Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Ubermorkinn morgunn í Lúx
Jæja, þá gerðist það í fyrsta skipti í ferðinni. Ég svaf hressilega yfir mig. Það helgast reyndar af því, að hafa farið seint að sofa. Og löglega afsakaður!
Hún var 8:55 þegar ég opnaði augun, leit á úrið, hoppaði í fötin og hljóp niður stigann til að ná í morgunmat fyrir 9. Yfirleitt er ég meðal þeirra fyrstu, eða fyrstur, á hverjum morgni. Nú rétt slapp ég inn og þurfti að sníkja mér disk, kaffibolla og ýmsan útbúnað, því búið var að taka allt slíkt lausadót af borðum.
Og veðrið jafn leiðinlegt og undanfarið, þ.e. slæmt íslenskt sumarveður. Þá er vísast gott veður á Íslandi. Ég sé fyrir mér Ugluna nývaknaða og á leiðinni á Þingvöll núna með stöngina. Og Stebbi Kristjáns kominn með tölvuna í gang og byrjaður að stúdera. Æjá, og maður situr hérna morkinn í Lúx.
En jæja, ég var nokkuð ánægður, þrátt fyrir allt, með skákina gegn vélmenninu í gær, þó ég hafi tapað. Ég fann þó amk trikk, sem leit vel út, en reyndist varhugavert, þegar betur var gáð með hjálp Rebekku minnar og tölvuforrita félaganna heima á Íslandi, en þeir fylgdust með skákinni live á netinu. Og auðvitað þurfti einhver að sjá þarna færi á að telja fram það neikvæða. En jæja, ekkert alvarlegt svosem þetta skiptið, maður hefur séð það verra og kippir sér ekkert upp við smá gagnrýni, þó hún hafi, að mínum dómi, verið byggð á misskilningi. Ég er nefnilega ekki með tölvuforrit í hausnum og get því ekki reiknað 10 leiki fram í tímann í flókinni stöðu. En jæja, troubled water under the bridge.
Ég fæ bráðefnilegan Indverja í dag, strákgutta með 2470 eló stig c.a. á hraðri uppleið. Hann vinnur eiginlega alltaf með hvítt (og ég hef auðvitað svart) og rúllar hann upp hverjum stórmeistaranum á fætur öðrum. Ég sé því ekki fram á sérstaklega náðuga tíma í dag. Þetta er skemmtilegasti strákur, er mér sagt, en af einhverjum ástæðum er hann kallaður "karrýkjúklingurinn". Mér varð á að nefna þetta í gær, og fékk þá strax á mig rasistastimpilinn á Skákhorninu. Mér fannst það nú frekar ódýrt.
En jæja, best að koma sér af stað. Taka inn lýsið, vítamínin og allt það dót, ásamt morgunverkunum. Von er á Hjörra eftir smástund í hinn hefðbundna stúderingatíma. Hörku skákir væntanlegar í dag. Áfram Ísland.
p.s. ég fékk kvörtun yfir, að hafa ekki minnst á Svíann í tvo daga. Ok. bæti úr því. Hann hafði setið undir áhlaupum og var eiginlega hnjaskaður fyrir, en nú var hann eiginlega varla einvígishæfur lengur og þurfti því að kalla til viðeigandi sérfræðing á vegum hótelsins til að festa nokkrar lausar skrúfur. Mr. Gustavsberg, alþjóðlegur meistari með amk einn stórmeistaraáfanga, er því til í slaginn á ný!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.