Greind, heiðarleiki, konur og Alþingi

Var að keyra upp á skrifstofu í morgun og hlustaði þá á lok viðtals morgunhana Bylgjunar við Guðfríði Lilju, forseta Skáksambands Íslands og tilvonandi þingmann (og hugsanlega ráðherra?). Þar var klikkt út með, að Lilja væri mjög gáfuð og hugsanlega alltof heiðarleg fyrir Alþingi!!

Ég hefði haldið, að hvort tveggja væri kostur fyrir þingmenn, en því miður virðast ekki allir þingmenn þessum kostum gæddir, sérstaklega í ákveðnum "hópum"!

En rétt er það, að Lilja er bæði gáfuð og heiðarleg. Ég hef þekkt hana síðan hún var smástelpa í stígvélum, og fjölskyldu hennar hef ég þekkt mjög lengi. Foreldrar hennar, mikið ágætis fólk, voru bæði formenn Taflfélags Reykjavíkur og þau og systkinin afburða vel gefin; Sigurður Áss verkfræðingur, Andri Áss (sem ég ólst að nokkru leyti upp með í skákinni, báðir f. 1969) viðskiptafræðingur og einn af toppmönnum Icelandair, og Helgi Áss, stórmeistari í skák og einn efnilegasti lögfræðingur landsins. Í mínum huga er ljóst, að genasamsetningin er góð og Lilja stendur strákunum alls ekki að baki. Hún mun, komist hún á þing, hækka meðalgreindarvísitölu þingsins og vega upp á móti amk tveimur þingmönnum frjálslyndra.

liljakatrin

Önnur af svipuðu kaliberi er Katrín Jakobsdóttir, sem ég hef líka mikið álit á. Þótt bæði hún og Lilja séu andspænis mér á hinum pólítíska vettvangi, þá vil ég frekar hafa gáfaða og heiðarlega þingmenn með "rangar" skoðanir, en vitlausa rugludalla með réttar skoðanir. Ég þekki Katrínu minna en Lilju, en nógu vel þó til að hafa lagt hart að henni fyrir margt löngu að fara í framboð og drífa sig á þing. Röksemd mín var þá einmitt þessi: hækkum meðalgreindarvísitölu alþingismanna. Ég þekki þó bræður hennar betur, þá Ármann og Sverri, en þá þarf vart að kynna, tveir af gáfuðustu mönnum landsins og þar að auki fínir drengir, þrátt fyrir hræðilegar skoðanir í stjórnmálum!! Smile En með Katrínu og Lilju breytir litlu þó frjálslyndir fái 5-6 þingmenn, því þessar tvær konur myndu vega þá upp, meðalgreindarvísitölulega séð.

Fleiri mætti nefna, úr þessum ranni sósíalistanna, svo sem Svandísi Svavarsdóttur, sem ég hef mikla trú á, en með sömu fyrirvörum og snertir hinar kjarnorkukonurnar hér að ofan. Það er síðan gaman að sjá, að Guðfinna Bjarnadóttir er að koma inn fyrir Sjálfstæðisflokk og e.t.v. Sigríður Andersen. "Now you are talking!" Og síðan þarf varla að minnast á Þorgerði Katrínu. Ef femínistar fá að ráða og konur verði helmingur ríkisstjórnar eða nærri því, er ljóst, að D og U verða að eiga aðild, til að inn komist konur ekki út á kynferði sitt, heldur hæfileika. Með t.d. Þorgerði, Lilju, Katrínu og Guðfinnu (sem eru nógu ofarlega á listum til að koma til greina) verða sterkar konur í stjórn. Því miður virðist t.d. Samfó hvorki hafa magn né gæði á þessum vettvangi, nema einna helst Katrínu Júlíusdóttir og e.t.v. madd. Jóhönnu, og frambærilegustu kvenþingmenn framsóknar virðast á leiðinni út. Valgerður hefur þó komið á óvart í stóli utanríkisráðherra. En karlaveldið ræður hjá Frjálslynda flokknum, og þar er jafnframt lítið um gæði.

En jæja, látum þetta nægja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband