Af spjöldum sögunnar 1: Súmer og upphaf borgríkja

Það svæði, sem kallað er Frjósami hálfmáninn, liggur í hálfmánalöguðum boga frá botni Persaflóa, norður núverandi Írak til Sýrlands og þaðan niður eftir strandlengju Miðjarðarhafs til Ísraels. Svæðið var afar frjósamt og auðugt, jafnvel áður en menn hófu að nýta þar jarðolíu og gas sér til framdráttar. Það var í þessum heimshluta, að siðmenningin hófst fyrir alvöru og fyrstu menningarríkin risu. Þar komu líka fram flest sumerkortþau stórveldi, sem garðu garðinn frægan hið forna, allt frá Súmerum til Persa. Í millitíðinni hafði siðmenning þróast í átt til nútíma í ríkjum Babýloníumanna og Assýringa, Föníkíumanna, Ísraelsmanna, Húrríta, Hetíta og semískra ættflokka á eyðimerkursvæðunum vestan Efratar. Fyrsta menningarþjóðin, Súmerar, voru að mörgu leyti sú hin merkilegasta þeirra. 



Súmer  ~ fyrsta menningarþjóðin

Heimildir gefa tilefni til að ætla, að skömmu eftir 4.000 f. Kr. hafi litlar borgir tekið að myndast í óshólmum stórfljóta Mesópótamíu. Það varð þó ekki fyrr en um 3.500 f. Kr., að íbúarnir, sem kölluðu land sitt Súmer, eignuðust fjölmenna borg, Úr, syðst í landinu.


Þjóðfélag Súmera var grundvallað á bandalagi borgríkja, sem höfðu í grundvallaratriðum sama tungumál, sömu menningu og stjórnskipun. Borgríkið var kjarni allrar tilveru þeirra, þar sem hvert þeirra var talið eign einhvers ákveðin guðs og þannig tilheyrðu íbúarnir guði sínum. Kjarni hverrar borgar var því musterið, sem um síðir varð einskonar pýramídi eða ziggurat, en umhverfis það á allar hliðar voru híbýli manna og dýra. Borginni tilheyrði svo ræktarland, sem hafði eigið áveitukerfi eða vatnsuppsprettur.
ziggurat

Grundvallarsamskipti almúgamanna og presta voru byggð á undirgefni hinna fyrrnefndu, sem þjóna áttu hinum síðarnefndu, sem væru fulltrúar guðanna. Hofprestarnir voru í raun ráðandi meðal Súmera, enda var musterið kjarni samfélagsins. Bændur fluttu afurðir sínar til prestanna, sem tóku af því frumgróðafórn til handa borgarguðinum, tóku svo til eigin þarfa, en deildu eftir þörfum því, sem eftir stóð, til lýðsins.


Í musterunum fór einnig fram stjórnun borgarinnar, sem í raun var undir guðræðisvaldi hofprestanna, en þar var fjárhirslan og birgðageymsla matvæla. Æðsti presturinn, svokallaður ensí, var málsvari borgarbúa og leiðtogi þeirra í stríði. Hann hafði einnig umsjón með skrifaraskóla borgarinnar, þar sem prestarnir kenndu ungum mönnum að skrifa og ólu þá upp til að fylla embættismannastétt borgríkisins. Skilin milli hins veraldlega og andlega valds voru því óglögg.
annunaki



Súmerar voru ennfremur forvígismenn spásagna og galdurs, enda var fjölkynngi eina leiðin, sem prestarnir töldu færa til að sjá fyrir komandi atburði og búa í haginn fyrir áföll, sem hugsanlega kynnu að ríða yfir. Í því skyni leituðu þeir fyrirmæla úr líffærum fórnardýra sinna, en almenningur túlkaði reykelsisreyk eða leitaði spásagnar með öðrum hætti.



Súmerar hófu jafnframt að gera tilveru sína þægilegri með margs konar uppfinningum. Þeir fundu upp hjólið, þróuðu fyrsta ritmálið, hófu leirkerasmíði og margt fleira. Flestar uppfinningar Súmera sneru að verslun þeirra við fjallaþjóðirnar, sem seldu þeim timbur og málma í stað korns og iðnvarnings. Nefna má, að hjólið var fundið upp til að eiga auðveldara með að flytja þunga vöru, sennilega timbur, á milli staða. Ritmálið kom svo til sögunnar til að skrá niður viðskiptin.


Elstu merki ritlistar Súmera sýna þó, að upphaflega hafi þeir notast við myndmál, en síðar tekið að rita með oddhvössum prikum á blaut leirbrot, sem síðar þornuðu og geymdu upp því frá hugsun ritara síns. Leturstrik þessi líktust fleygum og því er ritmál þeirra kallað fleygrúnir. Súmerar voru fyrstir til að nota segl á skipum sínum, svo vitað sé, en seglbátar þeirra sigldu eftir stórfljótunum með verslunarvarning. Þeir voru einnig fyrstir til að temja dýr í stórum stíl, bæði til manneldis og vinnu. Vitað er, að þeir notuðu asnadregna vagna til flutnings nauðsynjavarnings á milli staða og hervagna, þegar skarst í odda milli einstakra borgríkja.


Borgríki voru nær ætíð upphaf ríkjamyndunar, þar sem ein borg stóð fyrir einn guð. Konungar litu á sig sem syni eða erindreka borgarguðsins og þegar tækifæri gafst, þönndu þeir út veldi guða sinna. Þannig urðu ákveðnir guðir útbreiddastir um Miðausturlönd og tóku að mynda guðafjölskyldur.


Úr, með sína 50.000 íbúa, var um hríð voldugasta borg Súmera, en um 2800 f. Kr. tóku önnur borgríki að hefja vald sitt. En þó ákveðin tilhneiging hafi verið meðal sumra konunga til þess, að taka sér alræðisvald í landinu, var enginn þeirra var nægjanlega voldugur til að hrinda því í framkvæmd, ekki einu sinni Gilgamesh, frægasti konungur Súmera. Hann ríkti yfir um það bil 50.000 þegnum í borgríkinu Úruk, um það bil 2.700 f. Kr. og frá honum höfum við helstu heimildir okkar um samfélög Súmera. Mörg ljóð hafa verið samin um konunginn og hafa flest þeirra varðveist í samnefndum ljóðabálkum, sem enn njóta frægðar.

Ítarefni: Súmer í Wikipediu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband