Reykjavík International

t-980296338Jæja, mótið heldur áfram. Nú eru fimm umferðir búnar.

Ég tapaði illa í þriðju umferð gegn indverskum alþjóðameistara. Fékk allt sem ég vildi úr byrjuninni og var með amk jafnt tafl, þegar ég ákvað að fara "all in" á kappann, en endaði auðvitað með því að tapa sannfærandi í nokkrum leikjum. Sævar Bjarnason hefndi síðan fyrir mig í 4. umf. með því að slátra Indverjanum í Kóngsbragði, sem við tveir teflum held ég einir af núverandi ísl. skákmönnum. Ég hef þó minnkað þetta verulega hin síðari misseri.  

Unglingarnir komu hér á óvart. Ingvar Ásbjörnsson og Sverrir Þorgeirsson eru að standa sig afar vel. Hjörvar er c.a. á pari, en hefur verið óheppinn, bæði í skákunum og með andstæðinga.

Í fjórðu umferð fékk ég eina mestu jafnteflisvél landsins, Tómas Björnsson. Þar er löng forsaga, en við erum báðir af 1969 skákkynslóðinni, sem var á sínum tíma öflugust á Norðurlöndunum. Við unnum þetta eiginlega allt (stundum var 1968: Davíð Ólafsson með, þe. annað hvert ár), en t.d. vorum við Tómas báðir í sigurliðum Hvassaleitisskóla á NM. Við fórum oft út saman, tveir eða með fleirum, og í liðakeppnum vorum við gjarnan herbergisfélagar. Jafnframt var ég lengi vel með annan fótinn á heimili hans í Brekkugerðinu, þar sem við stúderuðum saman löngum stundum.

En leiðir skildu, þegar fullorðinsárin komu upp og hef voðalega lítið hitt kappann frá því um 1990, rétt rekist á hann einstaka sinnum. Síðast þegar við mættumst, í Friðriksmótinu í hraðskák í des. sl., sveið ég hann með svörtu mönnunum, þar áður grísaði ég á jafntefli eftirað hafa leikið niður unninni stöðu, þar áður sömdum við stutt. En svona er lífið og þetta var bara hraðskák.

Ég las Tómas rétt og valdi bestu leiðina gegn jafnteflisafbrigði Tómasar sem tefldi eins og Bolton, pakkaði í vörn og batt traust sitt við, að ég myndi sprengja mig. Það er mjög erfitt að vinna Tómas, sem m.a.  lét Hannes Hlífar hafa fyrir sigrinum á síðasta Íslandsmóti í einvígi, og hafði slegið út Stefán Kristjánsson umferðina á undan. Tómas náði að verjast og var jafntefli samið þegar hvorugur komst neitt áfram.

Nú var ég nánast örmagna af þreytu, eftir langar skáktarnir sem við, sem erum áhugamenn og höfum vinnu að sinna, eigum erfitt með stundum. Nú voru komnar 13 skákir á c.a. 10 dögum, flestar erfiðar. Og nógu var maður þreyttur þegar mótið byrjaði.

Þarna gerðist það líka, að ég var of seinn að fara í gufuna fyrir skák, en það hefur bjargað því sem bjargað varð í fyrri skákum, en maður slappar af og kemur yfirvegaður í skákina, hafi maður farið í gufuna rétt fyrir skák. Þetta trikk hef ég notað um hríð, en reyndi áður að fara í sund og heita pottinn. En þar sem Hreyfing, þar sem ég er skráður með gullkortið mitt, er við hliðina á skákhöllinni, liggur þetta beinast við.

pict0626Margar skemmtilegar skákir áttu sér stað í 4. umferð, ma. slátraði Ingvar Ásbjörnsson lettneska stórmeistaranum Meijers. Við Róbert Harðarson hittum hann í Prag mótinu í janúar, þar sem Meijers vann Robba í "svíðingi", þ.e. hann hjakkaði á jafnteflisstöðu uns Robbi lék ónákvæmt og sigraði. Ég hitti hann síðan á hótelinu rétt á eftir og þá sagðist hann að sjálfsögðu hafa unnið. Eins og það væri svo sjálfsagt. Hann sagði síðan fyrir mót þetta, að gott væri að tefla á Íslandi, því skákmenn þar voru "overrated", þ.e. ekki eins góðir og stigin segja til um. Það var nú sett oní hann strax í 1. umferð, þegar Ingvar Þór Jóhannesson át hann hráan og án fyrirhafnar, síðan auðmýkti Frakkinn Lamoureux (sem ég auðmýkti í Kaupþingsmótinu) hann og voru endalok skákarinnar með því nastíara sem ég man eftir að hafa séð. Og síðan rúllaði Ingvar Ásbjörnsson honum með svart og það nánast áreynslulaust.

Ingvar er mjög seigur skákmaður, en hann mætti tefla mikið meira. Hann er miklu betri en þessi stig hans segja til um, en þarfnast reynslu, sem aðeins kemur frá því að tefla. Sverrir Þorgeirsson úr Haukum er líka að gera góða hluti og hefur náð góðum úrslitum gegn sterkum mönnum. Hann þarf líka að tefla meira og á sterkari mótum. Báðir eru þessir strákar mikil efni.

imagesEn jæja, 4. umferðin var ekki aðeins dans á rósum. Mér þótti sárt að sjá Ingvar Þór tapa, en slysin gerast stundum. Síðan voru fleiri að fara illa að ráði sínu. ´Héðinn tapaði gegn "vélinni", Miezis, en ég hélt um tíma að hann væri að taka Lettann. Héðinn er einn hæfileikaríkasti skákmaður sem Íslendingar hafa átt, en löng fjarvera frá skákinni (c.a. 10 ár) hefur dregið úr honum. Hann varð Íslandsmeistari 1990 á Höfn,enn ungur að árum. Ég man enn þegar Margeir skammaði mig fyrir að hafa leikið niður ágætri stöðu gegn Héðni í næst síðustu umferð og þar með nánast tryggt honum sigurinn. En þetta var í gömlu dagana.  Báðir hættum við að tefla skömmu síðar.

 

pict0309En jæja. Síðan kom 5. umferð. Ég tefldi gegn einum sterkasta skákmanni í heimi, en þá meina ég kraftalega séð. Þar var á ferðinni enginn annar en fyrrum lífvörður Margeirs Péturssonar MP, einn af ljúfari og skemmtilegri mönnum skákarinnar, drengur góður en rammur að afli. Rúnar Berg heitir hann. Við vorum báðir í hópnum sem fór á Aeroflot open í Moskvu 2004. Þar hélt hann okkur í hláturskrampa lengi vel með skemmtilegum tilsvörum og hnittni. En annars okkar varð að lúta í gras. Ég fékk yfirburðastöðu, eiginlega unna stöðu, eftir upphafleiki miðtaflsins, enda e.t.v. eikkað betur að mér í þeirri byrjun, sem upp kom. En síðan tók hann að sprikla og ég varð kærulaus og fékk á mig þennan rosalega riddarafórnarleik. Ég hélt ég væri að tapa, og var þar að auki að falla á tíma, en náði að bjarga mér út og missti hann af öruggu jafntefli. Hann lék síðan afleik og bauð jafntefli um leið, en ég hafnaði, og fékk vinningsstöðu, sem ég lék síðan aftur niður í tímahrakinu, þegar ég hafði hrók, biskup og peð gegn hrók, en Rúnar hafði tekist að koma mér í þráskáknet. Hann fann síðan ekki besta leikinn og lék skákinni niður um leið og hann féll. Mér þótti þetta leitt, en svona er skákin.  En Rúnar "Morphy" Berg getur samt vel við unað, að hafa náð að bjarga sér tvisvar, þó auðvitað sé erfitt að tapa.

Að öðru: Héðinn vann indversku skákkonuna frekar auðveldlega. Nú krefst ég sigurs í mótinu og áfanga að stórmeistaratitli. KOminn tími til að Héðinn sýni hvað hann getur í raun. Og Jón Viktor, aka Uglan, Gunnarsson vann Kveinys með svörtu. Það er mikið afrek, því Litháinn tapar næstum aldrei með hvítu. Báðir eiga þeir góða möguleika á áfanga að stórmeistaratitli, og þó sérstaklega Héðinn.

Og Benni vann! Merkilegt! Fórnarlambið var Hrannar don de la Breiðholt.

hunninnAð öðrum skákum; Heimskautahúnninn ógurlegi, Björn "Knútur litli" Þorfinnsson vann Ingvar Ásbjörnsson, Hjörvar Steinn vann P'olverjann, og Sverrir Þorgeirsson gerði jafntefli við Ingvar Þór í furðulegri skák. Félagi Róbert lék sig í mát, eftir að hafa haft nánast unna stöðu frá byrjuninni. Maður er nánast miður sín, þegar vinum manns gengur illa. En Robbi hlýtur að rífa sig upp. Sigurbjörn Björnsson, skákmeistari Reykjavíkur, náði ekki, frekar en ég, að brjóta niður varnir Tómasar Björnssonar og mætir mér í dag. Sigurbjörn er einn af skemmtilegri skákmönnum landsins, baráttuglaður og drengur afar góður. Ég held að hann hljóti að teljast heiðarlegasti skákmaður landsins og þótt víðar væri leitað. Hann hefur líka afar gott vit á pólítík og mörgu öðru.

Ég vil rifja upp, ur því talið best að Sigurbirni, atvik í úrslitakeppni SKákþings Íslands fyrir nokkrum árum, þegar ég fékk hrikalegan hausverk (var að tefla veikur í mótinu) og var að fára úr límingunum, og gat ekkert hugsað. Lék ég af mér og stóð upp og reyndi að jafna mig. Sigurbjörn, sem hafði svart, var þá kominn með betra tafl, en sá hvernig mér leið og bauð jafntefli. Það hefðu pandafáir gert. Og ég sem hefði sennilega gefið eftir næsta leik hans. Þessum drengsskap Sigurbjörns mun ég aldrei gleyma.

En við Sigurbjörn teflum saman í dag, í annað skiptið á örfáum dögum. Fyrri skák okkar lauk með jafntefli. Eg hef aftur hvítt og mun vitaskuld reyna að vinna kappann, ekki síst til að jafna skorið eftir að hann sigraði mig glæsilega í meistaramóti Hellis í febrúar, en það er langt síðan mér hefur verið slátrað jafn illilega og þá.

En jæja, margar skemmtilegar skákir í dag og skora ég á þá sem þetta lesa að kíkja nú í Faxafen 12, húsnæði Taflfélags Reykjavíkur, og fylgjast með taflinu. Umferðin byrjar kl. 17.00.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Stórskemmtileg grein hjá þér. Gaman að lesa þetta.

Hrannar Baldursson, 16.4.2007 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband