Föstudagur, 16. febrúar 2007
Vinur minn Talibaninn
Þegar ég var í námi í Leicester kynntist ég heittrúuðum múslima, Qas Mahmood, frá Pakistan. Hann flutti inn í "dormið" við Elms Road c.a. í mars 1993, þegar fyrri íbúar höfðu margir haldið heim. Hann var heittrúaður, en ekki ofbeldisfullur. Slíkir menn eru jú til. Þetta var einn ljúfasti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Gull af manni, algjörlega. Ég gæti haldið langan lestur um mannkosti þessa öðlings, en vil ekki þreyta blogglesendur of mikið. Get þó nefnt, að hann var forfallinn áhugamaður um enskan fótbolta, enda hafði hann búið í Englandi í nokkur ár.
En hann var maður ekki einsamall. Hann átti fjölskyldu í Pakistan. Og hann sagði mér, að fjölskylda hans hefði samið við aðra fjölskyldu um hjónaband hans. Sjálfur hefði hann ekkert að segja um málið. Hann fór á hnén fimm sinnum á dag, þvoði sér vel framan við olnboga og á fleiri stöðum. Og hann hugsaði oft þegar hann bað: "Ég vil búa áfram hér í Englandi". En hann þorði ekki að óhlýðnast foreldrum sínum. Hann gæti ekki bæði verið góður múslimi og óhlýðnast föður sínum og móður í svo mikilvægu máli.
Þegar ég kvaddi hann í júní 1993 og fór heim til Íslands sagði hann, að pabbi sinn hefði pantað fyrir sig flug til Pakistan strax að prófum loknum. Mig minnir, að hann hafi verið í námi í kemískri efnafræði, efnaverkfræði, eða einhverju svoleiðis. En þarna um sumarið átti hann að kynnast heitkonu sinni, eiginlega hitta hana í fyrsta skipti. En hann gæti ekki giftst henni strax. Fyrst yrði hann að klára námið og hún var þar að auki nokkuð ung, en ekki nefndi hann aldur hennar nákvæmlega, sagði bara: "Hún er nokkrum árum yngri en ég," og glotti stríðnislega. Hann var þá um tvítugt.
Við skrifuðumst eitthvað aðeins á, 1-2 kost ef ég man rétt. En það síðasta sem ég frétti af honum var, að hann var að fara til Afghanistans í "skóla". Frændi hans hafði skipulagt það. Síðan hef ég ekki frétt neitt frá honum.
En til hvers að fara í skóla í Afghanistan? Hann var vel menntaður, og vísast best menntaði efnafræðingurinn í Afghanistan! Rúmu ári síðar náðu Talibanar (sem þýðir "nemendur"; Talib (et) merkir nemandi) völdum í Afghanistan. Þeir voru að grunni til nemendur í íslömskum skólum, þar sem heittrúin reið ekki við einteyming. Flestir höfðu komið frá Pakistan, þangað sem þeir höfðu flúið undan Sovétmönnum, en sneru nú aftur undir merkjum íslams. Smám saman þokuðu þeir sig vestur á bóginn uns landið féll nær allt í hendur þeim. Og það er nánast öruggt, að hinn góðlegi Qas Mahmood hafi verið í þeirra hópi. Hann hefur amk verið einn þeirra fáu á svæðinu, sem kunnu að búa til sprengjur.
Ef ótti minn á við rök að styðjast, eins og ég tel nánast öruggt, vil ég spyrja: hvað í ósköpunum gerði einn yndislegasta mann sem ég hef kynnst að Talibana? En ég vona a.m.k., að vinur minn Talibaninn sé enn á lífi. En maður veit aldrei.
Talibanar segjast hafa 10.000 menn reiðubúna í voráhlaup | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Facebook
Athugasemdir
Talibanar komust til valda eftir að Bandríkjamenn fóru um leið og Sovétmenn gáfust upp 1989. Borgarastyrjaldir, eymd og óhamingja í landi sem hefur verið í stríði nánast frá því um síðari heimstyrjöld er líklegast ástæðan fyrir þessum hatri til vestræna ríkja.
Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 10:27
p.s. er að tala um Afganistan þessi hlekkur innheldur upplýsingar um landið sem hafa verið settar inn á Wikipediuna góðu. Þetta er kannski ekki tæmandi en mjög mikið af ýtarefni um stríðsögulandsins og hvernig vestrænu ríkin koma þar við sögu.
Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 10:34
Ja, Talibanar náðu ekki völdum strax, heldur smám saman, var það ekki c.a. 1995?
Snorri Bergz, 16.2.2007 kl. 10:50
Falleg grein hjá þér. Sennilega er þetta saga margra talibana. Og líka saga margra annara góðra manna og kvenna. Umhverfið getur gert úr okkur eitthvað allt annað en upplagið gefur til kynna.
Þ.e.a.s. ef við gætum okkar ekki og reynum af fremsta megni að vera við sjálf.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2007 kl. 10:59
Mér finnst þetta falleg og einlæg saga, en um leið sorgleg. Að alast upp í svo sterkum hefðum að geta ekki gert það sem hjartað bíður manni, það finnst mér sorglegt.
Ég vona að þessi vinur þinn sé á lífi einhversstaðar og líði vel og sé hamingjusamur og sáttur.
SigrúnSveitó, 16.2.2007 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.