Miðvikudagur, 11. júlí 2007
Enn einn morguninn í Lúx
Jæja, enn einn morguninn. Klukkan orðin sjö að staðartíma, fimm heima á Frón-kexi. Ég steinlá fljótlega eftir að ég skreið upp á herbergi í gærkvöldi og strákarnir voru farnir. Við komum heim á hótel, þ.e. Carpini, beint eftir skák, borðuðum niðri á hinum frábæra ítalska restauranti og síðan fóru menn upp til að tékka pörunina í næstu umferð.
Ég hafði sagt, að ég fengið örugglega Hannes Hlífar í næstu og sú varð raunin. Þetta er svona, að ef þú vilt ekki fá einhvern andstæðing, sem þú átt möguleika á að fá, færðu hann. Svona hefur þetta verið amk í þremur síðustu umferðum hjá mér. En maður hefur sloppið só far, en Hannes er ekki kallaður Róbót fyrir ekki neitt. Strákarnir heima gáfu honum þetta viðurnefni, því þegar þeir tefldu gegn honum lék hann leikjunum áreynslulaust og nær alltaf með jöfnu tímabili, rétt eins og forritað vélmenni ætti í hlut. Og hann vann að vitaskuld nánast alltaf. Ég lenti í vélmenninu sl. haust í einvígi í Skákþingi Íslands og fór niður í logum, og var ekki mjög sáttur að sjá pörunina í gær. En skákin okkar verður sýnd beint á vefnum, en slóðin þar að lútandi er á www.skak.is og á heimasíðu mótsins, sem einnig er auglýst á sama stað og á forsíðu www.taflfelag.is . Stefnan er, að láta a.m.k. ekki auðmýkja sig gjörsamlega fyrir framan íslenska skáksamfélagið. Grunar mig, að þá muni fylgja vænar athugasemdir á skákhorninu.
Sergey Kasparov hlýtur nú að fara að stofna "I hate Iceland" samtök, sérstaklega eftir að Héðinn væóleitar hann yfir skákborðinu í kvöld. Spái ég, að þessi annars sterki stórmeistari muni fara niður í logum gegn okkar manni. Kannski halda jöfnu, ef hann teflir vel. Ef hann gat ekki unnið okkur Robba með hvítu á hann ekki séns í Héðin með svörtu. Þar fer annað róbót, sem er alveg agalega erfitt að eiga við, sérstaklega á góðum degi.
Robbi fær þokkagyðjuna Fionu, sem á marga vini á Íslandi (og þeim hefur fjölgað á síðustu dögum). Rúnar Berg fær nokkuð sterkan mótherja og Hjörvar fær alþjóðlegan meistara með hvítu. Spái ég að meistarinn sá finni fá svör gegn 1.c4 leik Hjörra. En ætli maður verði ekki sáttur við jafntefli þarna, en auðvitað vill maður að strákurinn vinni.
Jæja, nú hefst undirbúningurinn fyrir skákina gegn Hannesi. Vaknaði um fimm, sinnti morgunverkunum og fór niður í morgunmat, bloggaði aðeins og kíkti á rafpósta. Það góða er, að ég veit vel hvað Hannes teflir að janfanði en gallinn er, að hann veit líka hvað ég tefli. Fátt er svo með öllu gott, að ekki boði nokkuð illt. Og nú hefjast massívar stúderingar (Hannes! ef þú ert að lesa þetta, skaltu hætta núna).....eða kannski ég slái þessu bara upp í kæruleysi og komi frekar úthvíldur til leiks. En ætli ég ákveði ekki fljótlega, hvor leiðin verði fyrir valinu.
En jæja, meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá ferðalagi strákanna í
gær til Lúx City.
Athugasemdir
Gaman að þessu. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig SGB-HHS fer, og HS-SK .
Hrannar Baldursson, 11.7.2007 kl. 06:23
Sæll Snorri, eins og þú veist tefli ég ekki af trúarlegum ástæðum. Trúi því nefnilega, að ég muni tapa í hvert sinn sem ég tefli. Sjaldan hef ég lesið eins skemmtilegar lýsingar frá skákmóti. Það hlýtur fjandakornið að vera pláss fyrir þig sem skákpenna á einhverjum fjölmiðli og einhver seríus dollar í launaumslagið fyrir. Gangi ykkur öllum vel, nema þeim leiðinlega.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.7.2007 kl. 06:38
Enginn leiðinlegur í ísl. liðinu, nema kannski ég!
Snorri Bergz, 11.7.2007 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.