Er dópsala hryðjuverk?

imagesCACOUBCQJá, Frjálslyndi flokkurinn virðist halda því fram, að dópsala sé hryðjuverk. Hvað er þá dópneysla? Og eru þá dópistar fórnarlömb hryðjuverkamanna og ættu þá að fá bætur?

Í mínum huga er þetta fáránleg samlíking og gerir lítið úr þeim, sem orðið hafa fórnarlömb alvöru hryðjuverkamanna, sbr. að nú er að hefjast réttarhöld í máli þessa íslamska hóps, sem framdi hryðjuverkin alræmdu í Madríd fyrir þremur árum, ef ég man rétt.

Kannski maður spyrji, hvort allir útlendingar, sem komast í kast við lögin, séu hryðjuverkamenn í huga Frjálslyndra?

Af einhverjum ástæðum virðist Frjálslyndi flokkurinn hafa glatað glórunni. Ef þetta lið finnur hana ekki aftur á næstu dögum biðla ég til þjóðarinnar, að hækka meðalgreindarvísitölu alþingismanna og kjósa einhvern annan flokk en þennan. Fólk, sem svona dónalega lætur, ætti betur heima á öðrum stofnunum en hinu háa Alþingi.


mbl.is Tekist á um hryðjuverkamenn á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Í fyrsta lagi eru tveir menn allur Frjálslyndi flokkurinn ? Gerir þú ekki greinarmun á hvað er flokkur og hvað eru  einstakir talsmenn flokks ?

Á þá að túlka orð allra þingmanna sem svo, er það til dæmis skoðun Sjálfstæðisflokksins að ef maður fær ekki sætustu stúlkuna þá geti maður bara tekið þá næst sætustu? eða að Byrgisstúlkurnar hefðu nú ef til vill hvort sem er orðið óléttar eða..............

Eða má bara hafa skotleyfi á Frjálslyndaflokkinn, og allt sem fólk segir sem er í þeim flokki sé túlkað sem Flokkurinn í heild ?

Í annan stað þá finnst mér þú gera ansi lítið úr fíkniefnavandanum.  Ég þekki hann bara mjög vel og ég get alveg fullyrt að sú lífsreynsla hafi valdið mér varanlegum skemmdum, og ég veit að slíkt helvíti snertir næstum hverja einustu fjölskyldu hér á landi.  Þannig að í því samhengi má alveg tala um hryðjuverk.  Dópsala og neysla fer vaxandi hér á landi og þær aðferðir sem notaðar hafa verið til varnar hafa ekki skilað neinum árangri hingað til.  Því miður.  Það þyrfti örugglega einhverskonar hryðjuverkavarnir til að vinna bug á þessum fjanda og ekkert minna en það. 

Og þú ættir ef til vill að skoða þitt eigið orðbragð áður en þú vænir aðra um dónaskap eða heimsku.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2007 kl. 11:58

2 Smámynd: Snorri Bergz

1. Þetta bull er reyndar eitt það skásta sem hefur komið frá xF upp á síðkastið. Það segir fleira en mörg orð.

2. Í öðru lagi vil ég benda þér á "vin þinn", sem tók undir þetta og gekk jafnvel lengra. http://stebbifr.blog.is/blog/stebbifr/entry/123931/

3. Í þriðja lagi, þá tek ég a.m.k. voðalega lítið mark á þessum flokki, og eftir árásir þínar á Stefán Friðrik um daginn, efast ég um að þú ættir að vera mikið að tjá þig um orðbragð og dónaskap.

4. Í fjórða lagi, þá býst ég við að ég þekki fíkniefnavandann nógu vel til að taka hann alvarlega. En það er stór munur á dópsölu eða að sprengja lestir í loft upp.

Snorri Bergz, 15.2.2007 kl. 12:09

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Engann læt ég þagga niður í mér. 

Og ef til vill ættir þú að tala um allan pakkan, ég setti að vísu inn sögu um Stefán, en ég gerði meira ég kannaði sannleiksgildi hennar og bað Stefán síðan afsökunar og útskýrði fyrir honum hvers vegna ég dró svarið, en ég var tæpan sólarhring á fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði, viðstödd erfiða fæðingu lítils barnabarns.  En mér skilst nú að Stefán sjálfur hafi ekki vandað mér kveðjurnar, svo lítið hallar okkur á þar, nema ég baðst þó afsökunar og hreinsaði hann af því sem ég bar á hann. 

Þegar þú segir að þú takir voða lítið marg á flokknum eftir árásir mínar á Stefán á málefnunum segir þú nákvæmlega það sem ég er að gagnrýna.  Dæmir heilan flokk út frá því sem ég segi.  Það er naumast að ég hef vigt í þínum huga. 

Hryðjuverk getur innifalið fleira en að sprengja upp lestir eða fólk. Hryðjuverk er hervirki sem nær yfir stóran fjölda fólks og er erfitt að uppræta. 

Annars má ef til vill benda fólki á að hér var vísað frá landinu nokkrum Vítisenglum á sínum tíma.  Einnig voru búnar til fangabúðir fyrir fólki sem hér kom á vegum Falun Gong.  En það telst ekki með, af því að það voru ekki Frjálslyndir sem þar  áttu hlut að máli

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2007 kl. 18:02

4 Smámynd: Snorri Bergz

Ég veit ósköp vel að margt ágætis fólk er í flokknum. En maður tekur ákveðin atriði til viðmiðunar:

1.Landsfundarmálið: ekki traustvekjandi

2. Framganga þingmanna: ekki traustvekjandi

3. Dónaskapur við fórnarlömb ALVÖRU hryðjuverka. Það fólk hafði ekki val, það var drepið, myrt. Dópistar hafa val...þeir þurftu ekki að kaupa.

4. Ég veit ekki í hvaða heimi þú býrð eiginlega. "Þegar þú segir að þú takir voða lítið marg á flokknum eftir árásir mínar á Stefán á málefnunum segir þú nákvæmlega það sem ég er að gagnrýna.  Dæmir heilan flokk út frá því sem ég segi.  Það er naumast að ég hef vigt í þínum huga." Ég var ekki að dæma heilan flokk út frá þér...ég þekki þig ekki neitt. Sbr.

" Í þriðja lagi, þá tek ég a.m.k. voðalega lítið mark á þessum flokki, og eftir árásir þínar á Stefán Friðrik um daginn, efast ég um að þú ættir að vera mikið að tjá þig um orðbragð og dónaskap". Hvar dæmi ég hér heilan flokk út frá þér? Ég sagðist ekki taka mikið mark á flokknum, og síðan segi ég í framhaldi, að þú ættir ekki að tjá þig um dónaskap.

En varðandi "Stefánsmálið", þá áttirðu í fyrsta lagi ekki að birta þetta upphaflega nema að vera viss um að réttur maður ætti í hlut, og síðan henda þessu út eða birta opinberlega afsökunarbeiðni. Því er ekki skrítið þó hann hafi svarað fyrir sig. Og nei, þetta er ekki sambærilegt. Ef NN myndi ´ganga upp að manni á förnum vegi og kýla hann á kjaftinn, en hinn svara á móti með sama, væri þá jafnt á komið? Nei.

Og já, hryðjuverk eru margskonar, en viðmiðið er jú, tökum þitt orðalag: "hervirki...". En þá er miðað við, og því gleymirðu, að það fólk sé saklaus fórnarlömb,en ekki kaupendur varnings. Eru þá ÁTVR hryðjuverkasamtök? Fleiri Íslendingar deyja vegna neyslu söluvarnings ÁTVR en flestu öðru hér á landi. Nei, menn geta valið hvort varan sé keypt.  Þú klikkar á þessu. Fórnarlömb hryðjuverka eru þau, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, hafa ekkert um málið að segja og geta ekki forðað sér.

Hvað kom Vítisenglar eða Falun Gong þessum málum við? Ég átta mig ekki á samhenginu? Eða ertu að blanda útlendingaumræðunni í þetta? Ég man ekki eftir að hafa nefnt það í þessu samhengi. Það er bara ekki heil brú í þessu hjá þér.

En andstaða mín við Frjálslynda flokkinn helgaðist fyrst og fremst af því, að hafa horft á þingmenn flokksins í ræðustól á Alþingi. Mér þótti þeir svo afburða lélegir, að ég trúði ekki að svona menn ættu skilið að vera á Alþingi, sama hver málstaðurinn væri. Og það átti sérstaklega um Magnús Þór, sem ég tel vera einn slakasta þingmann síðari ára. Guðjón Arnar er reyndar allt í lagi, en hinir, að mínu mati, alls ekki. Og síðan hafa ýmis mál, einkum undanfarið, eflt mig í þeirri skoðun, að FF sé ekki "þyngdar sinnar virði" í fiðri. Og þetta "hryðjuverka-dóp mál" er enn ein staðfestingin.

En til hamingju með barnabarnið, ég vona að því líði vel.

Snorri Bergz, 15.2.2007 kl. 18:31

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Landsþing ekki traustvekjandi, getur verið þar gerðist margt óvænt eins og þegar fleiri hundruð manns ruddust inn rétt fyrir kosningu og enginn viss hvaðan á sig stóð veðrið.  Það hefði greinilega verið smalað og það vel. 

Varðandi Stefánsmálið segi ég nú bara að ef menn sem eru að vasast í pólitík þola ekki svona umræðu, þá eiga þeir nú bara að sitja heima hjá sér.  Málið var að það var vissulega smalað og það voru þarna ungsjallar sérpantaðir, það var staðreynd, hvort Stefán var þar á meðal var ekki víst.  En ég heyrði þess getið og setti það fram meira sem fyndni en annað.  Annað eins hefur nú verið rætt og ritað.  Enda brást ég fljótt við og leiðrétti það. 

Ég hendi ekki út óþægilegum málum, og ég birti afsökunarbeiðnina á sama stað og ég sagði söguna, í fyrirsögn svo það fór ekkert á milli mála.  Þú þarft ef til vill  að kynna þér málin áður en þú dæmir svona.  Þetta með að kýla á kjaftinn er út úr kú.  Og það hallar á Stefán að biðja aðra málverja afsökunar á því sem hann setti inn á sitt blogg, þar sem hann setur fram miklu ósanngjarnari ásakanir um að þeir séu leigupennar og skítapakk.  Hann hefur ekki séð ástæðu til þess að biðja þá afsökunar ennþá.  Aðrir Málverjar geta ekki svarað fyrir það sem ég skrifa.  Alveg eins og ég tek ekki á mig það sem aðrir skrifa. 

Samhengið með Vítisengla er auðvitað að þar voru samtök sem flokkast undir glæpasamtök sem snúið var við á Vellinum og fengu ekki að fara inn í landið.  Vegna þess að yfirvöld óttuðust glæpsamleg athæfi.  Sum sé frægir glæponar.  Hvað varðar Falun gong, þá er það af allt öðrum meiði, en engu að síður var þessu fólki smalað saman, neitað um inngöngu í landið og sett tímabundið bak við lás og slá. Samhengið er það sem verið er að dæma Frjálslynda flokkinn fyrir að vera að ala á útlendingahatri.  Hvað gæti hugsanlega verið verra til að ala á sliku en svona meðferð á saklausu fólki.  Sem berst fyrir friði og málfrelsi í Kína sem er alræðisríki þar sem frelsi er ekkert til orða og athafna.

Ég ætla mér ekki að svara fyrir það sem Valdimar og Magnús sögðu í ræðustól, en ég hef verið að benda á að ýmsir þingmenn og ráðherrar tala misjafnlega gáfulega án þess að flokkurinn sem slíkur og allir sem í honum eru séu dæmdir út frá því.  Við erum með mjög góða málefnahandbók, sem hefur verið unnin og samþykkt á landsþingum, málefnasamning sem við höfum öll undirgengist að sé grundvöllur þess sem við erum.  Þar er hvergi að finna neitt ójafnræði eða þjóðernishyggju sem reynt hefur verið að klína á flokkinn undanfarið.

Og svo að lokum takk fyrir góðar óskir til handa lítilli prinsessu og móður hennar sem er í mínum huga hetja dagsins. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2007 kl. 21:49

6 Smámynd: Snorri Bergz

OK, bara stutt. Ok, ég vissi ekki að þú hefðir birt afsökunina á sama stað. Biðst forláts.

Eru Vítisenglar hryðjuverkamenn? Um það snerist sú umræða, sem hér var hafin. Það er munur á glæponum og terroristum. Ég var reyndar mjög ánægður með þá aðgerð. Ég var úti þegar FG málið var í gangi og þekki það ekki. Sá það bara í skaupinu. Og ég var ekki, að ég man, að gagnrýna útlendingastefnu flokksins. En ég hef hins vegar gagnrýnt sumar setningar, sem ákveðnir forystumenn FF hafa haft í frammi og eru þeirra eigin túlkun á útlendingamálinu.

En ég er ekki að dæma flokkinn út af þessu einu. Þetta var svona kornið sem fyllti mælinn. Ég hef hlustað oft og lengi á útsendingar frá þinginu og af þeiri hlustun/áhorfi hef ég "dæmt flokkinn". Og ég er reyndar sammála því, að kratar og sósíalistar hafa vaðið ódrengilega í FF út af útlendingamálinu og snúið út úr. Ég las útlendingastefnu FF og gat hvergi séð, að fótur væri fyrir ásökunum vinstri manna um rasisma - nema hvað einstaka FF menn hafa farið yfir strikið.  Ég skrifaði hér áður, að útlendingastefna FF sé "COPY" af útlendingastefnu ALþýðuflokksins 1927.

En jæja, verum þá bara  sammála um að vera ósammála um FF og hvað það eina, sem við erum ósammála um.

Og ef það vantar nafn á prinsessuna, skal ég fúslega lána þér fallegasta barnanafn í heimi: Ísabella Rós.

Snorri Bergz, 15.2.2007 kl. 22:00

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég held að foreldrarnir séu búin að nefna hana, hef samt ekki fengið að vita nafnið

Auðvitað hefur þú þína skoðun á FF, og ég mína, þannig virkar lýðræðið minn kæri. 

Þannig að ég segi nú bara eins og stubburinn minn " give me five"

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.2.2007 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband