Framsókn í framsókn? Jónínumálið og fleira

valgerdurJæja, Framsókn að sækja í sig veðrið á landsvísu, að því að virðist skv. nýjustu skoðanakönnunum. Flestir, sem ég hef rætt við, áttu nú svosem von á því, enda er það einn af föstum leikatriðum fyrir hverjar kosningr.

Spurningin verður nú, hvaða áhrif mál Jónínu Bjartmarz hafi á fylgi Framsóknar. Persónulega held ég, að það verði lítil eftirsjá af henni af þingi. Ég sé hreinlega ekki, að hún eigi eitthvað sérstaklega mikið erindi á þing. Hún gekk einu sinni framaf mér með orðum, sem ég vil kalla dónaskap, en þar fyrir utan hefur hún þó heilt yfir litið ekki verið í neinum vandræðum, þ.e. hefur ekki lent í miklu pólítísku veseni -- fyrr en nú.

Ég skrifaði M.A. ritgerð um útlendinga í íslensku samfélagi og ræddi þar m.a. innflutning þeirra, lög um eftirlit með útlendingum og síðan veitingu ríkisborgararéttar. Í þá daga, fram til 1945, hlutu nær eingöngu útlendingar af norrænu ætterni íslenskt ríkisfang, enda var slíkt í samræmi við stefnu Íslendinga í útlendingamálum. Þetta breyttist síðan smám saman, eins og menn vita. En ég verð að segja, að þó ég hafi samúð með stúlkunni, sem kemur frá landi þar sem eymd og volæði er með því versta sem gerist í heiminum.

Ég skil líka, að hún hafi viljað vera hér áfram. En hvað um alla þá, sem hafa orðið að bíða í fjölda ára eftir að hljóta hér ríkisfang? Og ég hef enn ekki séð neinar alvöru röksemdir fyrir því, af hverju þessi stúlka ætti að hljóta hér ríkisfang með undanþágu frá hefðbundnum kröfum um áralanga búsetu.

gudniEn Helgi Seljan fær kannski styttu af sér við Hriflu á komandi árum, því allar líkur eru á að hann hafi vakið upp samúð einhverra óákveðinna með Framsóknarmaddömunni. Ég er eiginlega viss um, að framkoma hans í garð Jónínu í viðtalinu fræga í Kastljósi muni gera það að verkum, að Framsókn fer upp í 12-14%, sem má telja frækinn varnarsigur. Og Jónína gæti jafnvel komist inn!

Áður en ég sofnaði, fyrir tæpum fjórum tímum síðan, rann Fréttablaðið inn um lúguna hjá mér. Ég las blaðið ekki nákvæmlega fyrir svefninn, en sá þó, að ný skoðanakönnun er komin fram, enn ein könnunin. Og þar eru kratarnir í sókn, en Vinstri gjammarar (sbr. Jón Bjarnason í kjördæmaþættinum) eru á niðurleið. Sjálfstæðisflokkurinn helst í um 40%, og Frjálslyndir leka inn með þrjá þingmenn, engan þó kjördæmakjörinn, ef ég las þetta rétt, hálf sofandi um miðja nótt.

En ríkisstjórnin virðist ætla að halda völdum, ef svo fari, að flokkarnir kæri sig um að starfa saman áfram, sbr. t.d. yfirlýsingar Guðna Ágústssonar varaformanns þess efnis, að flokkurinn verði ekki í stjórn fái hann ekki amk 17% fylgi.

althingiEn eins og menn hafa verið að segja undanfarið, bæði innan stjórnarflokkanna og sumir utan þeirra, að hér verður kosið um ríkisstjórn, fyrst og fremst. Kosningarnar snúast um, að forða því að hér komi upp vinstri stjórn,eins og m.a. Hrafn Jökulsson hefur verið að skrifa um, og margir aðrir.

Kosningarnar 12. maí snúast einmitt um þetta: að forða þjóðinni frá vinstri stjórn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband