Laugardagur, 30. júní 2007
Fögur er Hlíðin
Þessi laugardagsmorgunn er aðeins lognið á undan storminum hjá mér, þetta skiptið. Eftir hádegi í dag tekur alvaran við, búslóðaflutningar með öllu tilheyrandi. Eins og hef ég áður sagt, er maður að flýja af Stór-Grænuhlíðarsvæðinu, enda illa líft þarna eftir að Liverpool-búðin flutti í Suðurver án þess að fram færi grenndarkynning.
Eðlilega er maður ekki hress með að fá svona starfsemi í hverfið og er auðvitað eðlilegast að benda á R-listann í þessu samhengi, sem ekki uggði að sér og gerði engar athugasemdir við staðsetningu þessarar vafasömu og stórhættulegu starfsemi. Í Suðurveri er líka mörg önnur starfsemi. Þar er t.d. sjoppa, sem hefur jafnan verið kölluð Allra dýrust, enda hefur álagning þar jafnan reynst í hærri kantinum, en hefur vonandi lagast upp á síðkastið. Þar er matvöruverslun, kjúklingastaður, Te&kaffi, bakarí og margt fleira.
En að öðru leyti en nándin við Liverpool-veirusmitið er Grænuhlíðin afskaplega góð til búsetu. Maður gat skroppið heim í frímínútunum í MH og þurfti ekki að óttast að missa af strætó á morgnana. Þar í kring er líka öll helsta þjónusta, enda t.d. stutt að fara í Kringluna. Maður á því eftir að kveðja þessa fínu götu með söknuði. FÖGUR ER HLÍÐIN!
En eitt mun ég kveðja með fögnuði. Svefnherbergisglugginn minn snýr út að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Þar var vitaskuld stöðugur hávaði og ótrúleg rykmengun. Maður gat varla sofið við opinn glugga án þess að vakna upp með andfælum og halda að maður hafi sofnað í kolanámu. En þetta stendur nú til bóta með Gísla Marteini og co, en nýr meiri hluti í borginni vill setja þarna mislæg gatnamót og þótt fyrr hefði verið, þó ekki sé nema til að minnka slysahættu þarna. En bílar í lausagangi á gatnamótum munu nú heyra sögunni til og þarmeð þessi skelfilega mengun.
Aulaháttur R-listans var auðvitað algjör og ekki aðeins í þessu máli. Flokkar sem gefa sig út fyrir að vera umhverfisvænir hefðu auðvitað fyrir löngu átt að hafa tekið á þessu máli. Það er nefnilega ekki nóg að setja umhverfismál í stefnuskrána og væla um slíkt opinberlega. Það þarf að gera eitthvað í málunum. En hvers eiga borgarbúar að gjalda, þegar áherslan var á umræðustjórnmál, þ.e. að setja mál í nefndir og tala og tala uns allir verða rauðir í framan og fórnarlömb óstjórnarinnar eru hætt að nenna að tuða. Það er ekki nóg að blaðra, eins og Samræðufylkingin vill einbeita sér að, það þarf að grípa til aðgerða.
En jæja, þá er það kassaburðurinn...Búslóðin fer nú ekki langt með aðferðum Samfó, þá myndi fjölskyldan skipa nefnd og plana allt út í hið óendanlega, blaðra og blaðra um hvernig ætti að flytja búslóðina á nýjan stað, uns ekkert verður úr neinu og lögfræðingar kaupenda og seljenda komast í málið.
En ég kýs athafnir. Bretta upp ermarnar og af stað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.