Bútur úr gömlu bréfi

arlazor1Eftirfarandi frásögn er kafli úr gömlu bréfi, sem ég sendi heim til Íslands 1995, þegar ég var við nám í Miðausturlandafræðum við Hebreska háskólann í Jerúsalem. Þá bjó ég ásamt öðrum sagnfræðingi í einskonar fræðimannaíbúð við Arlazorov stræti í Rechavia hverfinu, en áður hafði Golda Meir forsætisráðherra búið þarna, og NIxon komið til kaffidrykkju í litla eldhúsinu.

En hér kemur kaflinn:



Mér finnst alltaf gaman að koma heim að loknum degi. Heima er best. Stund­­um þurfti ég þó að berjast fyrir tilveru minni. Fyrir utan húsið var ýmis gróð­ur og þar bjuggu hundruðir býflugna og annarra óæskilegra kvikynda. Ein þeirra gerði sér lítið fyrir og flaug upp í nefið á mér og hef ég haft kvef nær allar götur síðan. Hins vegar vandist ég fljótt Doberman-hundinum á neðri hæð­­­inni. Hann virtist hættulegur en var víst sauð­mein­laus þegar á hólminn var kom­­­inn. Hann líktist mér ótrúlega mikið. Ekk­ert nema kjafturinn. Í það minnsta truflaði hann mig lítið nema fyrst. Þá stökk hann á móti mér með lát­um og hræddi úr mér hálfa líftóruna. Hinn helminginn á ég enn og gæti hans eins og sjáaldurs augna minna.Annars var garðurinn minn líkari dýragarði, zoo, en venjulegum hús­garði. Hús-dýra-garður? Auk hundsins, býflugna og einstaka fugla var hann heimili villikatta. Í Jerúsalem eru þús­undir villikatta í hluta­störfum hjá sorpeyðingarstöð borgarinnar. Þeir finn­ast einkum í og við rusla­tunnur og borða þar til agna allt ætilegt. Síðan þakka þér fyrir matinn og breima fram á nætur. Fyrstu næturnar gat ég lítið sofið fyrir katta­­breimi. En það vandist. Kettir þessir merkja sér svæði. Ekki veit ég hvort þeir kasta af sér á tré eða veggi en ­mæri hvers kattasvæðis eru vel varin þegar óboðinn gestur vogar sér þar innfyrir. Uppáhaldskötturinn minn var læða sem lá oft við útidyra­dyrnar hjá mér. Ég kastaði stundum í hana matar­af­göngum. Ég kall­aði hana Guðrúnu Á. Símonar og var hún farin að svara því nafni að lok­um og kom mjálmandi að fótum mér og nuddaði sér þar, uns einhverjir matarafgangar féllu á steypuna. Vinkona hennar og félagi í breimkórnum var aðeins yngri. Ég kallaði hana Björk. Annars er hin raunverulega Björk afar vin­sæl í Ísrael. Sömu viku og Post kom út fór hún beint upp í annað sæti ísr­aelska vin­sældalistans. Aðeins HIStory Mikjálls Djakksonar seldist í stærra upp­lagi þá vikuna. Oft þegar ég sagðist vera íslenskur kink­uðu menn kolli. Aha, frá Björklandi. En annars átti sér stað coup d’etat í garðinum mínum í maímánuði. Þá hurfu Guðrún Á. Símonar og Björk af vettvangi og tveir högnar komu í stað­ þeirra. Bubbi og Megas hétu þeir. Síðan bætt­ist við sá þriðji, að ég held. Ég vissi aldrei hvort sá væri högni eða læða, en kallaði kött þann í öllu falli Stefán Hilmars­son. Alls staðar hittir mað­ur fyrir einhverja Íslend­inga.

En helsta plágan í garðinum var mauraógnin. Múhameð og Allah segja í Kóraninum og arabískum helgisögum að Salómon konungur í Ísrael hafi stundum setið að spjalli með ísraelskum maurum. Ég reyndi að feta í fótspor kóngsins en var líklega ekki nógu góður í hebreskunni til að skilja þá. Ég þorði sjaldan að skilja eftir matvæli í ólokuðum um­búðum af ótta við mauraárás. Á eldhúshillu átti ég sykurpoka sem var með smá rifu á einum stað. Þegar ég svo þurfti að nota sykur úti í kaffi auðfúsu­gestar var það um seinan. Pokinn var fullur af maurum. En annars voru þeir mein­lausir. Stundum þegar ég lá úti á svölum um laugardagshádegið komu þeir í kurteis­is­­heim­sókn. Fyrst fylltist ég viðbjóði en fljótlega var mér farið að standa á sama. Þeir máttu skríða yfir mig ef þeim sýndist. Þarna kynnt­ist ég tveim­ur maura­tegundum. Þeir svörtu eru sauðmeinlausir en teg­und­in með rauða höfuðið aðeins leiðinlegri. Rauða kúlan á hausnum var glansandi, en undir hökunni voru hár og broddar. Rauðhausar bitu mig stund­um svo undan sveið en bit þeirra er þó ekkert hættulegt. Minntu mig svoldið á Steingrím Joð...:)

 Stundum skriðu maurarnir um svefn­­her­b­ergis­­gólf­ið mitt. Mér stóð yfirleitt á sama um slíkar heimsóknir þótt ég hefði tekið því illa einn morgun­inn að vakna með mauraherdeild á á­breiðunni. Allt á sér takmörk. Kvöldið áður hafði ég verið að borða popp­korn í herberginu og skilið leifarnir eftir í skál í einu horn­inu. Og vísast höfðu einhver korn skoppað á gólfið. Morgun­inn eftir var gólfið komið á hreyfingu. Ég leit niður og sá svarta depla hreyfast til og frá. Morgun­matur í maura­ríki. Þetta var nú misnotkun á gestrisni minni svo ég stökk fram í eldhús, sótti mauraspreyið mitt og dreifði eitrinu um allt gólf­ið. Síð­an sáust ekki maurar í herberginu. Sóðaskapur ekki heldur.  Þarna hafði ég víst drepið nokkur þúsund vondra Indverja og bakað mér reiði Vishnús.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Heldurðu að spreyið virki á Steingrím Joð ??? Ég á enn ritgerð eftir þig, já bók, um konur í Íslam á disklingi. Hefur hún komið út.  Svo fann ég í kassa bókina þína um Palestínu um daginn.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.2.2008 kl. 19:35

2 Smámynd: Snorri Bergz

Sælir kallinn. Nei, ritgerð þessi var skrifuð við Hebreska háskólann í Jerúsalem á þessum tíma. Dugði mér til ágætiseinkunnar í námskeiði sem hét "Konur í íslam". Var einmitt að sjá þessa ritgerð áðan, þegar ég var að hreinsa til á harða drifinu. Þá fann ég einmitt þennan bréfsbút og gat ekki á mér setið að birta hann.

Snorri Bergz, 3.2.2008 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband