Miðvikudagur, 21. mars 2007
Handtekinn í stríðinu gegn hryðjuverkum: 5. hluti
Það var komið fram á kvöld og flugvélin á leiðinni í loftið þegar ég var loksins kallaður aftur fram í herbergi til yfirheyrslu. Hugarástand mitt hafði breyst mjög skyndilega og var ekki lengur óttasleginn vegna hótana FBI-mannsins og kauða hans. Og þar fyrir utan var mér ekki lengur illt í vinstri öxlinni, eftir meðferð flugvallarlöggunnar.
Eg vissi það ekki þá, en Friðrik Jónsson sendiráðsritari hafði hringt heim til foreldra minna og látið þá vita um, hvað gerst hafði. Móðir mín, sem er kjarnorkukona eins og ættmæður hennar, hafði ekki tekið þeim upplýsingum með stóískri ró, heldur farið í herbúðir Ólafar ríku á Skarði, formóður sinnar. Nú þurfti að safna liði. Hún hafði gert sér lítið fyrir og haft samband við einn ráðherrann. Þetta hefði hvergi verið hægt nema á Íslandi og e.t.v. í öðrum friðsömum smáríkjum. Skilst mér svo, að fleiri ráðherra hafi í kjölfarið þurft að fara á fætur í kjölfarið, þó ég hafi ekki öruggar heimildir fyrir því.
Ég veit ekki hvort þetta liðsinni hafi komið nógu snemma, en þegar á hólminn er komið standa Íslendingar saman.Ég held reyndar að Friðrik Jónsson hafi í aðalatriðum barist í þessu máli fyrir eigin vélarafli. Ég tel þó líklegt að hann hafi haft samband við sendiherrann, sem hefur vísast munað hver ég var. Og síðan hafði ég jafnframt leitað liðsinnis á hæstu hæðum (sjá 4. hluta). Mál mín voru í góðum höndum.
Eitthvað furðulegt hafði gerst síðan ég var í yfirheyrslu í fyrra skiptið. Það var ekki nóg með, að hugarástand mitt hefði breyst, þar sem ég skipti út ótta fyrir frið, angist fyrir hugarró. FBI-maðurinn var nú gjörbreyttur líka. Hann hafði áður verið kurteis en ógnandi. Hann hafði haft einhverjar hugmyndir um meinta sek mína, en nú skyndilega var hann með það á hreinu, að þetta hefðu allt verið ein stór og hræðileg mistök og varð hinn ljúfasti -- fór jafnvel að tala við mig um fjölskyldu sína.
Hann sagði þó, að engu breytti í hvaða samhengi ég hefði sagt einhver orð í flugafgreiðslunni, bara það að hafa nefnt hið hræðilega orð, "sprengja", hefði ég verið rættmætt target fyrir öryggisyfirvöld. Engu skipti í raun þótt ég hefði ekki verið að hóta neinu og að þetta hefði í raun verið stormur í vatnsglasi.
Ég veit ekki alveg hvort sú niðurstaða, sem hann bauð mér, hafi verið samin í samráði við Friðrik, en niðurstaðan var, að ég fengi að fara frjáls ferða minna, eftir að hafa skrifað undir skýrsluna. Ég var meira en til í það.
Ég fékk nú að fara aftur í skóna og taka saman föggur mínar. Kanarnir höfðu reyndar verið eitthvað hranalegir til tölvuna mína, og rifið tölvutöskuna í sundur, gramsaði í farangri mínum og gert ýmsan óskunda. En mér var sama. Ég gæti keypt nýja tölvutösku heima. Leifarnar af hinni fyrri yrðu að duga mér heim.Ég hafði verið í haldi bandarískra yfirvalda í hátt í fjóra tíma. Nú leið að lokum. Ég þurfti aðeins að skrifa undir skýrsluna. Ég las hana ekki einu sinni. En FBI-maðurinn sagði mér, að þar kæmi fram, að ég hefði gerst sekur um dómgreindarbrest með því að hafa alvarleg mál í flimtingum.En í viðtalinu við Moggann sagði Friðrik sendiráðsritari svo frá:
Segir hann viðkomandi hafa verið fullan iðrunar á því að hafa misst þetta út úr sér og hafi það eflaust hjálpað til við lausn málsins. "Þegar menn gera eitthvað svona getur það annaðhvort orðið fylkisglæpur eða alríkisglæpur og FBI-maðurinn og kapteinninn á staðnum gátu ekki ákveðið sig hvor þeirra vildi gefa út ákæru á hann," segir Friðrik og bætir því við að eftir viðræður milli aðila og afsökunarbeiðni hafi þeir komist að þeirri niðurstöðu að best væri að láta málið niður falla.
Af þessu sýnist mér fyrst og fremst, að Friðrik hafi trúað skýringum Bandaríkjamanna á því, hvers vegna ég var handtekinn og lýsingum þeirra á, hverju ég átti að hafa sagt. En rétt er, að þegar FBI maðurinn spurði mig hvort ég iðrist þess ekki að hafa "misst þetta út úr mér", þá kom auðvitað ekkert annað til greina en að segja "já". Ég var enn ekki viss um, hvers ég hefði átt að iðrast. Glæpur minn var að hafa lesið og misskilið Washington Post, og í sakleysi mínu spurt starfsmann Flugleiða, hvort gegnumlýsing á skóm væri þegar hafin. Þetta var þessi mikla sök. En ég varð auðvitað að spila með. Bandaríkjamenn gátu ekki verið sekir um neitt óeðlilegt í þessu máli. Þeir voru í stríðið við terrorista og urðu að viðhalda þeirri ímynd, að vera "góði gæinn".En Friðrik bætti við:
"Ég held að þeir séu í eilitlum vandræðum með hvernig þeir eiga að meðhöndla útlendinga í þessu og það var alveg ljóst að maðurinn var engin ógn. Hann var fyrst og fremst sekur um skelfilegt dómgreindarleysi og lélegan húmor og það er spurning hvort menn vilji endilega setja menn í fangelsi fyrir slíkt."
Eins og Pétur Gunnarsson, hinn huxandi, benti á einhvers staðar í commentakerfinu, er ljóst að þetta með lélegan húmor er alls ekki svo vitlaust! Hann orðaði þetta þó aðeins öðruvísi. Auðvitað er ég sekur um lélegan húmor, það geta lesendur þessarar bloggsiðu vitnað um. En slíkt kom þessu máli ekkert við. Ég hafði ekki reynt að vera fyndinn, hafði heldur ekki áttað mig á, að ég væri að segja brandara.
Ég hafði reyndar áður lent í vandræðum í USA fyrir að vera með snorríska kímnigáfu. Þegar ég var gestafræðimaður við Helfararsafnið í Washington, sem er alríkisstofnun, hafði Clinton-Lewinski málið verið í hámælum. Ég átti þá erfitt með að halda aftur af mér. Eitt sinn hafði ég gleymt að taka með mér kaffirjóma á skrifstofuna og því var instant-kaffið þar algjörlega ódrekkandi óþverri. Ég missti því út úr mér í eldhúsinu:
"This coffee is like a cigar. Well, it´s better than nothing, but not as good as the real thing."
Fyrir þessa athugasemd hafði ég verið kallaður á teppið hjá yfirmanni deildarinnar!
Ég slapp þó næsta skiptið, þegar virtir fræðimenn voru að ræða um ýmsar ákærur aðrar gegn Clinton, s.s. frá einhverjum konum sem hann hafði unnið með. Forseti USA væri því í fjárhagsvandræðum vegna lögfræðikostnaðar og yrði að safna fé. En hvernig? Jú, þá hafði ég svarað án þess að hugsa: "Auction the cigar" og þegar menn slóð hljóða, hafði ég bent út um gluggann á obelixinn sem þar stóð, minnismerkið um Washington ef ég man rétt, og sagt: Ja, eða selt aðgang að minnismerkinu sínu. (Mér var síðar tjáð, að einn starfsmannanna hefði sett þennan brandara á netið og að Jay Leno hafi stolið honum þaðan...sel það ekki dýrara en ég keypti.)Þetta er snorrískur húmor. Ekki þetta bull sem flugvallarstarfsmaðurinn var að halda fram.
Ég var því ekki sekur um lélegan húmor, heldur húmorsleysi. Hefði ég viljað gantast með sprengjur, hefði ég frekar sagt t.d.:
"Well, I just got back from the toilet. I reckon you better call in the bomb squad".
Ég hefði reyndar átt að hafa í huga, þegar ég talaði við þennan bandaríska starfsmann Flugleiða, að maður má ekki gera of miklar kröfur til hinna óbreyttu Kana, þeirra sem ekki eru nýlega fluttir til landsins eða börn þeirra. Það var dómgreindarbrestur, ég skal fúslega viðurkenna það. Og auðvitað átti ég að snarhalda kjafti og láta eins og ég hefði ekki lesið neitt merkilegt meðan á dvöl minni stóð.
En ég skrifaði athugasemdalaust undir skýrsluna, þótt þar stæði ýmislegt sem ekki væri rétt. Ég var því að fremja skjalafals, var að játa á mig eitthvað, sem ég hvorki gerði né sagði. En hvað gerir maður ekki til að losna úr bandaríska terrordjeilinu?
Uppreisnarmenn í Írak sagðir hafa beitt börnum í sjálfsvígsárás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það var gaman að lesa þetta. Þú ert hreinskilinn og ég trúði þér alveg frá byrjun. Hinn snorríski húmor lætur ekki að sér hlæja.
Ákvörðun þín um að stíga ekki aftur fæti á BNA-grund er óþörf. Þú skrifaðir líklegast undir það, þegar þú settir bókstafi þína undir "játninguna" sem þú gafst FBI. Þú ert sem sagt ekki lengur neinn aufúsugestur í BNA. Þú er "Category 3 suspect".
En nú vona ég bara að þú verðir ekki að einhvers konar píslavætti hjá vinstri grænum; maðurinn sem vondu ameríkanarnir handtóku fyrir að segja "bomb".
Ég vona að þú komist svo yfir þetta og fyrirgefir BNA mönnum greindarleysið.
P.S. væntanlega eru íslensk yfirvöld búin að fá möppu um þig frá BNA, þar sem þau eru beðin um að fygjast með þér. Ég bið að heilsa íslenskum stjórnvöldum, ef þau lesa þetta. Ég þori ekki að hringja í þig. Þú veist hve stóryrtur ég er stundum.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.3.2007 kl. 14:07
Þakka þér aftur fyrir þessa sögu, Snorri, hún er mjög athyglisverð og skráð af einlægni og hreinskilni. Varðandi húmorinn spurði ég þig bara álits á þeirri einkunn utanríkisþjónustunnar. Mér finnst 4. hluti sögunnar standa upp úr og spái því að það sem þar segir frá muni fylgja þér lengst - mun lengur en minningin um alla hræddu Kanana.
Pétur Gunnarsson, 21.3.2007 kl. 17:32
Sælir Pétur. Já, ég var alveg sammála þeirri einkunnagjöf þó forsendurnar hafi verið rangar. Hvað fannst þér annars um vindlahúmorinn?
Snorri Bergz, 21.3.2007 kl. 19:01
Mér fannst það fyndið og held að kanarnir hafi bara verið hræddir um að þetta væri ekki nægilega pólitískt kórrétt til að það mætti hlæga að því. Ég finn að svipaður ótti læðist stundum að mér, mér finnst t.d. Coke Zero gott en þori varla að kaupa það af ótta við að reiðar konur líti mig illu auga þar sem ég geng um bæinn með flöskuna.
Pétur Gunnarsson, 21.3.2007 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.