Þriðjudagur, 29. maí 2007
Sóðaskapur í boði Símans
Síðustu mánuði hefur annar endi Ármúlans orðið fyrir skipulagri sóðaskaparárás. Málavextir voru þeir, að SÍMINN ákvað að ganga lengra en það, að banna reykingar í húsnæði sínu. Nú skyldi banna reykingar á lóðinni allri.
Síðan höfum við, sem störfum í húsi sem standa við æðri enda Ármúlans, þ.e. sem liggur að Grensásvegi, orðið fyrir árás níkótín-fíkla Símans. Hafa þeir leitað yfir götuna og staðið fyrir utan fyrirtæki þar, eða í skotum við hlið þeirra, reykt þar og skilið eftir sig stubbaflóð. Þó hafa þeir reynt sitt besta, t.d. með því að setja dunka þarna, en það breytir því ekki, að þetta er ekki mjög til að auka viðskipti fyrirtækja á götunni gegnt Símanum, allt frá a.m.k. Teppaversluninni Stepp og niður til Ármúla 42, þar sem m.a. er veitingastaðurinn Brautarstöðin. Í því húsi einmitt hef ég skrifstofu.
Þetta angrar mig svosem ekki verulega, því ég rek ekki verslun. En ég hef heyrt af óánægju verslunareigenda við Ármúlann. Og ég áfellist ekki krakkana. Þau þurfa að leita eitthvert, úr því Síminn tekur svona harðvítuga afstöðu. Hvers vegna geta Símamenn, sem eiga svona stórt húsnæði, ekki skaffað þessu fólki horn einhvers staðar, þar sem starfsmennirnir geta svalað fíkn sinni?
Og með því er Síminn að gefa skít í nágranna sína. Spurning hvort reykingamenn ættu ekki að mótmæla þessu með því að svara Símanum í sömu mynt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.