Baugs/Gaums/Nordica-málið

Gaman að menn skuli getað hlegið að þessu. Ég fæ ekki betur séð, en að þarna hafi einhver kátina verið lögð inn á viðskiptareikning dómarans.

En um málið; ég er kannski svona grænn (þó ekki vinstri grænn), að ég skil ekki lengur hvaða sakargiftir Kristín átti að afhjúpa þarna? Þetta er farið að líkjast stormi í vatnsglasi. Síðan skil ég ekki lengur öll þessi fyrirtæki: Sullenberger átti Nordica (en Baugur eða Gaumur lagði til rekstrarfé), Bónus-familían átti fjölskyldufyrirtækið Gaum, sem tengdist Baugi mjög eðlilega en ég skil ekki hvor átti hvað, síðan kemur Fjárfar, sem ég veit ekkert hvað er, en hlýtur að tengjast Bónus-feðgum. Og í ofanálag eru þrjár skútur í Flórída, sem Bónus menn könnuðust víst ekki við að eiga forðum, en játa nú á sig. Ég fatta ekki enn, hvað er saknæmt við að eiga skútu, en rámar í einhverjar fréttir um, að einhverjar greiðslur hafi þar farið á milli félaga með hætti, sem ákæruvaldið er ekki sátt við.Annars botna ég ekkert í þessu.

Nú, síðan kemur Jónína Ben inn. Hún er kölluð í Apótekið af Ingibjörgu Sólrúnu, sem skorar á hana að ýta málinu áfram. Og svilinn Össur hótar Baugi opinberlega, amk einu sinni, og segir að Baugsmenn séu vondir við Magga bróður og að þetta tröll þurfi að brjóta niður. En síðan er þetta Davíð Oddssyni að kenna, fyrir að hafa keypt vínber í London og misskilið eitthvað standup frá félaga sínum til margra ára, Hreini Loftssyni. Og þá fara Samfóarnir Ingibjörg og Össur skyndilega að væna Sjálfstæðisflokkinn um að standa að baki Baugsmálinu. Í ofanálag er Styrmi Gunnarssyni blandað í spilið og tölvupóstum hans og Jónínu Ben. Og Fréttablaðið gengur erinda eigenda sinna, og vísast einhverjir fleiri Baugsmiðlar. En Páll Vilhjálmsson berst við Baug með öllum ráðum og Jónína Ben líka, og nefna til sögunnar hið vonda fjölmiðlafélag 365, sem akkúrat er í samkeppni við Moggann, þar sem Styrmir Gunnarsson ræður, og RUV, sem er ríkisrekið; stjórnað formlega af ríkisstjórninni, en ræður aðeins vinstri sinnaða fréttamenn til starfa. Og sósíalistar þessir mótmæla kröftuglega þegar framsóknarmaður er ráðinn til stofnunarinnar. Og síðan er Ólafur Ragnar forseti kominn í málið, enda sé mynd af honum í Bónusmerkinu og að hann neitar að samþykkja lög, sem snýr að því að auka samkeppni á fjölmiðlamarkaði eða styrkja stöðu RUV og Moggans, eftir því frá hvaða sjónarhorni málið er litið. Og eitt eða fleiri af börnum hans starfa(r) hjá Baugi/Gaumi/Fjárfari eða Nordica eða einhverjum. Og allt er þetta Davíð að kenna aftur, vísast fyrir að hafa tekið peningana sína út úr Búnaðarbankanum, sem er í samkeppni við Landsbankann, þar sem Björgúlfarnir ráða, en þeir keyptu einmitt Morgunblaðið. Og Ingibjörg, formaður Baugsfylkingarinnar á Alþingi, heldur áfram að ráðast á Davíð og sér hann í hverju horni, þó hann sé hættur afskiptum af stjórnmálum og treystir jafnvel ekki eigin þingflokki til að verja Baug og fær í kjölfarið á sig árásir frá stuðningsmönnum svila síns, sem einmitt var harðastur í gagnrýni á Baug forðum daga vegna illsku Baugs í garð Magga bróður, formanns Músavinafélagsins, sem síðan laumar nokkrum músum inn í Bónusverslun, í eigu Baugs, þegar Stöð 2, sem líka er í eigu Baugs meira eða minna, er að mynda. Síðan, þegar allt verður vitlaust, setur Ágæti kartöflur í stað músanna hans Magga, en Ágæti var einmitt í samráði um grænmetisverið (ef ég man rétt), rétt eins og olíufélögin, sem urðu fyrir innrás löggumanna, rétt eins og Baugur og Írak, sem var hertekið af alheimslöggumönnum Georgs Bush, sem einmitt er mikill vinur Davíðs Oddssonar, sem á að hafa staðið að málinu með milligöngu herforingja sinna, Björns Bjarnasonar og Hannesar Hólmsteins, sem báðir eru frændur og kunnugir Snorra Bergz, sem þetta ritar. Því er ekkert skrítið þótt framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar hafi hér á blogginu haldið því fram, að umræddur Snorri Bergz hafi komið Baugsmálinu af stað.

Ég sé ekki annað fært, heldur en að játa á mig alla sök í þessu máli. Sönnunargögnin eru orðin of sterk. En ég vil þó taka fram, að þegar Kristín Jóhannesdóttir svaf þessa nótt í skútunni Thee Wiking var ég því miður fjarverandi.


mbl.is Baugsmálið: Kristín Jóhannesdóttir yfirheyrð í Héraðsdómi Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband