Laugardagur, 17. nóvember 2007
Morkinn laugardagsmorgunn...einu sinni enn
Æ, enn einn laugardagsmorguninn og sá versti lengi. Ég er akkúrat núna morknari en jafnan.
Síðustu vikur hafa verið frekar erfiðar. Maður hefur verið að drukkna í alls konar verkefnum, bæði skemmtilegum og leiðinlegum.
Einu því skemmtilegasta lauk í gær, þegar fór fram síðasti tíminn hjá Hjörvari Steini, efnilegasta skákmanni Íslands. Ég hafði reynt að kenna honum eitthvað nær daglega síðustu tvær vikur. Ég efast um að hann hafi getað lært mikið af mér, enda er strákurinn alveg skelfilega góður orðinn; miklu betri en ég, það segir sig sjálft. Þar að auki var maður óvenju þreyttur og ekki jafn harður að tutka stráksa til í byrjununum og venjulega, en maður reyndi sitt besta.
Við fórum yfir ákveðnar byrjanir og reyndum að undirbúa þær sem best fyrir HM unglinga, sem hefst 19. nóvember. Hann sótti síðan einnig tíma hjá "Veggnum", þ.e. Helga Ólafssyni, sem skilur skák betur en flestir aðrir. Unglingarnir, sem fara á HM, voru á fullu að þjálfa. Í gær mætti ég kl. 11 að morgni í TR og kom unglingur síðan 11.15, beint úr tíma hjá Helga. Umræddur skákunglingur er hjá fjórum einkaþjálfurum þessa dagana og gerir ekki mikið annað. Frí í skólanum í gær vegna starfsdags, tek ég fram.
Unglingarnir eru a.m.k. áhugasamir og leggja sig alla fram til að ná árangri. Þeir fóru út í morgun og verða vonandi komnir til Kemer í kvöld, en HM unglinga fer fram á sama stað og EM félagsliða, sem ég tók aðeins þátt í fyrir um mánuði síðan.
Nú, ýmislegt hefur gengið á upp á síðkastið. Feiti Búddha er enn við sama heygarðshornið og sömuleiðis félagar hans af ýmsum toga. Ég er að klára að setja saman vefsíðu fyrir merkilegan mann, sem er að miðla reynslu sinni. Margskonar smáatriðavinna í gangi, enda er síðan í loftinu á fimm tungumálum, en þar af skrifa ég síðuna á tveimur. Þetta er dálítið maus, en eins gott að maður hefur gott vefumsjónarkerfi, A8, til að vinna með.
Var síðan að renna yfir nýja bæklinginn hjá Munda bróður. Hann fer í prentsmiðjuna fljótlega og ekki seinna vænna og þar á ég við bæði bæklinginn og Munda, þ.e. Mundi fer með bæklinginn...osfrv. Maður er eiginlega of syfjaður og þreyttur til að hugsa eða skrifa rökrétt.
Ég var kominn á skrifstofuna fyrir sex í morgun. Ég hellti hálfsofandi upp á kaffi og var varla sestur þegar Securitas maðurinn hringdi að tékka á málum. Ég djókaði aðeins með, að ég væri bara heima að sofa, en gleymdi smástund að hann hafði auðvitað séð kóðann minn í kerfinu og féll ekki fyrir þessum brandara. En maður hresstist aðeins við að bulla svona í morguns árið.
Jæja, þá er að drífa eina undirsíðu af og snúa henni á ensku, pronto! Nú stendur pabbahelgi yfir hjá Munda bró og maður reynir að gægjast aðeins á börnin hans, bæði eldri og yngri. Það var hluti af pakkanum, þegar ég lánaði honum minn barnakvóta.
Og síðan er það bara vinna, vinna, vinna, uns ég dett niður ubermorkinn og þreyttur einhvern tíma í kvöld. En það eru bara nokkrir daga í Leifsstöð. Solid ferð framundan, með Stóratíma með eins og venjulega.
Solid...eða eins og skáldið sagði: "Smje".
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.