Fimmtudagur, 24. maí 2007
Með kveðju frá Ólínu til Össurar
Ja, nú er hart sótt að Össuri. Æ, hvernig geta menn verið vondir við Össur núna, þegar hann hefur með dyggri aðstoð Steingríms Joð, komið í veg fyrir vinstri stjórn og meðfylgjandi hörmungar? Jú, nú geta menn verið vondir við Össur ef þeir eru vinstri menn og áttu engan þátt í myndun Þingvallastjórnarinnar. Á heimasíðu Ögmundar er að finna lesendabréf frá "Ólínu". Menn hafa e.t.v. lesið þetta áður, en ég vildi samt benda á þetta (með kveðju frá séra Torfa, sem benti á þetta á Skákhorninu). En þar segir m.a.:
Högninn, iðnaðarráðherrann, er meistari fléttunnar, en um hann er hægt að segja það sagt var um annan mann: Hann er mikill plottari. Vandinn er bara sá að plottin ganga aldrei upp. Þótt iðnaðarráðherra hafi fléttað saman ráðherralista þar sem eru tveir klassískir kratar, tveir gamlir alþýðubandlagsmenn og tvær kvennalistakonur, ef notuð er ágæt skilgreining Morgunblaðsins á Samfylkingunni í Reykjavíkurbréfi, þá er líka hægt að skipta ráðherrahópnum í fylgismenn iðnaðarráðherra og fylgismenn formannsins. Þrír fylgja ráðherranum að málum, einn formanninum. Og víst var það ráðherrann sem hafði undirtökin í hryggspennunni um ráðherraefnin. Eftir situr svo flokksformaðurinn með logandi það kjördæmi þar sem Alþýðuflokkurinn gamli var sterkastur og þótt slökkvibílar Samfylkingarinnar dæli nú á bálið í gríð og erg þá er formaðurinn þegar byrjuð að safna glóðum elds að höfði sér. Þetta vissi ráðherrann, þetta er hluti af fléttunni, þetta er hluti af hefndinni sem formaðurinn fyrrverandi þykist nú ná fram. Auðvitað átti hann sér draum um að leiða Samfylkingu í ríkisstjórn sem svilkonan gerði að engu. Örótti högninn gleymir engu. Hann þekkir samferðamenn sína og nýtir sér veikleika þeirra út í hörgul. Var það ekki hann sem gerði brotthvarf flokksformannsins úr embætti borgarstjórans í Reykjavík á sínum tíma að pólitískum farsa vegna ótímabærra yfirlýsinga? Farsa sem að lokum gerði R-lista flokkunum ómögulegt að vinna saman. Þegar grannt er skoðað má færa sterk rök fyrir þeirri skoðun. Það plott gekk ekki upp. Nú er að sjá hvort ráðherrakapallinn, sem iðnaðarráðherra lagði fyrir formann sinn gengur upp. Hvort hann veldur henni ekki örugglega vandræðum og verulegu fylgistapi að fjórum árum liðnum.
Ég hef gaman að stríða Össuri, amk stöku sinnum, en mér er samt vel við kallinn. En það bréfritara greinilega ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.