Síðasti morguninn í Lúx

Luxemborg City o.fl 002Jæja, fallegur morgunn í Lúx. Sólin brosir sínu blíðasta og veðrið er með fegursta móti. Þetta verður heitur dagur í hertogadæminu.

Dagurinn í gær var sömuleiðis fagur, en ég missti nær algjörlega af honum. Ég vaknaði frekar morkinn og ekki skánaði það þegar á leið. Ég hafði, af ýmsum ástæðum, ekki sofið mikið síðustu tvær nætur, en stóran hluta þess má rekja til atburða, sem ég hef þegar rakið hér. Og þegar leið á morguninn var ég lagstur í bælið.

Það er alltaf ömurlegt að vera veikur í útlöndum; en að þessu átti bara venjulega flensa í hlut. Grétar reddaði mér flensulyfjum og fyrirmælum frá hinni góðu konu sinni, en hún er hjúkrunarkona. En þau virtust lítið ætla að bíta á mann og hafði ég eiginlega ákveðið það, um þrjúleytið að staðartíma, að hætta keppni í mótinu. Ég hef nú séð það svartara, t.d. á mótinu í Serbíu í fyrra og þar var ég algjörlega meðvitundarlaus í síðustu umferðunum og fór niður í logum. Ég ákvað því að reyna að læra af reynslunni og gefa mótið frá mér. Og ekki var það til að hvetja mann til dáða, að hafa bæði "fúl á móti" og "fýl á móti" hangandi yfir hausnum á manni, bíðandi eftir tækifæri til að höggva í knérun, sérstaklega sá þeirra hvurs innræti varð efni til skoðanakönnunar á skákmannaspjallhorninu í gær.

Luxemborg City o.fl 012En þrjóskan varð öðru yfirsterkari og mætti ég á skákstað. En þetta var tómt vesen, ég lék unninni stöðu á bjánalegan hátt niður í jafntefli amk tvisvar ef ekki þrisvar, aðallega vegna hæfileikaleysis, þreytu, hita og etv orkuleysis, en ég hafði þá ekkert getað borðað um daginn. Nú vitna ég í Bjössa Hún og segi: "Roar". Svo gerðu menn einnig á www.soccernet.com í gær, þegar sagt var frá móttökum Kananna þegar Beckham kom til LA, en skv. fréttamiðlunum voru mikil "roar" á fundinum, þegar hann var kynntur.

Nú, ég hélt heim, meðan strákarnir fóru með Fionu á local veitingastað. Allt var við það sama á Hótel Carpini, þegar kvöldmatur stendur yfir. Fólk snæði pizzur og annað á veitingastaðnum, og indversku hjónin koma með sinn stóra pott og skammta úr honum á borðinu fyrir utan hótelið. Nú hefur semsagt komið í ljós, hvers vegna sonur þeirra, sem ég tefldi við fyrir nokkrum umferðum, er kallaður "karrýkjúklingurinn". Það var semsagt ekki rasískt, eins og sérann í einhverju paranoiukasti hélt fram á Skákhorninu og hamaðist í mér fyrir, heldur af því að hann hefur, síðan hann kom hingað, haft þennan háttinn á. Í stað þess að kaupa sér mat, eldar mamma gamla karrýkjúkling handa stráknum og öðrum í fjölskyldunni og borða þau þennan góða mat fyrir utan veitingastaðinn! Semsagt, maðurinn sem hengir upp listann yfir pörunina hér á hótelinu, hefur vísast tekið eftir þessu merkilega háttalagi, en það var hann sem gaukaði þessu viðurnefni að mér upphaflega. Grétar sagðist áðan hafa náð flottri mynd af þessu og mun ég kannski henda henni hér inn síðar.

Ég hef nú fengið nánari útskýringar á deilumáli Kasparovs yngra og Héðins, bæði frá vitnum og Héðni sjálfum, en hann hefur verið hress og kátur hér í síðustu umferðum, brosað allan hringinn og verið hinn skemmtilegasti í umgengni. Af þessu má ráða, að Héðinn hafi verið í fullum rétti að kvarta við skákstjórann, og hefði hvaða skákmaður sem er gert hið sama.

En jæja, nýr morgunn. Þetta er amk síðasti dagurinn, þar sem við þurfum að aka heimskulegustu gatnamót í Lúxemborg, en þau eru þarna í Differdange. Þar mætist umferð úr öllum áttum og enginn veit eiginlega fyrir víst, hver á forgang. Mikil mildi að hafa komist þar óskaddaðir í gegn.

Ég vaknaði snemma, eftir frekar lítinn svefn, enda erfitt að sofa með stingandi augnaráð moskítóflugna á holdi sínu. Ég kálaði nokkrum þeirra með leifursnöggum karatehöggum og virðast hinar hafa flúið. En ég nennti ekki að fara að sofa aftur og fór niður í morkna morgunmatinn, sem betur fer í síðasta sinn.

Morgunmaturinn er e.t.v. stærsti mínusinn á þessu annars frábæra hóteli. Hann er alltaf eins og ekki mikið úrval. Kaffi fær maður sér (eða te), appelsínudjús stendur einnig til boða, síðan er brauð og einskonar heilhveitihorn, sem hrynur í sundur ef maður kemur í nokkra millimetra radíus frá því. Síðan er skinka, salami, smjör, mauk, ostur og svo jógúrt. Stundum ávextir eða egg. En þetta er alltaf meira og minna eins og ég er orðinn hundleiður á þessu.

En að þessu sinni var brauðið volgt. Kaffið var ekki tilbúið, en stelpan, sem alltaf er þarna á morgnana og brosir svo blítt þegar maður vígir morgunverðaróhlaðborðið nokkrum mínútum eftir að hún opnar matsalinn, laumaði á mig bolla úr kappótjínó vélinni. Ég færði mig út á "verönd" og sat þar hinn ánægðasti.

En þetta er síðasti dagurinn. Níunda umferð helst kl. 12 að staðartíma, 10 að íslenskum tíma. Síðan eigum við vísast smátíma aflögu, áður en haldið verður til Þýskalands, en við fljúgjum heim í kvöld frá Frankfurt Hahn. Vonandi stoppum við og fáum okkur smábita á sveitakránni margfrægu, Hunsrunck, sem er þarna c.a. mitt á milli Bascharage og Frankfurt.

Luxemborg City o.fl 003

En leiðin liggur heim, eins og svo oft áður. Og heima er best...ef maður býr í Reykjavík, annars bara næst best. Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband