4. umferð í Lúx - gamalt bros tekur sig upp

DSCF0001Jæja, þetta er allt að koma.

Samt var þetta morkinn dagur. Ég sá fram á algjöra þjáningu, því andstæðingur minn er þrælsterkur alþjóðameistari frá Belgíu, Bart Michiels, ungur strákur c.a. 18 ára. Hann er mjög efnilegur og er á hraðri uppleið.

Það versta við hann var, að hann hefur alveg ótrúlega gott vit á skákbyrjunum, einkum með svart. Ergo, hann teflir mínar byrjanir og það nanast nákvæmlega, jafnvel í undirvaríöntum. Nú veit ég hvar lappinn minn, sem var stolið, hefur endað!

Og fátt þykir mér erfiðara en að tefla gegn eigin byrjunum. En þegar á hólminn var komið ákvað ég að verða fyrri til að koma á óvart, ef færi gæfist. Upphafsleikirnir voru 1.d4-d5 2.c4-dxc4! 3.e4. Ég er með hvítt. Þessu hef ég aldrei leikið áður og kann voðalega lítið í þessu. Hann leikur jafnan 3...Rc6, sama og ég, að sjálfsögðu, en hann óttaðist að ég kynni þetta betur en hann (vísast rétt, enda hafði ég undirbúið glaðning handa honum), svo hann svaraði með 3...c5. Úff, þetta kunni ég ekki nógu vel og hafði ekki mátt vera að því að stúdera nóg, því ég þurfti einnig að stúdera 1.d4-e6 2.e4, McCutcheon afbrigðið. Nokkur tími fór reyndar í það. 3...c5 í Mótteknu drottningarbragði var bara einn af mörgum möguleikum.

Ég var því ekki alltof bjartsýnn, þegar á upphafsleikina leið, ekki síst þar sem hann valdi hvassasta afbrigðið. En ég tefldi besta framhaldið og þegar honum urðu á smá ónákvæmni (í stöðu sem var mjög slæm hvort sem var) fór ég all in. Fórnaði manni á hann og réðst á hann. Það er skemmst frá því að segja, að ég fann alltaf bestu leikina, nema í lokin, þegar ég tók þann næstbesta, en þá var staðan hvort sem er gjörunnin. En í stuttu máli, ég held að þetta sé besta skák sem ég hef teflt síðan 1990, þegar ég slátraði Pólverjanum, sem var þá í polska ólympíuliðinu og hann kærði mig fyrir að vera of góðan fyrir elóstigin mín, því ég hefði, að hans sögn, komið með þrusu endurbót á taflmennsku sjálfs Garrýs Kasparov. Ég þurfti því að sýna vegabréf til að sanna hver ég væri.

En a.m.k. besta skák mín held ég síðan þá. Brosið er aftur komið á andlitið. Og það besta var, að ég reiknaði og mat rétt þær leiðir, sem ég hafnaði og hverju ég átti að leika, hefði hann leikið öðru. Ég var ánægðastur með að sjá van Wely þemað Bxc4 þarna á einum stað. Þetta hefði ég aldrei fattað nema af því að Lókurinn (Loek van Wely) hafði leikið þessu í svipaðri stöðu.

Hjörvar fékk aðeins betra, en reyndi of mikið að vinna, og missti þetta niður í jafntefli. En hann sýndi ótrúlega seiglu strákurinn og sveið WGM Wagener 2292 og hafði greinilega gaman af að kreista hana í endataflinu.

Robbi var óheppinn að tapa gegn sterkum andstæðingi, GM held ég. Hann var með mun betra, en lék þessu niður. Agaleg óheppni þetta.

Héðinn gerði held ég jafntefli. Hann gat amk tekið þráskák í stöðu, sem bauð ekki upp á neitt annað.

Hannes vann frekar auðveldlega og Rúnar Berg fékk á sig margskonar fórnir gegn Pésa Biskup, en þræddi bestu leiðina og skilaði sér í mark með heilan vinning.

4.5-1.5 og við vorum að tefla vel uppfyrir okkur á 4 borðum af sex.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Nennirðu að henda skákinni inn hérna á pgn formi? Ég er forvitinn að sjá þessa.

Góða skemmtun í Lux. 

Hrannar Baldursson, 10.7.2007 kl. 07:23

2 Smámynd: Snorri Bergz

Hendi henni inn á eftir hérna á blogginu bara, þú getur svo fært hana yfir (já, eða á Skákhorninu). En ég hef sjaldan verið eins ánægður með nokkra skák.

Snorri Bergz, 10.7.2007 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband