Sunnudagur, 9. mars 2008
Af spjöldum sögunnar: Grikkland hið forna I
Þegar eiröld hófst í Grikklandi um 3000 f. Kr. hafði steinaldarmenning þegar búið um sig víða á meginlandi Grikklands, en þó einkum á grísku eyjunum. Sennilega hafa þó menningarstraumir borist til Grikkja frá Súmer eða Egyptalandi, tekið breytingum í vinnustofum grískra spekinga og stjórnvitringa, en haldið síðan áfram til Evrópu, með millilendingu í Róm.
Segja má, að grísk menning hafi verið þriðja hámenning sögunnar og sú þeirra, sem hæstum hæðum náði.
Saga forn-Grikkja skiptist í þrjú tímabil: Fornhellenska tímabilið (25001850 f. Kr.), Miðhellenska tímabilið (18501600 f. Kr.) og Nýhellenska tímabilið (16001150 f.Kr.), en það síðastnefnda er einnig kallað Mýkenutímabilið. Við lok þess hófust hinar myrku aldir Grikkja með innrás framandi þjóðar, Dóra, sem næstu aldir börðust við Jóna um yfirráð yfir Grikklandi sjálfu og nýlendum Grikkja við Miðjarðarhafið.
Í Aþenu, helstu borg Jóna, komst á lýðræði og síðan einveldi, en í Spörtu, helstu borg Dóra, ríkti taumlaus hernaðarhyggja og harðstjórn. Undir lok hins klassíska tímabils Grikklands komu síðan Persar fram á sjónarsviðið og reyndu að komast til áhrifa. Aþeningar, Spartverjar og bandamenn þeirra náðu að hrinda árásum Persa, en veldi þeirra veiktist vegna stöðugra átaka. Myndaðist þá valdatóm, sem hinn ungi konungur Makedóníu, Alexander mikli, skreið inn í og lagði undir sig lönd allt austur til Indlands.
Gríska eymenningin
Ein áhrifaríkasta fornmenning Grikkja kom fram á eynni Krít, rétt suður af meginlandinu. Hómerskviður, frægustu sagnaþættir fortíðar, greina meðal annars frá upphafi og lokum veldis Krítverja, ásamt helstu þáttum úr daglegu lífi íbúanna, goðsögnum sem mynduðust og samskiptum þeirra við umheiminn. Menning Krítverja hefur lengi verið kennd við Mínos, frægasta konung þeirra, og skiptist hún í þrjú tímabil: ármínóska (2800-1900 f. Kr.), miðmínóska (19001550), og síðmínóska (15501400). Við lok mínósku tímabilanna tók við mýkenska tímabilið, sem stóð yfir uns hinar myrku aldir Grikkja tóku við.
Í Ilíonskviðu Hómers er þess getið, að á Krít væru 90 borgir og svo mikill manngrúi þar, að aðkomumenn falli í stafi. Knossos, þar sem höll Mínosar var grafin úr jörðu um aldamótin 1900, var sennilega stærst þeirra.
Í höllinni voru stjórnarsetur borgríkisins, stórkostleg völundarhús ganga og salarkynna, musteri, leiksvið, íbúðarherbergi, eldhús, borðstofur, forðabúr, vinnuherbergi handverksmanna, æfingasalur íþróttamanna og skylmingaþræla, og svo framvegis. Þaðan lágu líka steinlagðar brautir til hafnar, svo flytja mætti framleiðsluvarning hallarinnar til skips og erlendan varning til baka. Þar voru líka skrifarar að meitla í stein tölur um útflutning og innflutning, listamenn að höggva í stein eða mála skraut á leirker, fræðimenn að flokka heimildir og vefarar við iðju sína.
Krít var samansafn borgríkja, sem lutu sömu stjórnskipun og höfðu yfir að ráða eigin höllum, þar sem starfsemi var svipuð þeirri, sem fór fram í Knossos. Sökum þess, að konungshöllin var miðpunktur alls mannlífs borgarbúa, hefur verið talað um krítversku hallarmenninguna, sem hófst um 2000 f. Kr.. Krítverjar seldu margskyns iðnvarning, svo sem skrautmuni, leirker og vefnaðarvöru, til Egyptalands og annarra velmektarsvæða. Korn ræktuðu þeir sjálfir og virðast hafa verið sjálfum sér nógir um margt. Einna helst vanhagaði þá um málma, einkum kopar, sem þeir sóttu til Kýpur.
Sökum þess, að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd var hagstæður, safnaðist Krítverjum auður, þó sér í lagi eftir að krítverska ólívuolían varð eftirsótt víða um hinn þekkta heim.
Ritmál Krítverja var einskonar forngríska, en vísbendingar um menningu þeirra koma einkum frá veggmyndum og málverkum. Þar sjást frjósemis- og ástargyðjur fremur en herguðir, málaðar léttklæddar við dans eða hljóðfæraleik, í íþróttum eða dýraveiðum. Sennilega hefur mæðraveldi verið á Krít, þar sem konan var ekki síður áhrifamikil en karlinn. Þær höfðu þann sig að hylja ekki brjóst sín, heldur klæðast flegnum fatnaði, þar sem í mesta lagi gegnsæ hula huldi brjóst þeirra. Því kemur varla á óvart, þó höfuðgoð Krítverja hafi verið Hin mikla móðir, sem dýrkuð var víðast hvar í hinum þekkta heimi, en óvenjulega barmmikil á Krít, ef ráða má af myndum. Konungurinn var æðsti prestur dýrkunarinnar og bendir allt til þess, að þessi átrúnaður hafi borist til Krítar frá Egyptum.
Hin merkilega hallarmenning á Krít varð þó ekki langlíf, því tvisvar eyðilögðust helstu borgir landsins í eldi, fyrst á árunum um 1450-1400 og síðan um 1200 f. Kr.. Óljóst er, hvort þar áttu sér stað jarðskjálftar eða árásir voldugra óvina. Í bæði skiptist virðist nokkur hluti eyjarskeggja hafa leitað sér búsetu í nýjum heimkynnum og útbreitt þannig menningu sína og verkkunnáttu til meginlands Grikklands.
Meginflokkur: Af spjöldum sögunnar | Aukaflokkar: Saga, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:46 | Facebook
Athugasemdir
Sæll og blessaður kæri Sneott. Fyndið nafn Sneott. Kærar þakkir fyrir frábæran fróðleik. Hlakka til að fá framhald. Kær kveðja frá hjara veraldar.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 9.3.2008 kl. 10:04
Sæl. Já, Sneott er tilbúningur Morgunblaðsins, sem misritaði nafn mitt, Snorri, með þessum hætti. Hvernig þeir á Mogganum fóru að því, er mér hulin ráðgáta. En hvað snertir stafsetningarvillur og málfræðimeinbugi á Mogganum hlýtur þetta að vera á topp 10 listanum yfir asnalegustu villur ársins.
Snorri Bergz, 9.3.2008 kl. 10:42
Sæll Snorri minn. Sammála og þetta er stórkostlega fyndið Fólkið á Morgunnblaðinu þarf að fara á íslenskunámskeið. Það er ég meira að segja búin að sjá og það oft. Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 9.3.2008 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.