Sunnudagur, 3. febrúar 2008
Bútur úr gömlu bréfi
En hér kemur kaflinn:
Mér finnst alltaf gaman að koma heim að loknum degi. Heima er best. Stundum þurfti ég þó að berjast fyrir tilveru minni. Fyrir utan húsið var ýmis gróður og þar bjuggu hundruðir býflugna og annarra óæskilegra kvikynda. Ein þeirra gerði sér lítið fyrir og flaug upp í nefið á mér og hef ég haft kvef nær allar götur síðan. Hins vegar vandist ég fljótt Doberman-hundinum á neðri hæðinni. Hann virtist hættulegur en var víst sauðmeinlaus þegar á hólminn var kominn. Hann líktist mér ótrúlega mikið. Ekkert nema kjafturinn. Í það minnsta truflaði hann mig lítið nema fyrst. Þá stökk hann á móti mér með látum og hræddi úr mér hálfa líftóruna. Hinn helminginn á ég enn og gæti hans eins og sjáaldurs augna minna.Annars var garðurinn minn líkari dýragarði, zoo, en venjulegum húsgarði. Hús-dýra-garður? Auk hundsins, býflugna og einstaka fugla var hann heimili villikatta. Í Jerúsalem eru þúsundir villikatta í hlutastörfum hjá sorpeyðingarstöð borgarinnar. Þeir finnast einkum í og við ruslatunnur og borða þar til agna allt ætilegt. Síðan þakka þér fyrir matinn og breima fram á nætur. Fyrstu næturnar gat ég lítið sofið fyrir kattabreimi. En það vandist. Kettir þessir merkja sér svæði. Ekki veit ég hvort þeir kasta af sér á tré eða veggi en mæri hvers kattasvæðis eru vel varin þegar óboðinn gestur vogar sér þar innfyrir. Uppáhaldskötturinn minn var læða sem lá oft við útidyradyrnar hjá mér. Ég kastaði stundum í hana matarafgöngum. Ég kallaði hana Guðrúnu Á. Símonar og var hún farin að svara því nafni að lokum og kom mjálmandi að fótum mér og nuddaði sér þar, uns einhverjir matarafgangar féllu á steypuna. Vinkona hennar og félagi í breimkórnum var aðeins yngri. Ég kallaði hana Björk. Annars er hin raunverulega Björk afar vinsæl í Ísrael. Sömu viku og Post kom út fór hún beint upp í annað sæti ísraelska vinsældalistans. Aðeins HIStory Mikjálls Djakksonar seldist í stærra upplagi þá vikuna. Oft þegar ég sagðist vera íslenskur kinkuðu menn kolli. Aha, frá Björklandi. En annars átti sér stað coup detat í garðinum mínum í maímánuði. Þá hurfu Guðrún Á. Símonar og Björk af vettvangi og tveir högnar komu í stað þeirra. Bubbi og Megas hétu þeir. Síðan bættist við sá þriðji, að ég held. Ég vissi aldrei hvort sá væri högni eða læða, en kallaði kött þann í öllu falli Stefán Hilmarsson. Alls staðar hittir maður fyrir einhverja Íslendinga.
En helsta plágan í garðinum var mauraógnin. Múhameð og Allah segja í Kóraninum og arabískum helgisögum að Salómon konungur í Ísrael hafi stundum setið að spjalli með ísraelskum maurum. Ég reyndi að feta í fótspor kóngsins en var líklega ekki nógu góður í hebreskunni til að skilja þá. Ég þorði sjaldan að skilja eftir matvæli í ólokuðum umbúðum af ótta við mauraárás. Á eldhúshillu átti ég sykurpoka sem var með smá rifu á einum stað. Þegar ég svo þurfti að nota sykur úti í kaffi auðfúsugestar var það um seinan. Pokinn var fullur af maurum. En annars voru þeir meinlausir. Stundum þegar ég lá úti á svölum um laugardagshádegið komu þeir í kurteisisheimsókn. Fyrst fylltist ég viðbjóði en fljótlega var mér farið að standa á sama. Þeir máttu skríða yfir mig ef þeim sýndist. Þarna kynntist ég tveimur maurategundum. Þeir svörtu eru sauðmeinlausir en tegundin með rauða höfuðið aðeins leiðinlegri. Rauða kúlan á hausnum var glansandi, en undir hökunni voru hár og broddar. Rauðhausar bitu mig stundum svo undan sveið en bit þeirra er þó ekkert hættulegt. Minntu mig svoldið á Steingrím Joð...:)
Stundum skriðu maurarnir um svefnherbergisgólfið mitt. Mér stóð yfirleitt á sama um slíkar heimsóknir þótt ég hefði tekið því illa einn morguninn að vakna með mauraherdeild á ábreiðunni. Allt á sér takmörk. Kvöldið áður hafði ég verið að borða poppkorn í herberginu og skilið leifarnir eftir í skál í einu horninu. Og vísast höfðu einhver korn skoppað á gólfið. Morguninn eftir var gólfið komið á hreyfingu. Ég leit niður og sá svarta depla hreyfast til og frá. Morgunmatur í mauraríki. Þetta var nú misnotkun á gestrisni minni svo ég stökk fram í eldhús, sótti mauraspreyið mitt og dreifði eitrinu um allt gólfið. Síðan sáust ekki maurar í herberginu. Sóðaskapur ekki heldur. Þarna hafði ég víst drepið nokkur þúsund vondra Indverja og bakað mér reiði Vishnús.Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Miðausturlönd | Facebook
Athugasemdir
Heldurðu að spreyið virki á Steingrím Joð ??? Ég á enn ritgerð eftir þig, já bók, um konur í Íslam á disklingi. Hefur hún komið út. Svo fann ég í kassa bókina þína um Palestínu um daginn.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.2.2008 kl. 19:35
Sælir kallinn. Nei, ritgerð þessi var skrifuð við Hebreska háskólann í Jerúsalem á þessum tíma. Dugði mér til ágætiseinkunnar í námskeiði sem hét "Konur í íslam". Var einmitt að sjá þessa ritgerð áðan, þegar ég var að hreinsa til á harða drifinu. Þá fann ég einmitt þennan bréfsbút og gat ekki á mér setið að birta hann.
Snorri Bergz, 3.2.2008 kl. 20:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.