Mánudagur, 9. júlí 2007
Morgunn í Lúx
Jæja morgunn í Lúx. Hér til hliðar er mynd af manninum með Pocket-Fritzinn þessi í gula bolnum. Fritzinn er síðan í vasanum, beint fyrir aftan höfuð drengsins, sem er að tefla við náungann, sem tapaði með Vodafone gambít gegn mér í gærmorgun.
Menn hér eru almennt þreyttir eftir gærdaginn. Það er nógu erfitt að tefla tvær skákir á dag, en hitinn bætti ekki úr skák. Maður sá t.d. að Róbert var gjörsamlega örmagna þarna í gærkvöldi.
Ég vann þennan náunga, sem sigraði IM Fred Berend í 1. umferð. Hann tefldi ágætlega. Hins vegar hef ég greinilega vanmetið stöðuna hjá mér úr byrjuninni. Ég hélt ég væri með stöðulega tapað, en þegar ég skoðaði skákina í Rybku tölvuheilanum kom í ljós, að svo var ekki. Ég kom meira að segja með merkilega nýjung (óvart!), sem Rybka var mjög hrifin af. En frá þeim tíma, þegar ég hélt ég væri með stöðulega tapað, fann ég besta leikinn í stöðunni í 9 leikjum af 10, og næstbesta í hinum, en þar munaði aðeins litlu á mati leikjanna. Og jafnframt kom í ljós, að leikir, sem ég var að gæla við, en taldi of varasama, voru í raun lélegir. Þannig að ég er í raun ánægður, nema hvað ég missti af taktísku trikki síðar í skákinni, sá hann einkum leik síðar, en þá var ég leik á undan miðað við hitt afbrigðið. Þar missti andstæðingur minn af tækifæri til að þvinga fram jafntefli.
Nú myndir frá 3. umferð eru komnar á netið. Þar eést í Hjörvar og Hannes einu sinni, en ekki í hina Íslendingana. Hins vegar eru fjórar eða fimm myndir af Fionu. Greinilegt að karlmaður var að taka myndirnar í gær, eða einhver vinkonan!
Nú, þegar RB var að klára skákina byrjaði að rigna. Við komumst óhultir heim og settust við borð á stéttinni fyrir utan besta pizzeria í "rural Lux", en svo vill til, að sá staður er í kjallara hótelsins okkar og er í eigu sömu aðila. Við vorum semsagt í skjóli undir stóru skyggni.
En skyndilega jókst rigningin og hef ég aldrei séð annað eins úrhelli. Svo fór, að skyggnið fór að gefa eftir og höfðu pollar myndast þar ofan á. Þjónarnir, stundum með hjálp þeirra Grafarvogsfeðga eða Rúnars, hristu úr þessu niðrá stéttina, en þá skvettist jafnan hressilega. Ég fékk smá gusur fyrst og færði mig þá fjær, en Grétar varð verst úti í þessu og var orðinn frekar rakur. Þá meina ég útvortis.
Og nú er hér skítaveður. Kannski ekki beinlínis kalt, heldur vel skýjað og ekki sólarglampi á lofti. Jæja, best að spila aftur Húsið og ég og athuga, hvort það kalli fram sólina á ný. Annars er þetta veður miklu betra til skákiðkunar, því stundum verður svoldið heitt og mollukennt í sal, þar sem yfir hundrað manns sitja við skákiðkun, jafnvel þó loftræstikerfið þar sé með besta móti.
Nú, jæja, mér sýnist mallakúturinn minn hafa jafnað sig eftir hráa nautakjötið fyrsta kvöldið. Ég gat amk borðað morgunmat í morgun og er þetta fyrsta sem ég kem niður (og held niðri) síðan á föstudag, ef undan er skilin súpan á laugardagshádegi og 1-2 jógúrt.
Vonandi verður maður þá orkumeiri í dag, en síðustu daga. Áfram Ísland.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.