Fimmtudagur, 3. maí 2007
Beggja blands í Stóra Jónínumálinu
Þetta er ágætis svar hjá Jónínu, en ég get samt ekki að því gert, að mér finnst einhver skítalykt af málinu. Ég hef ekkert á móti umræddri stúlku, sem vafalaust er ágæt, og óska ég henni velfarnaðar hér, en það er eitthvað spúkí við þetta mál.
Forðum skrifaði ég M.A. ritgerð, sem fjallaði um útlendinga á Íslandi. Þar fór maður m.a. yfir eftirlit með útlendingum, lög um landvistarleyfi og atvinnuréttindi, veitingu ríkisborgararéttar, osfrv.
Þar voru mörg svona mál, svipuð eða náskyld, þar sem ráðandi menn fengu sérmeðferð. Og þeir voru jafnan framsóknarmenn. Til að mynda fékk kunnur sjálfstæðismaður, læknir í Eyjum, ekki að hafa norska þjónustustúlku á heimili sínu (en hún ætlaði að læra íslensku), því hér væri nóg framboð af þjónustustúlkum. Virðuleg frú, af erlendum uppruna, í Reykjavík fékk sama svar: Hér er nægt framboð af innlendum þjónustustúlkum. En lögreglustjórinn í Reykjavík, og síðar dómari, Jónatan Hallvarðsson, fékk um svipað leyti leyfi til að halda hér sænska þjónustustúlku, Frk. Jytterström, ef ég man rétt, því það væri skortur á þjónustufólki í landinu. Ef ég man rétt, var hann framsóknarmaður. Og það skondnasta var, að hann var þá yfirmaður Útlendingaeftirlitsins!!
Varðandi ríkisborgararétt fengu sumir hann frekar ódýrt, t.d. Þjóðverjar og aðrir af arísku kyni, meðan t.d. fólk af gyðingaættum eða öðrum "framandi kynstofnum", fengu ekki, þótt öll skilyrði nema kynstofnavottorð væru uppfyllt. Þeir fengu þó slík réttindi ef þeir þekktu framsóknarmenn eða áhrifamikla krata, t.d. nokkrir færustu hljóðfæraleikarar landsins.
Og varðandi landvistarleyfi til útlendinga í kreppunni rak ASÍ harða stefnu gegn útlendingum, nema þeim sem voru t.d. þýskir sósíaldemókratar á flótta undan Hitler. Þeir fengu hér jafnan leyfi án vandkvæða. En t.d. flóttamenn af gyðingaættum, sem ekki þekktu áhrifamikla krata, eða þekktu menn sem þekktu krata eða framsóknarmenn, urðu að fara úr landi, jafnvel aftur til Þýskalands.
Og ríkisborgararétturinn! Ef menn taka saman útlendinga, sem hér fengu ríkisborgararétt frá fullveldinu 1918 og fram til lýðveldis 1944, voru það eingöngu "aríar", með held ég 1 undantekningu, eða tveimur í mesta lagi.
En nú hefur tíðarandinn breyst og kynstofnavottorðið dugar ekki lengur. En enn virðist gilda, að þekkja menn sem þekkja menn. Það dugði Fischer, Duranona o.fl. Og þá skemmdi ekki fyrir, að vera "sérstakur hæfileikamaður", eins og þeir ofangreindu, eða "Íslandsvinur",en það síðastnefnda dugði þó ekki áður þegar fólk af "óæðri" kynstofnum áttu í hlut.
En mín skoðun í þessu er þó í aðalatriðum óbreytt: ég hef ekki séð neinar ástæður fyrir því, að þessi stúlka, sem örugglega á eftir að reynast nýtur þjóðfélagsþegn hér, fái ríkisborgararétt á silfurfati, meðan fjöldi annarra þarf að bíða í mörg ár, jafnvel gift íslenskum borgara, en umrædd stúlka ku aðeins vera kærasta sonar Jónínu. Lagalega séð ætti hún þá að standa verr að vígi, en af "einhverjum ástæðum" fékk hún sérstaka fyrirgreiðslu.
Ég neita að trúa því að þetta hafi allt verið tilviljun, því fólk, með lengri búsetu, hjúskap og raunverulegar ástæður fyrir því að vilja ekki snúa aftur til heimalands síns, þ.e. þaðan sem það kom, þarf að bíða hér árum saman og dvelja hér jafnvel í ótta um, að verða vísað úr landi.
Um ríkisborgararétt og Kastljósið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Held að Jónína væri mun betur sett ef að hún viðurkendi mistök sýn og segði af sér strax.
Kristberg Snjólfsson, 3.5.2007 kl. 10:10
Ég sé svo sem ekkert mikið að því að hún fái ríkisborgararétt, en vil ekki að ráðamenn ljúgi að þjóðinni
Þú ert að gefa í skyn að fyrirgreiðsla hafi átt sér stað. Ef svo var eru ansi margir búnir að ljúga ansi mikið. Mér finnst að lygararnir ættu að sjá sóma sinn í að viðurkenna það og segja af sér.
Einar Jón, 3.5.2007 kl. 10:20
Ég er ekki beinlínis að gefa í skyn, að fyrirgreiðsla hafi átt sér stað, heldur að segja, að ég trúi ekki að öll gögn séu komin upp á borðið. Ég trúi ekki að allsherjarnefnd veiti stúlku, sem hefur afar lítið sér til málsbóta, í hlutfalli við suma aðra t.d., fái ríkisborgararétt eftir aðeins 15 mánaða dvöl hér.
Snorri Bergz, 3.5.2007 kl. 10:57
Ég er ekki beinlínis að gefa í skyn, að fyrirgreiðsla hafi átt sér stað
Ó! Þá hef ég misskilið setninguna:
Lagalega séð ætti hún þá að standa verr að vígi, en af "einhverjum ástæðum" fékk hún sérstaka fyrirgreiðslu.
Ég biðst forláts. Þetta kemur vonandi ekki fyrir aftur...
Einar Jón, 3.5.2007 kl. 11:29
ok, orðum þetta betur og bætum við: "að sérstakri beiðni Jónínu".
Snorri Bergz, 3.5.2007 kl. 11:36
það eru virkilega glötuð lög í gildi fyrir útlendinga á Íslandi en Jónína og hin skítseiðin eru það ómerkileg að þau kusu með þessum lögum en telja þau svo ekki fyrir sig og sína. Vonandi sér fólk sér fært að afneita þessum glæponum þegar kosið verður. Síðan er alltaf jafn ömurlegt að lesa um fortíð Íslands í þessum efnum - en takk samt fyrir upplýsingarnar.
halkatla, 3.5.2007 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.