Föstudagur, 23. febrúar 2007
Dagbók frá megrunarhælinu
Þetta var langt og erfitt ferðalag, alla leið suður til svissnesku Alpanna. Flogið var um London og Zurich, og síðan lest tekin upp til Fatzerie, rétt við svissnesk-frönsku landamærin. Ég fékk herbergi í þeirri álmu megrunarhótelsins, sem hýsir fátækari gestina, þarna voru t.d. nokkrir Pólverjar og aðrir Austur-Evrópumenn, sem fengu styrk frá ESB til að sækja þetta megrunarátak.
Ég svaf ágætlega um nóttina í sérstyrkta rúminu mínu. Fannst það þó dálítið hart, enda ætlast til að gestir hafi sjálfir yfir nægri mýkt að ráða. Um morguninn var haldið til morgunverðar, þar sem hver og einn fékk eina hrökkbrauðssneið, með engu áleggi, og vatnsglas. Síðan var farið út að hlaupa. Flestir áttum við fitubollurnar í erfiðleikum með prógrammið, nema hvað tveir menn, greinilega ekki meðlimir í Frjálslynda flokknum, höfðu töluvert forskot á okkur hina og voru komnir aftur heim á hótelið, búnir að taka sturtu og komnir í rafmagnstækin, þegar við hin skriðum inn í anddyrið.
Við mættum nokkru síðar í tækjasalinn, og þá voru þeir að klára prógrammið þar. Annar þeirra, sköllóttur, glotti til okkar svo skein í frekjuskarðið, og tók hinn undir og sýndi góminn, ásamt því að hrista taglið aðeins.
Öll mættumst við síðan í matsalnum, þar sem matseðlinn blasti við okkur: harðfiskur með gervisúkkulaði. Ég er rétt búinn með skammtinn og er kominn upp á herbergi til smá hvíldar og ákvað þá að blogga aðeins, meðan ég hefði tíma.
Jæja, læt þetta nægja í bili.
Kv
Snorri feiti
Á Ronaldinho í baráttu við aukakílóin? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.