Sunnudagur, 25. mars 2007
Frjálslyndir að falla af þingi?
Jæja, enn ein skoðanakönnunin. Að þessu er það b-týpu könnun Fréttablaðsins.
Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa stöðugt fylgi upp á 36-38%, mínus-plús 2%
Vinstri grænir eru á niðurleið, og fá nú 23,3%, sem vitaskuld ætti að vera ásættanlegt, ef tekið er mið af fylginu 2003. Hugsanlega hefur fylgi Íslandshreyfingar Ómars og Margrétar tekið fylgi sitt þaðan, eins og spáð var í samræmi við nýlega skoðanakönnun, þar sem allt að fjórðungur kjósenda VG töldu sig tilbúna að styðja Íslandshreyfinguna. Líklegt er, að VG tapi enn frekar fylgi til Ómars & co þegar framboðslistar hreyfingarinnar verða kynntir, en þar munu ýmis þekkt nöfn koma fram.
Samfylkingin má vel við una með 21%, sem er svona c.a. það sem maður á von á að flokkurinn fái í kosningunum, úr því sem komið er. Einn kratavinur minn sagði, að þetta sé c.a. fastafylgi flokksins og greinilega nái flokkurinn ekki að höfða til annarra.
Framsóknarmenn virðast einnig vera á áætluðu kosningafylgi eða um 10%. Þeir geta varla búist við meiru úr því sem komið er. Gætu kannski hækkað sig í 12%, en það sem er frábrugðið núna og 2003 er, að Jón Sigurðsson hefur ekki karisma til að draga fylgi til flokksins. Auðlindamálið virðist einnig vera til að fæla menn frá, en skv. því sem maður heyrði í kaffinu í morgun, þar sem kallarnir voru að tala saman um stjórnmál, er Framsóknarmaðurinn "búinn að vera...formaðurinn fráhrindandi og enginn veit í raun fyrir hvað flokkurinn stendur".
Íslandshreyfing Ómars og Margrétar fær hér 5%. Hún gæti hækkað sig og gerir það vísast, þegar framboðslistar verða kynntir. Grunar mig jafnvel, að flokkurinn fái allt að 10% fylgi og taki það að stærstum hluta frá VG. Ég skal viðurkenna, að ég get vel sætt mig við að fá Bubba á þing! Það gæti orðið skemmtilegt.
Frjálslyndi flokkurinn er á sömu leið og Þriðja ríkið var 1944: Að hruni komið! (OK, ég er að horfa með öðru auganu á Battlefield-þátt um stríðið í Normandí!!).Jæja, ég spái og vona, að Frjálslyndir falli af þingi.
En jæja, kominn tími á kosningaspá!
- Sjálfstæðisflokkurinn 36%
- Samfó 21%
- VG 18%
- Íslandshreyfingin 11%
- Framsókn 10%
- Frjálslyndir 4%
Þetta gæti orðið skemmtilegt kosningavor!
Íslandshreyfingin með 5% fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.