Mánudagur, 6. ágúst 2007
Verslunarmannahelgin liðin
Jæja, nú fara Reykvíkingar og nærsveitarmenn að búa sig ti heimferðar. Nú verður, að venju, bíll við bíl frá Rauðavatni til Bláfjalla annars vegar, og Mosfellsbæjar til Hvalfjarðargangna.
Eða ekki? Mér sýnist borgin vera ekki svo ólík því sem gerist á venjulegri sumarhelgi. Kannski hafa sífellt fleiri fattað snilldina í, að vera bara heima og sleikja sólina?
Ég fór oft út úr bænum um þessa helgi í gamla daga meðan ég var unglingur. Ég held ég hafi að mestu hætt því um tvítugt. Fór reyndar í einskonar vatnsútilegu 1998, en ekkert síðan. Stundum var ég að vinna, en oftast slakaði ég bara á heima.
Svo var raunin núna. Ég sat í mestu makindum heima fyrir þessa helgi. Eyddi reyndar töluverðum tíma á skrifstofunni -- ekki beinlínis við hefðbundna vinnu, heldur við að skrifa nokkrar greinar, sem eru komnar í tímahrak. Síðan var ég að dúlla mér við ýmislegt, sem setur hefur á hakanum, taka til og svoleiðis.
Ég tók líka til í tölvunni. Henti ýmsum fælum, sem ég þurfti ekki á að halda eða átti kannski í tveimur eða fleiri eintökum. Það voru einkum skákfælar, sem nóg er að eiga í einu eintaki og síðan í bakkupi á "flakkaranum". Jafnframt raðaði ég fælum upp, en suma átti ég bara í "ýmislegt" hrúgunni. Ég þoli ekki skipulagsleysi, jafnvel í tölvunni. Allt þarf að vera á sínum stað, skipulagt og rétt uppsett.
Jæja, skák og fótbolti.
Mínir menn í Arsenal hafa nú unnið tvö sterk alþjóðamót á einni viku. Fyrst sigraði liðið, sem var án margra fastamanna, Emirates mótið á heimavelli, en þar sigraði liðið í báðum leikjum sínum, annars vegar við Paris St. Germain og síðan Inter Milano. Þá heyrðist ekki í Pöndunni, helsta aðdáanda Inter á Íslandi, en hann reis strax upp í stolti þegar Inter sigraði Man Utd auðveldlega nokkrum dögum síðar. Síðan sigraði Arsenal á Amsterdammótinu,með því að sigra Lazio og Ajax, Og enn vantaði fastamenn í liðið, sem þegar er meira eða minna skipað afar ungum leikmönnum.
Ég horfði á Arsenal - Ajax. Sá leikur var ekkert sérlega skemmtilegur, amk ekki miðað við að þar fara tvö skemmtileg sóknarlið. En hann var þó allt annað líf en hinn ömurlegi leikur Chelsea-Man Utd. Manchester spilaði með Rooney einan frammi, en Chelsea byrjaði leikinn án framherja, lá í vörn og beitti skyndisóknum. Man Utd spilar að jafnaði skemmtilegan bolta, en Chelsea er eitt leiðinlegasta lið Englands og þótt víðar væri leitað. Þarf vísast að fara alla leið til Ítalíu til að sjá önnur eins leiðindi (eða til Bolton!)
Skákin. Héðinn Steingrímsson varð stórmeistari í gær. Hann er mjög sterkur og var það aðeins tímaspursmál, hvenær hann næði að klára þetta. Hann tók nú þrjá stórmeistaraáfanga (þ.e. allan kvótann) á þremur mótum í röð. Glæsilega gert.
Unglingalandsliðið u-16 fór austur til Singapore fyrir helgi á ól-mót u-16 ára. Þetta er sama mót og Íslendingar unnu eftirminnilega 1995, öllum að óvörum. Liðið nú er skipað eftirtöldum skákmönnum:
1. Sverrir Þorgeirsson (Haukum)
2. Ingvar Ásbjörnsson (Fjölni)
3. Daði Ómarsson (TR)
4. Helgi Brynjarsson (Helli)
1v. Matthías Pétursson (TR).
Í liðið vantar reyndar Hjörvar Stein Grétarsson, sterkasta ungling landsins. Hann er nú að taka sér kærkomið frí strákurinn, eftir rosalega mikla taflmennsku síðustu mánuði. En hann kemur sterkur inn á Skákþing Íslands landsliðsflokk í lok ágúst og síðan á HM og EM unglinga í vetur, ásamt öðrum minni mótum.
Strákar þessir eru allir mjög efnilegir. Þeirra stærsta vandamál er skortur á skilningi og kunnáttu í byrjunum, og það, að kunna ekki að stúdera nógu vel upp á eigin spýtur. Þessi vandamál hafa hrjáð ísl. unglinga sl. rúmlega áratug, en vonandi stendur það til bóta.
Ég fékk það hlutverk í sumarbyrjun að ráðast á þessa veikleika strákanna og reyna að bæta úr. Held ég að það hafi tekist vel, en skv. fréttum á www.skak.is eru strákarnir orðnir mjög ákafir að stúdera, eitthvað sem ku hafa vantað töluvert áður. Þeir hafa nú almennileg skákforrit til notkunar og grundvallarþekkingu í að nota þau. Held ég að nú muni þeir verða enn öflugri en áður, þegar búið er að lappa upp á stærsta veikleika þeirra. En hins vegar eru þeir mjög sterkir í einföldu miðtafli og endatafli.
Strákarnir unnu Kínverja (Taipei) í gær 3-1, og hefðu getað unnið stærra, en Daði Ómars vildi ekki sætta sig við jafntefli go tapaði. Slíkt þekkir maður sjálfur alltof vel.En hann hlýtur að koma til baka strákurinn. Þetta gengur bara betur næst.
En jæja, kominn tími til að hita sér morgunkaffið hér á skrifstofunni. Adios.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.