Föstudagspistill

Jæja, enn ein vikan að líða í gleymskunnar haf. Og að venju hefur ýmislegt verið að gerast.

steingrimurPólítísk umræða vikunnar mótaðist af tvennu, aðallega. Sl. helgi héldu Vinstri grænar landsfund sinn og á meðan á honum stóð, kom ofurfemínistinn Steingrímur J. Sigfússon, "forkona" flokksins, í Silfur Egils og hótaði þar netlöggu og allskonar forræðishyggju ofaní þjóðina. Hlaut hann mikla gagnrýni fyrir og ekki síður á Alþingi, þar sem hann neitaði að svara ítrekuðum spurningum framsóknarmanna um, hvers vegna hann hafi skipt um skoðanir í umhverfismálum og flokkur hans væri reikandi á því sviði? Þar tapaði VG e.t.v. nokkrum prósentum til viðbótar.

Gallup/Capacent birti skoðanakönnun í gær, mjög vandaða. Hún er niðurstaða hringinga í febrúarmánuði öllum, svo að segja. Þar vinnur VG góðan sigur, en ég efast um að hann haldi, því flestir tilsvarendur höfðu svarað fyrir landsfundinn og Stóra hræsnismálið á Alþingi. Það var líka áður en VG skilgreindi sig sem kvennalista og tók upp hinn gamla listabókstaf Kvennalistans, V.

Samfylkingin lendir enn í vandræðum, en við blasir mikið fylgistap. Það kemur ekki á óvart, en formaður flokksins hefur valdið flokknum skaða nærri því í hvert skipti sem umræddur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur opnað munninn. Og í vikunni kom enn eitt málið, þegar í ljós koma að hún hafði fleygt nestor flokksins, Jóni Baldna Hannibalssyni, á dyr. Og c.a. í kjölfarið yfirgaf Jakob Frímann Magnússon, eðalkrati úr JB-arminum, flokkinn, en í staðinn kom nöldurkerling, sem fékk ekki gott sæti á borgarstjórnarlista VG og hrökklaðist smám saman í Samfó. Hún virðist a.m.k. passa betur við ISG en Jakob, sem kom mér þægilega á óvart í Silfrinu um daginn.

Nú, og sem betur fer eru Frjálslyndir að detta niður í bjórstyrk og kom í ljós hjá Gallup, að lang flestir kjósendur flokksins byggja það val sitt á innflytjendastefnu hans. Án þeirrar stefnu væri flokkurinn fylgislaus, nú þegar gamla gengið er að miklu leyti horfið á braut með Margréti Sverris, sem hefur upp á síðkastið aðallega afrekað það, að níðast á trúfélögum utan kirkjunnar, og minnir mig að formaður Frjálslynda hafi nú orðið að biðja einhver þeirra afsökunar á ummælum hennar. Ég sé þó ekki að hún geti farið í framboð með þetta eina mál (þó FF geti það með útlendingamálið), því ég efast um að kjósendur telji það nægjanlega mikilvægt til að byggja heilan flokk á. Sumir hafa væntanlega horn í síðu hvítasunnusafnaða, en varla ristir það mjög djúpt.

Flokkaskipting virðist núorðið fara eftir "með eða á móti" skilgreiningum, í staðinn fyrir vinstri og hægri og hefur sú árátta einkum sýkt stjórnarandstöðuna.

  • Frjálslyndir: á móti frjálsu flæði útlendinga
  • Margrétarflokkur: á móti "sértrúarsöfnuðum"
  • Ómarsflokkur: á móti virkjunum og álverum.
  • Vinstri grænar: á móti öllu.
  • Samfylkingin: á móti Davíð og Sjálfstæðisflokknum, en einnig á móti því sem er óvinsælt hjá þjóðinni hverju sinni.

Um þetta verður víst kosið í vor.

Vikan hefur annars verið nokkuð strembin hjá mér. Ég byrjaði á nýju verkefni c.a. um síðustu helgi og hef haft meira en nóg að gera. Maður stekkur þar út í djúpu laugina og þarf að fjalla á fagmannlegan hátt um efni og hugtök, sem ég vissi voðalega lítið um hvað snerust. En ég held að þetta hafi gengið bærilega.

Í vikunni lauk fordæmisgefandi máli, sem háð var fyrir skákstiganefnd FIDE um, hvort ég skyldi tapa skákstigum á skák, sem aldrei var tefld. Ég sagði ætíð, og hélt því sterklega fram, að lög FIDE væru skýr og skildi ég ekkert í fáránlegum rökræðum sumra, sem virtust ekki skilja lögin og töldu að skákina ætti að reikna, burtséð frá reglum alþjóða skáksambandsins. Ég hafði auðvitað "sigur" að lokum, enda greinilega í "rétti" skv. lögum FIDE. En þetta var samt leiðinlegt mál, en ég hafði tapað toppbaráttuskák í Meistaramóti Hellis þegar GSM sími minn hringdi þegar ég var kominn á skákstað, en skákin ekki hafin. Skv. reglum FIDE tapast skák, þegar svo ber við. En þetta hlýtur að vera stysta skák sögunnar. Heimsmet!

Í kvöld hefst seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga, eins og Gunnar Björnsson ræðir hér á blogginu. Hellismenn hans standa vel að vígi eftir glæsilega frammistöðu í fyrri hlutanum í haust. Við TR erum í þriðja sæti og eigum litla von á að verja titilinn. Við stilltum upp afar veiku liði í haust, þar sem vantaði marga sterka skákmenn í liðið, þám Þröst Þórhallsson stórmeistara, Héðin Steingrímsson alþjóðlegan meistara, Helga Áss Grétarsson stórmeistara, Arnar Gunnarsson alþjóðlegan meistara (tefldi reyndar eina skák) og fleiri. En nú mætum við galvaskir til leiks með EM liðið okkar á sex efstu borðum (Þröstur Þórhallsson, Stefán Kristjánsson, Héðinn Steingrímsson, Arnar Gunnarsson, Jón Viktor Gunnarsson, Snorri G. Bergsson) ásamt sterkustu unglingum landsins, þeim Degi Arngrímssyni og Guðmundi Kjartanssyni. Enn vantar þó aðeins upp á, að TR stilli upp sínu sterkasta liði. Við mætum Helli einmitt í kvöld, og gæti sú viðureign haft mikil áhrif á það, hvort Hellir eða málaliðasveit Vestmannaeyinga sigri. Þótt Hellir hafi gott forskot, á félagið þrjú næstu lið eftir, þ.e. liðin í 2, 3, og 4. sæti, en eru búnir með "botninn". Þeir koma nokkuð sigurvissir til leiks með c.a. 2 erlenda málaliða, en óvíst hvort það dugi gegn fjölþjóðaliði Eyjamanna.

Jæja, nú þarf maður að fara að drífa sig í vinnuna. Mikið að gera á þessum föstudegi.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Gauti Hjaltason

Sæll Snorri.

  Kvitta fyrir lestur á þessu hræðsluvæli um Íslandsmótið.  Það fást töflur við svona skjálftaköstum.

Kveðja. - Karl Gauti.

Karl Gauti Hjaltason, 2.3.2007 kl. 08:20

2 Smámynd: Snorri Bergz

Sálfræðin Karl. Sálfræðin. Lögleg föstudaginn fyrir mót.

Snorri Bergz, 2.3.2007 kl. 08:22

3 identicon

VG var með flokksbókstafinn V í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Stefán (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 08:30

4 Smámynd: Snorri Bergz

En fékk hann nú formlega afhentan fyrir alþingiskosningar.

Snorri Bergz, 2.3.2007 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband