Föstudagur, 6. júlí 2007
Morgunn í Lúx
Jæja, fyrsti morguninn í Lúx. Þegar þetta er skrifað er klukkan 7:18 að staðartíma, 5:18 heima á Íslandi.
Jæja, nú vaknar maður vel úthvíldur. Loksins. En ekki skemmtilegur morgunn svosem. Gærkvöldið er frekar erfitt, þar eð leiðinlegasti maður landsins hóf að kíta í mann að nýju, sami maður og helgaði þessa færslu, sem var ein sú erfiðasta, sem ég hef nokkru sinni skrifað hér á bloggið. Hann ætlar greinilega ekki að sjá að sér, en heldur áfram að snapa leiðindi; búa þau til, þar sem engin eru. Þetta tók á mann að venju, enda tek ég svona lagað nærri mér og inn á mig. Það veit hann og fæ ég ekki betur séð, en að hann sé að reyna að trufla mann fyrir mótið. Sjálfur tefldi sá maður eins og bavíani á síðasta skákmóti og vill greinilega að öðrum gangi eins illa og honum sjálfum, því hann á að vita betur en þetta.
En sem betur fer fór hann ekki að kalla mig nýnasista og annað slíkt að þessu sinni. Að kenna mig við stefnu, sem ég gjörsamlega fyrirlít, hlýtur að vera gert í þeim tilgangi einum, að koma af stað leiðindum. Og það tókst. Og síðan kórónaði hann það með því, að túlka vinsamlegar afmæliskveðjur mínar til vinnustaðar hans sem fordóma í garð geðsjúkra. Og þetta var bara byrjunin hjá manni, sem nýlega gerðist svo djarfur, að móðga félaga sinn í ákveðinni skáksveit með dónaskap og fordómum í garð ætternis hans og það rétt fyrir skák. Ég skil ekki hvernig svona er hægt. Fordómar í garð Dana? Ég átta mig ekki á því, hvernig það er hægt. Jæja, ég ætla ekki að láta Grumpy Old Men eyðileggja fyrir mér mótið, eða reyna ekki.
Maður verður bara að sætta sig við, að til er maður, sem hefur með andstyggilegri framkomu sinni orsakað fyrirlitningu mjög margra í frekar "mellow, yellow" hópi fólks. Það er eitt að takast á, en að reyna að láta reka mann, sem á ungabörn, úr vinnu sinni fyrir það eitt, að svara fyrir sig þegar á er ráðist af skapvonsku (jújú, og svara harkalega fyrir sig), og gera það í vinnutímanum. Menn geta ráðist á mig, ég er ýmsu vanur. En ég líð ekki svona framkomu við vin minn og fjölskyldu hans.
Það er semsagt einn maður til í heiminum, sem ég fyrirlít, en þá aðeins þegar hann fer í Mr. Hyde haminn sinn.
En neikvæðar bylgjur gærkvöldsins eru að mestu liðnar. Ég sofnaði eitthvað eftir miðnætti og svaf næstum í einni loti til sjö. Áður hafði ég sofið smástund um kvöldið, og síðan smástund bæði í bílnum og í vélinni. Ferðaþreytan er því að mestu gengin yfir og hausverkurinn svo gott sem farinn.
Veðrið úti er vísast svipað og það, sem von er á heima. Það hefur greinilega rignt eitthvað í nótt og vindurinn hristir trén fyrir utan gluggann. Ég er annars feginn að hafa glugga út í ruslaportið, því Grétar og Hjörvar snúa heint út í aðalgötuna, þar sem umferð er nokkur. Þeir geta því varla sofið við opinn glugga og verða bara að treysta á viftuna. En sem betur fer er ekki eins heitt og maður ætlaði að gæti orðið. En kannski á eftir að hitna, hver veit.
En jæja, fyrsti morguninn er kominn. Þá er maður fyrst kominn á staðinn fyrir alvöru. Framundan er morgunmatur, stúderingar með Hjörvari og síðan eitthvað dútl fram að setningarathöfn. Vísast mun ég reyna að rifja upp eitthvað úr fræðunum.
Síðan kemur í ljós á morgun, hvort maður geti nokkuð lengur í skák, ef þá nokkurn tíma. A.m.k. er ekki mikið sjálfstraust þetta skiptið. Maður verður bara að reyna að byrja vel, spara orkuna og gera sitt besta. Já og forðast umræðuhorn skákmanna, þar sem Dýrið gengur laust.
Athugasemdir
Njóttu þess bara að tefla - fátt er hvorteðer skemmtilegra að gera. Ég skil þig með þessa ferðaþreytu - tók mig rúma viku að ná mér eftir ferðina til USA um daginn. Góða skemmtun!
Hrannar Baldursson, 6.7.2007 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.