Sunnudagur, 23. desember 2007
Farbann á útlendinga - eftirlit með útlendingum
Nú er svo komið, að besta leiðin til að losna við óæskilega útlendinga er að setja þá í farbann. Þá eru þeir ekki seinir á sér að flýja land.
En hvaða útlendingar eru óæskilegir? Þeir sem nauðga, ræna eða valda öðrum skaða?
Ja, þeir verða ekki óæskilegir fyrr en búið er að rétta í málum þeirra og fella dóm. Og þá aðeins ef um seka einstaklinga er að ræða.
Umræðan hefur því miður verið þannig undanfarið, að þjóðerni sakamanna hefur verið haft í frammi, t.d. "Litháískur maður er grunaður um nauðgun", eða eitthvað svoleiðis.
En ef íslenskur maður á í hlut er sagt: "Maður..."
Auðvitað viljum við ekki fá hingað erlenda glæpamenn eða smitbera. Fyrstu útlendingalögin á Íslandi, svo heitið geti, voru undir þeim formerkjum. 1920 voru "Lög um eftirlit með útlendingum" samþykkt á Alþingi og þá var búseta og hingaðkoma útlendinga þá aðeins takmörkuð ef þeir væru haldnir smitsjúkdómi eða voru ólíklegir til að geta framfleytt sér hér. Brottvísun var þá aðeins framkvæmd ef ein af þremur forsendum voru fyrir hendi: Bjargþrot (þ.e. að fá styrk frá fátækrahjálp og túlkað þannig að umræddur aðili fengi slíkt í nokkurn tíma, t.d. 3 mánuði eða lengur), meiri háttar glæpir (frekar fáir slíkir, því menn fengu jafnan séns á að bæta ráð sitt) eða smitsjúkdómur.
En þessi lög voru lítið framkvæmd og var það ekki fyrr en í lögreglustjóratíð Hermanns Jónassonar að skikkan komst á þessi mál í Reykjavík, en voru enn í ólestri úti á landi. En Hermann rak sig á veggi, því stjórnvöld höfðu afar lítinn áhuga á að reka héðan útlendinga sem borguðu útsvar og voru til friðs, og jafnvel ekki þegar þeir voru í vandræðum, t.d. vegna heilsubrests, eins og ættfaðir Morthens ættarinnar hér, en hann hafði verið "barinn til óbóta af manni í Hafnarfirði", en fékk að vera hér töluvert lengi eftir að fyrst var reynt að vísa honum úr landi, enda var hann giftur og átti hér krakkaskara. Hann hafði einnig meðmæli margra, enda mikill dugnaðarforkur, sem hafði lent í þessu óhappi.
Hermann setti síðan ný útlendingalög, eftir að hann varð forsætis- og dómsmálaráðherra, og síðan reglugerð um Útlendingaeftirlitið, og aðra um útlendingaeftirlit. EN þau skiluðu litlu, því Hermann túlkaði þau þannig að þau væru sett gegn glæpamönnum og fólki af óæðri kynstofnum. EN Norðmenn og Þjóðverjar t.d. fengu samasem að vaða hér inn og út eins og þá lysti, enda voru þeir, svo vitnað sé í Tryggva Þórhallsson, "hold af okkar holdi" (Norðmenn), og "í menningarlegum samhljómi (Þjóðverjar), svo vitnað sé í Alexander Jóh. rektor.
En nú streyma hingað Pólverjar og Litháar, m.a. Þeir fyrrnefndu flestir í farandvinnu. SUmir ákveða þó að vera hér áfram og setjast hér að, aðrir halda vísast heim að tíma liðnum. Og Litháarnir eru í ýmsum erindum, sumir hverjir ólöglegum, eins og komist hefur upp. Jafnvel er haldið fram, að sumir þeirra séu á vegum mafíunnar, sbr. líkfundarmálið fræga.
Pottur hefur verið brotinn í meðferð ríkis og bæja á málefnum útlendinga hér á landi alveg frá því um 1900, eins og ég ræddi t.d. í MA ritgerð minni forðum, og PhD ritgerðinni, en tölvunni var stolið og öllum afritum (klaufaskapur í mér að hafa ekki afrit heima líka!). Íslendingar hafa fulla ástæðu til að skammast sín fyrir útlendingastefnu stjórnvalda fram á hin síðustu ár amk, og þá fyrst og fremst vegna þeirra viðhorfa, sem ríktu í garð þeirra og koma fram í gögnum utanríkis- og dómsmálaráðuneyta, m.a. Má þar nefna flóttamenn, fyrst og fremst, t.d þá ungversku, sem hingað komu. Ég man að ég reiddist margsinnis, þegar ég las gögn ráðamanna um þau mál. Svindl og svínari, lygar og þvæla. Við stóðum ekki við nein loforð, og lugum alþjóðlegar stofnanir fulla til að láta líta út fyrir að við værum að gera eitthvað. En við vorum bara að reyna að bæta ímyndina út á við, okkur var skítsama um þessa útlendinga. Eða það var amk viðhorf stjórnvalda.
En hvað með í dag?
Eru ekki stjórnvöld fyrst og fremst að leyfa þessu fólki að búa hér af því að okkur vantar ódýrt vinnuafl? Sú var amk raunin hér á árum áður, þegar okkur vantaði vinnuafl. Þá var sent eftir flóttamönnum sem höfðu slíka reynslu og menntun, og síðan sendar montskýrslur til SÞ.
Við erum fyrst og fremst að flytja inn útlendinga af því að þeir eru ódýrt vinnuafl. Ekki af neinni ástæðu annarri.
Og síðan, ef þeir gera eitthvað af sér, koma upp fordómarnir.
En hitt er svo annað mál, að við eigum að hafa strangara eftirlit með því hverjir koma hingað, t.d. að fá löggilda sakaskrá og heilbrigðisvottorð. Það dugar ekki lengur að leyfa hverjum sem er að koma, bara af því að viðkomandi er tilbúinn að vinna hérna fyrir léleg laun, eða vinna þau störf af hendi, sem Íslendinga telja ekki samboðin sér.
Farbannið virkar greinilega ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.