Laugardagur, 2. febrúar 2008
Borgarastríð í Chad
Enn einu sinni logar Afríkuríki í átökum. Saga Afríku síðustu 60-70 árin hefur verið mörkuð af átökum, yfirleitt innanríkjaátökum, ásamt hungursneyðum og margskonar áföllum. Þessi álfa, sem er vísast ein hráefnis- og auðlindaríkasta álfa heims, hefur heldur betur tekið sinn skerf af áföllum.
Vandamál Afríku eru margskonar. Fólksfjölgunin hefur verið mun meiri en efnahagskerfi einstakra ríkja hefur þolað. Þar kemur m.a. til, að einstaka þjóðflokkar í einstaka ríkjum hafa fylgt hefðum, sem ekki hafa passað við samtímann. En það er allt önnur saga, sem ekki verður rakin hér.
En hvað snertir pólítíkina eru málin flókin. Þegar Evrópubúar fóru að skipta Afríku upp á milli sín gripu þeir þau svæði sem þeir gátu, óháð búsetu ættbálka og þjóða. Því gerðist það, að einstaka stjórnunareining var ekki byggt upp eftir þjóðernislegum forsendum, heldur hagsmunum evrópskra nýlenduherra. Því gerðist það, að á meðan Evrópu var skipt upp, að lokinni fyrri heimsstyrjöld, eftir þjóðernislínum (að minnsta kosti að nokkru leyti), var Afríku áfram skipt eftir hagsmunum Evrópumanna og pólítískum væringum.
Þetta hefur t.d. sést vel í Nígeríu, þar sem margar þjóðir og þúsundir ættbálka hafa slegist um völdin. Ekki hefur það verið viðbætandi, að auðæfi einstakra ríkja hafa ekki skipst jafnt á milli, t.d. í Nígeríu, þar sem olíuauðurinn er á svæðum sumra, meðan aðrir búa við hefðbundna starfsemi, t.d. landbúnaður og hirðingjastörf. Og þar til viðbótar má nefna, að trúarbrögð koma til sögunnar, til dæmis þar, en sumar þjóðir/þjóðabrot eru kristin en önnur íslömsk.
Vandamálin eru víða mjög erfið, ekki síst í þeim löndum, sem skyndilega fengu sjálfstæði frá Bretum, Frökkum eða öðrum nýlenduveldum. Nefna má vandamál í Rúanda, Kongó og víðar, eins og alþekkt er.
Vandamálin í Norður-Afríku hafa verið annars eðlis. Ríkin þar eru yfirleitt algjörlega íslömsk, eins og t.d. í Chad, og lítil tungumálaaðgreining.
Chad
Chad liggur í hjarta Afríku, umlukið öðrum löndum og á því ekki land að sjó. Í norðri er Líbýa, Súdan í austri, Miðafríkuríkið í suðri og Kamerún og Nígería í suðvestri, og Níger í vestri.
Sökum fjarlægðar frá sjó er veðurlagið eyðimerkurloftslag, þurrt og frekar heitt. Chad er skipt niður í þrjú landfræðileg svæði: Í norðri er eyðimerkursvæðið, Sahelianbeltið er í miðju ríkinu, en hin frjósama súdanska slétta í suðri. Chadvatn er uppspretta vatns í ríkinu, en það er næststærsta vatn Afríku á eftir Viktoríuvatni. Höfuðborgin er NDjamena.
Yfir 200 þjóðernis- eða tungumálahópar búa í Chad. Franska og arabíska eru reyndar hin opinberu tungumál landsins, en einnig eru margskonar mállýskur í gangi og fornar tungur ættbálka. Flestir íbúar Chad eru múslimar, en íbúar eru um 10 milljónir.
Frakkar náðu Chad á sitt vald 1920, en það hafði eiginlega ekki verið eiginlegt ríki áður, heldur landsvæði sem ættbálkar réðu sínu svæði, oft í sambandi við Osmanska (ottómanska) heimsveldið. Frakkar sameinuðu þetta svæði nærliggjandi svæðum í Frönsku Mið-Afríku, sem síðan brotnaði niður í Gabon, Chad, Miðafríkulýðveldið og Kongó (Belgíska Kongó var síðan nefnd Zaire, en er nú Kongólýðveldið). Það náði frá Sahara-eyðimörkini (Chad) til Kongó (Kongó).
Chad klofnaði frá þessari heild 1960, þegar landið klauf sig frá undir forystu Francois Tombalbaye (1918-1975), verkalýðsforingja frá Sara-ættbálknum í suðurhluta landsins. En stjórn hans vakti upp andóf í norðri meðal íslamskra íbúa landsins, enda ríkti hann sem einráður og setti t.d. af ýmsar sértækar lagasetningar, s.s. hvað snerti íslömsk sérákvæði. Borgarstríð hófst síðan 1965, en því lauk 1979, þegar uppreisnarlið múslíma í norðri náði höfuðborginni NDjamena á sitt vald. Norðanmenn komust nú til valda, en upphófst þá valdabarátta einstakra hershöfðingja. Að lokum komst Hissene Habre til valda, en hann hrökklaðist frá 1990 eftir stjórnarbyltingu hersins.
En Chad býr yfir einum mesta óstöðugleika í allri Afríku. Í fáum ríkjum er jafn oft reynt að bylta stjórnvöldum með valdi og hefur það haft aukið vægi hin síðari ár, þegar olíuframleiðsla hefur aukist og eftir meiru að slægjast en áður. Nágrannaríkin, eins og t.d. Líbýa og Súdan, hafa stöku sinnum blandað sér í þessi átök.
Flestir íbúarnir eru afar fátækir, enda er Chad eitt af fátækustu löndum Afríku. En olíuauðurinn færist á fáar hendur, enda er óvíða eins mikil og rótgróin spilling og þar. Og stjórnvöld ríkja í skjóli hersins, sem helst njóta góðs af spillingunni og verja því ríkjandi kerfi.
Idriss Deby hefur verið forseti frá 1990, þegar hann steypti Habre frá völdum. Hann er spilltur og hyglir ákveðnum ættbálkum í stöður og til valda. Frá 2003, þegar olíu fannst í miklu magni og hefur verið flutt út, hefur allt logað í deilum í landinu og upp úr óánægju landsmanna með misskiptingu auðs og valda, og margt fleira reyndar, hófst sú borgarastyrjöld, sem nú er farin að verða að meiri háttar átökum.
Baráttan virðist að miklu leyti vera ættbálkaerjur, þar sem sumir ættbálkar njóta góðs af stjórn landsins en aðrir ekki. Hin nýju uppreisnaröfl koma einkum frá austurhluta landsins (og eitthvað frá suðri), en þar hefur fátækt verið mest, ekki síst þar eð þangað hafa þúsundir og aftur þúsundir flóttamanna frá Darfur flúið.
Og ekki er ólíklegt, að Darfur vandamálið verði einnig vandamál í Chad, þar sem jafnvel er óttast að uppreisnar menn muni ná sér niðri á ættbálkum Debys forseta, nái þeir völdum. Ástandið gæti þá orðið eins og í Rúanda áður, eða Kenýa nú á vorum dögum.
Rætur vandans liggja hins vegar í því, að innan hvers ríkis búa margar þjóðir og fjölmargir ættbálkar. Og jafnan er, eins og víðar, að stjórnarherrarnir koma úr ákveðnum ættbálki og hygla honum. Þetta er alþekkt í Afríku.
Því er líklegt að átökin í Súdan, Kenýa, gamla Zaire, Rúanda og víðar eigi eftir að breiðast út til annarra ríkja Afríku, þar sem svipuð þjóðernisskipting er uppi á teningnum.
Uppreisnarmenn stefna á forsetahöllina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hehe, nei. Ég er bara snöggur að skrifa...vanur maður sko!
Snorri Bergz, 2.2.2008 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.