Fimmtudagur, 31. janúar 2008
Af spjöldum sögunnar 2: Fyrstu stórveldi Mesópótamíu
Sargon var fyrsti einræðisherra sögunnar og stjórnaði með harðri hendi í krafti rúmlega 5000 manna fastahers. Akkadíski herinn virðist hafa verið frumkvöðull að eða leifturstríði, þar sem léttvopnaðar herdeildir hans æddu yfir grundir og komu andstæðingum sínum í opna skjöldu.

Babýloníuríkið hið fyrra náði um tíma yfir stærsta hluta hins þekkta heims. Hammúrabi (1728 -1686 f. Kr.) er þekktastur konunga þess. Hann var í upphafi herkonungur, en þegar veldi hann var orðið traust, hóf hann að styrkja innviði ríkisins með því, að afmá sjálfsstjórn einstakra héraða, en treysta bönd þeirra með millisvæðaverslun. Lögbókin mikla er þó frægasta afrek Hammurabis, en hún var sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, að því að talið er.
Með henni var stjórnarfarslegum endurbótum komið á, þar sem til dæmis hið veraldlega vald var aðskilið frá hinu trúarlega. Hér kom fyrst fram reglan auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, en áður höfðu fébætur verið taldar hæfileg refsing fyrir afbrot og líkamsmeiðingar. Konungurinn fékk því fullveldi utan áhrifavalds hofprestanna, sem skiptu sér lítið af stjórnmálum á tíma Hammurabis.

Austast í frjósama hálfmánanum, við botn Persaflóa austan Tígrísfljóts, höfðu risið menningarsamfélög Elamíta og skyldra þjóða, sem sumar hverjar eru taldar hafa verið af indó-evrópskum uppruna. Elamítar voru lengst af í forystu austurbyggja og reistu veglega höfuðborg í Súsa., sem í dag liggur nánast á landamærum Írans og Íraks.
Húrríar voru indó-evrópumenn, sem settust að í norðurhluta Mesópótamíu og stofnuðu Mitanní-ríkið. Siðir þeirra voru töluvert framandi þeim, sem ráðandi voru á svæðinu, en til að mynda dýrkaði aðalsætt þeirra guðina Indra, Mitra og Varuna, sem enn lifa í hindúasið. Með Húrríum barst hesturinn til Mesópótamíu og þá jafnframt hestdregnir hervagnar. Um tíma réðu þeir svæðinu frá Kanaanslandi og allt til ríkis Kassíta, fjallafólksins sem ríkti austan Tígrisfljóts.
Einnig má nefna Aramea, semíska hirðingjaþjóð sem lengi var ráðandi í Sýrlandi og héldu höfuðborg í Damaskus. Sýrlendingar máttu löngum þola ágang og yfirráð nágrannaríkjanna, enda réðu þeir verslunarleiðunum frá Egyptalandi, til Fönikíu, og áfram til Mesópótamíu. Þeir áttu þó einstaka stórveldi, inn á milli hersetutíma erlendra ríkja.
Fönikíumenn réðu lengi verslunarleiðum austurhluta Miðjarðarhafs og reistu fjölda verslunarhafna á strandlengjunni. Kjarni veldis þeirra var í núverandi Líbanon, en á stórveldistíma þeirra réðu þeir yfir nýlendum víða um Miðjarðarhafið, allt vestur til Spánar. Ein þekktasta borg þeirra var Karþagó. Segja má, að á miðað við tímaskeið hafi Fönikar verið mesta verslunarþjóð allra tíma.
Veldi Babýloníumanna varðist lengi vel ásókn nágrannaríkjanna, en varð að lokum að láta undan síga. Um 1530 f. Kr. réðist fjallaþjóðin Kassítar óvænt á Babýlon og steypti síðasta konungi Amoríta af stóli. Um 1160 f. Kr. hrundi veldi Kassíta, þegar Elamítar réðust á og rændu Babýlon. Stjórnarár Kassíta voru hins vegar lítið eftirminnileg, þar sem hnignun var ráðandi á flestum sviðum og voru konungar þeirra lengi vel skattþegnar Assýríu, næsta stórveldis Mesópótamíu.
Assýríumenn voru samansafn herskárra ættbálka, sem settust að í norðurhluta Mesópótamíu um það bil 2500 f. Kr., og reistu höfuðborg sína í Assúr, sem nefnd var eftir höfuðguði þeirra. Hið forn-assýríska ríki (18001375 f. Kr.) hófst með útþennslu Assýríukonungs í norðurhluta Babýloníu, en varð síðan skattskylt Hammurabi og síðar Húrríum. Assýríska miðríkið (13751047 f. Kr.) hófst þegar Assýringar náðu að hrinda oki Húrría af baki sér með hjálp Hetíta.
Næstu misserin var veldi Assýringa í blóma og reis þá borgin Níníve, sem varð upp frá því höfuðborg Assýríu, glæsilega skrýdd lágmyndum og öðrum listaverkum. Assýringar háðu mörg útþennslustríð, þar sem sigraðar þjóðir voru miskunnarlaust hnepptar í þrældóm og fluttar nauðugar frá heimkynnum sínum. Við hrun Hetítaríkisins um 1200 f. Kr. hörfuðu Assýringar aftur til assýríska heimalandsins, sem náði frá Assúr til Níníve.
Assýríska nýríkið brast á um 1100 f. Kr., þegar Tilgat Pilneser þandi veldi sitt allt norður til Armeníu, vestur til Gasa og suður eftir Mesópótamíu til Persaflóa. Um hálfri öld síðar höfðu þeir hrakist til baka og varist ásókn nágrannaríkjanna innan marka heimalandsins.

Frá tíð Suppilulimas I. (1344 -1322) urðu Hetítar ráðandi í Miðausturlöndum, en við innrásir svokallaðra sæfarendaþjóða um 1250 skrapp veldi þeirra saman. Hálfri öld síðar leið Hetítaríkið endanlega undir lok, eftir 600 ára stórveldissögu. Þótt menning Hetíta hafi lifað áfram í rúm 500 ár, hélt hún aðeins velli í valdalausum og dreifðum borgríkjum.
En hver var arfleifð þessa mikla stórveldis? Hetítar höfðu rík samskipti við Mesópótamíu og þáðu þaðan ritlist, kunnáttu í stærð- og stjörnufræði, og margt fleira. Þeir endurbættu löggjöf Hammúrabis, þar sem refsingar við lögbrotum voru mildaðar og færðar aftur í það horf, sem verið hafði í Súmer, þar sem sektargreiðslur

Hernaður skipti þá miklu og eru guðir þeirra, einkum þrumuguðinn Tesúb, til að mynda yfirleitt sýndir í fullum herklæðum, vel vopnaðir og vígalegir að sjá. Gyðjudýrkun Hetíta átti eftir að breiðast víða út um Miðausturlönd og víðar, þar sem hin mikla móðir lands og þjóðar, verndari ríkis og konungs, var tilbeðin með umfangsmeira móti, en áður hafði þekkst. Vísast hefur goðaheimur Hetíta verið kjarninn að grískri goðafræði, en leifar Hetíta fluttust vestur á bóginn og settust að á Balkanskaga c.a. 3.000 - 2.000 f. Kr., og runnu inn í grískar þjóðir, sem þar voru að koma fram.
Þessi ríki voru mjög athygli verð í ljósi sögunnar.
Meginflokkur: Af spjöldum sögunnar | Aukaflokkur: Saga | Breytt s.d. kl. 09:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.