Laugardagur, 29. desember 2007
Frjáls, óháð völvuspá!
Var að lesa frjálsa og óháða völvuspá "Dhörmu".Hún kemur svosem ekki á óvart, frekar en Dharma í Dharma og Greg.
Fastir liðir í völvuspám er að tala um veður, og þá þykjast menn vera gríðarlega kyngimagnaðir þegar þeir tala um að veður verði rysjótt... á Íslandi. Gríðarlega mikil spámennska.
Jörð mun skjálfa. Húrra. Jarðskjálfti? Á Íslandi? Farðu út úr bænum!
Íslendingar munu gera það gott erlendis á árinu. Nei, er það virkilega? Kannski hinir sömu og hafa gert það gott hingað til? Mögulega?
En svo ég setji nú á mig töfrahattinn og spái fyrir um næsta árið þá segi ég eftirfarandi:
Það verður virkilega leiðinlegt veður um allt land á næsta ári, og það segi ég vegna þess að síðasta sumar var frábært og lögmál Murphys segir okkur að næstu ár munu vera "payback". Fyrir hvert eitt gott sumar koma 5 ömurleg. Veðrið á næsta ári mun sjúga feitan tíma.
Kosið verður á árinu. Um forseta. Já, ég segi það og skrifa og stend við. Ólafur Ragnar býður sig fram, og við munum sjá harkalega kosningabaráttu sem skilur embættið eftir í sárum um ókomna tíð. Ólafur sigrar með naumindum.
Efnahagsþrengingar ríða yfir landsmenn og loksins nær neyslufylleríið í skottið á landsmönnum sem lifað hafa um efni fram undanfarin ár. Og kominn tími til. Jólaverslun næstu jóla verður ekki nema brot af því sem hún var núna.
Ríkisstjórnin springur, enda ekki hægt annað með næturpenna eins og Össur innanborðs. Ingibjörgu er ekki treystandi fyrir húshorn og hún mun sæta lagi um leið og færi gefst til að labba út úr stjórnarráðinu og myndar stjórn með Framsókn, VG og Frjálslyndum. Ekki verður boðað til kosninga, enda taka Framsóknarmenn slíkt ekki í mál. Ingibjörg verður forsætisráðherra, en VG gerir tilkall til fjármálaráðuneytisins, þar sem Ögmundur verður húsbóndi.
Í kjölfar nýrrar ríkisstjórnar munu bankarnir og hin stærstu fyrirtækin í Kauphöllinni ákveða að færa höfuðstöðvar sínar til annars lands. Ríkissjóður verður af milljarðatugum í skatttekjur, og bilið mun Ögmundur vilja brúa með hækkun tekjuskatts á almenning. Samfylkingin verður þegjandi ambátt í ríkisstjórninni, enda búin að gera Sjálfstæðisflokkinn afhuga sér á meðan Ingibjörg situr sem formaður, og hún á engra kosta völ.
Atvinnuleysi eykst mikið í kjölfar nýrrar ríkisstjórnar og almenn upplausn mun ríkja í landinu og blikur á lofti, og margir munu flytja sig um set með fyrirtækjunum til nágrannalanda, og eftir verða þeir sem það geta ekki eða stendur það ekki til boða. Ísland verður að þróunarríki þar sem hinn menntaði og verðmætaskapandi hluti þjóðarinar hverfur á braut.
En fyrir utan þetta verður allt bara meiriháttar, KR verður Íslandsmeistari og við lendum í 4. sæti í Júróvisjón með hnyttnu lagi Barða.
Góðar stundir
Úff, þetta er ekki fögur lýsing. Og það versta er, að KR verður Íslandsmeistari! Nei takk.
Athugasemdir
Hehe, góður Benni!!
Snorri Bergz, 29.12.2007 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.