Föstudagur, 1. febrúar 2008
Nótt á bráðamóttöku
Ég skil þennan karakter ofboðslega vel. Það er fátt eins leiðinlegt og að liggja í sjúkrarúmi, með allskonar snúrur og system í sér, og hafa ekkert að gera. Með tölvuna getur maður þó amk gert eitthvað, eða skrifað, eða gert bara eitthvað sér til dægrastyttingar.
Ég reyndi þetta fimmtudaginn 30. janúar. Ég hafði verið eitthvað slappur og farið heim á hádegi. En síðan, þegar fréttatíminn stóð yfir á RUV, fékk ég þessa rosalegu verki fyrir brjóstið. Og þeir héldu áfram og áfram, svo ég þorði ekki annað en að hringja í 112.
Og fólkið þar sendi tvo sjúkrabíla á staðinn með det samme. Ég var þar í meðhöndlun í nokkuð langan tíma en fór síðan niðrá bráðadeild við Hringbraut, aðallega held ég út af því að hjartadeildin væri þar.
Ég fékk krana í höndina, eða legg, strax í sjúkrabílnum og síðan var blóði dælt af mér og var mældur á bak og fyrir. Síðan fór ég að rúnta með einni af sætu hjúkkunum, sem keyrði mig í hjólastólnum yfir á röntgen, þar sem teknar voru alls konar myndir, snið og eitthvað. Og ég sem hafði átta plástra á hárugri bringunni. Þegar þeir voru rifnir af var eiginlega miklu sársaukafyllra en hitt hafði nokkurn tíma verið.
Jæja, Mundi bróðir kom til mín með lappann. Mér leiddist svo, að ég bað hann að renna honum til mín, ef hann gæti. Hann var að hjálpa litlu systur að flytja, en þar hefði ég líka verið, hefði ég verið hraustur.
En ég ligg hér semsagt í rúmi á bráðadeild og bíð eftir niðurstöðunum. Klukkan er 22:28. Ég bíð semsagt eftir niðurstöðunum úr öllum þessum prófunum. Og bíð eftir næstu blóðprufum, sem verða teknar á nokkurra tíma fresti uns annað verður ákveðið. Síðan verður allskonar system í fyrramálið.
Ég vildi helst fara að sofa og vakna aftur þegar ég má fara heim. Hér í kringum mig er gamalt fólk að gefa ástvinum fyrirmæli um hvernig jarðarförin eigi að vera: Engin erfidrykkja, sagði konan í næsta rúmi, hinumegin við tjöldin. Konan skáhallt á móti er að ræða um hvernig húsinu verður skipt. Úff, og ég sem hélt ég væri bara með flensu þegar ég fór heim í dag.
En vonandi verður þetta ekkert alvarlegt. Over and out. Roger.
Morgunn:
Ég fékk að skreppa heim um tvöleytið. Ég gat ekki sofið, m.a. vegna þess að maðurinn í rúminu beint á móti hraut eins og sláttuvél og konan við hliðina aðeins. Við hin þrjú gátum ekki sofið. Og ég var talinn í nógu góðu standi til að fara heim og reyna að sofa eitthvað.
Það tókst. Ég náði nokkrum klst og er glaður með það. Síðan renndi ég við á skrifstofunni til að sækja mér nokkrar bækur og svoleiðis. Síðan fer ég aftur niðrá Bráðamóttöku. Frekari rannsóknir taka við.
En þetta virðist ekki vera neitt alvarlegt, svo ég er bjartsýnn. En ekki leit þetta vel út, að mér fannst a.m.k.
Athugasemdir
Úff, ég ætla rétt að vona að þú hafir rétt fyrir þér, að þetta sé ekkert alvarlegt.
Laufey B Waage, 1.2.2008 kl. 10:13
Gangi þér vel í þessu, kall!
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.2.2008 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.