðingjaætta, og alþýðunnar veikti innviði ríkisins. Rómaveldi stóð af sér árásir Karþagó-manna, Grikkja, Persa, Galla og annarra óvinaþjóða, en var sjálfu sér sundurþykkt og klofnaði. En menning Rómverja, sem mótast hafði undir grískum og síðar kristnum áhrifum, varð síðar undirstaða þeirrar vestrænu menningar, sem við búum við í dag.
Etrúskar og Rómverjar
Fornar sagnir segja svo frá, að bræðurnir Rómúlus og Remus, sem bornir voru út og supu úlfynjuspena, hafi stofnað Rómaborg um 750 f. Kr.. Móðir þeirra var afkomandi Eneasar frá Tróju, sem flúið hafði umsátrið og sest að á Ítalíuskaganum. Frásögnin af bræðrunum varð sú goðsögn, sem Rómverjar byggðu upphaf sitt á og varð gerð ódauðleg í Eneasarkviðu rómverska stórskáldsins Virgils.
En Rómverjar áttu volduga nágranna. Í norðri bjuggu Etrúskar, harðgerð þjóð af skyldu þjóðerni og Dórar, í suðri réðu Samnítar og fleiri ættflokkar og syðst lágu grísk borgríki. Af þjóðum þessum höfðu Etrúskar mest áhrif á þróun Rómaborgar. Þeir voru Spartverjar Ítalíu, fámenn yfirstétt, sem kúgaði stór landsvæði til hlýðni með ægivaldi hernaðaryfirburða. Járnið var einnig styrkur þeirra og hafa fundist fornar etrúskar eirmyndir af járnklæddum hermönnum þeirra. Korn og slíkan varning tóku þeir af skattþegnum sínum, eða keyptu á verslunarferðum sínum, jafnvel alla leið til grísku eyjanna.
Kaupmenn þeirra þurftu þó varla að fara langt, því suður af Róm hafði risið gríska verslunarborgríkið Neapólis, sem nú heitir Napólí. En lítinn mun sáu þeir á því, að versla eða ræna, enda voru kaupskip þeirra ekki síður sjóræningjaskip en verslunarfley. Sjóveldi þeirra lauk 474, þegar konungurinn í Sýrakúsu á Sikiley þurrkaði út sjóræningjaflota þeirra. Hnignaði þá jafnframt veldi þeirra á landi.
Það voru í raun Etrúskar sem grundvölluðu Róm sem borgarsamfélag. Kapítol-hæð, Rómatorg (forum Romanum), borgarskreytingar, steinlagðir vegir og skipulagning íbúaðarhverfa voru meðal þeirra minja, sem Etrúskar skildu þar eftir sig. Etrúskar kenndu Rómarbúum að reisa sér frambærileg húsakynni, grafa frárennsli og flytja vatn til íbúanna með síkjum og vatnsleiðslum. Menning þeirra var af grískum rótum og otuðu þeir henni hvarvetna þar sem þeir hertóku borgríki eða sveitasamfélög, þar á meðal í Róm.
Nautnalíf Etrúska var að flestu leyti keimlíkt því, sem gerðist meðal góðborgara í Aþenu og varð grundvöllur undir samsvarandi lifnaðarhætti velstæðra Rómverja. Þegar á heildina er litið mætti segja, að menning, lifnaðarhættir og stjórnskipun Rómverja hafi fyrst og fremst komið frá Etrúskum. Eitt kennimerki þeirra, hrísvöndlarnir sem kölluðust fasces og meðfylgjandi tvíaxir, urðu síðar merki ráðandi embættismanna Rómar og gengu síðar í arf til einræðisflokks Benítós Mússólínis, Fasistaflokksins.
Veldi Tarkviníusa, konungsættar Etrúska í Róm, var þó byggt á veikum stoðum, því sumir þeirra þóttu, þótt ótrúlega væri, frekar hliðhollir almenningi og hagsmunum hins óbreytta borgara. Aðalsmenn, sem reyndar voru margir hverjir af etrúskum ættum, ráku svo síðasta konung þeirra, Tarkviníus hinn stæriláta, á braut 509 f. Kr. og hófst þá eins konar þjóðveldi (republica) í Róm, gríðarlega stéttaskipt, en nægjanlega sterkt til að lifa af komandi stéttaátök og árásir utanaðkomandi óvina.
Stjórnskipun Rómar Þótt Etrúskar hafi misst völdin í Róm, lifði stjórnskipulag þeirra og menning áfram góðu lífi í borginni. Margar höfðingjaættir þeirra héldu velli og runnu inn í þá þjóð, sem myndaðist þar smám saman, einkum með blöndun íbúanna við nærliggjandi landbúnaðarsamfélag Latína-ættarinnar. Samfélagsskipunin, sem verið hafði áður, hélst nánast óbreytt. Hinar tvær meginstéttir borgara, patrísíar (höfðingjar) og plebíar (lýður), voru leifar þess skipulags, sem myndast hafði á dögum Tarkviníusa, þar sem Etrúskar voru höfðingjar, en latneskir Rómverjar lýðurinn. Ennfremur var að finna þar stétt hálffrjálsra borgara, svokallaðra klíentela, sem voru skjólstæðingar höfðingjanna. Neðst á listanum voru síðan þrælar og réttlausir útlendingar.
Fyrst eftir brotthvarf Etrúska var konungsveldi við lýði í Rómaborg, en fljótlega voru völdin falin í hendur tveimur ræðismönnum, eða konsúlum, sem kosnir voru úr hópi 300 öldungaráðsmanna (senatora), sem hver um sig var fulltrúi ákveðinnar ættar (gentes) eða valdastéttar í öldungaráðinu (senatus). Síðar fengu svo plebíar að tilnefna þar erindreka, sem kosnir voru á borgarafundum þeirra, komitia tributa. Hinir eiginlegu þjóðfundir, komitia senturiata, voru þjóðþing Rómverja, þar sem lög voru samþykkt og meiriháttar ákvarðanir voru kynntar eða bornar upp til atkvæðis.
Munurinn á lýðveldi Rómverja og Aþeninga var einkum sá, að í Róm réðu aðalsmenn, en ekki alþýðan, mestu. Hagur plebíanna vænkaðist þó með tilkomu alþýðuforingja (tribuna), sem urðu með tímanum einskonar týrannar, að grískri fyrirmynd. Þeir voru friðhelgir og gátu jafnvel stöðvað lög eða framkvæmdir sem snertu umbjóðendur þeirra. Sögðu þeir þá veto, eða ég neita, en orð þetta merkir neitunarvald í mörgum þjóðtungum nútímans. Helsta afrek fyrstu alþýðuforingjanna var þó það, að fá samþykkt rituð lög fyrir Rómarborgara um 450 f. Kr.
Hin nýja lögbók var rituð á tólf bronstöflur og því kölluð Tólftaflnalögin (Leges duodecim tabularum). Þau báru nokkurn keim af lögum Sólons í Aþenu, en tóku þó vitaskuld til þeirra sérstöku mála, sem fundust í Rómaborg einni. Lög þessi voru undirstaða rómversks réttar og síðar grundvallarlaga Rómarveldis. Þau voru síðan þróuð samfara þeim breytingum, sem urðu á rómversku samfélagi. Sérstaklega var mikilvæg lögbók sú, sem kennd er við Lísíníus alþýðuforingja, frá því um 367, þar sem veldi aðalsins var takmarkað enn frekar.
Flokkur: Af spjöldum sögunnar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Facebook
Athugasemdir
Fróðleg og skemmtileg lesning Snorri. Það væri gamn að fá meira sagnfræðiblog. Þú nærð að setja málin fram með sérlega skýrum hætti. Forðast allar málalengingar, knappur stíll og markviss. Nokkurs konar alþýðusagnfræði sem allir læsir Íslendingar eiga gott með að meðtaka. Lát oss fá meir að heyra!
Óttar Felix Hauksson, 3.5.2008 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.