Helgin

Þetta var skrítin helgi. Laugardagur til lukku átti ekki allskostar við, og þó. Ég vaknaði eldsnemma og var kominn upp á skrifstofu um sex leytið að morgni. Mér líkar að mæta snemma, áður en aðrir koma, svo maður fái nú vinnufrið. Það var þó lítið um vinnu, heldur var ég að sinna laugardagsverkunum, t.d. þrífa, tæma ruslafötur, vaska upp og svoleiðis. Slíkt þarf víst líka að gera.

Ég notaði þó tíma til að vinna aðeins í bókinni, sem ég er að skrifa í hjáverkum. Fjallar hún um kommúnistahreyfinguna á Íslandi 1918-1927. Nota ég þar fjölda heimilda, sem aldrei hafa áður verið notaðar og því er þar margt skemmtilegt að finna, m.a. held ég fáir hafi áður vitað, að aðalfulltrúi Íslendinga á heimsþingi Kominterns 1921, Ólafur Friðriksson ritstjóri, var handtekinn við komuna til Rússlands. Mun hann vísast hafa verið fyrsti erlendi bolsévíkinn (en svo kallaði hann sig á þeim tíma), sem var handtekinn í Ráðstjórnarríkjunum, en ekki sá síðasti.

Ég var líka aðeins með hugann við skákina. "Fallbyssurnar" (stigahæstu skákmennirnir) tefldu saman í þriðju umferð Meistaramóts Hellis á föstudagskvöldið. Reyndar höfðu tvær skákir á toppnum verið tefldar fyrirfram á fimmtudagskvöldið, þar sem Sigurbjörn Björnsson, skákmeistari Rvk 2007, sigraði Hrannar Baldursson í Cozio-afbrigðinu í Spænskum leik. Það afbrigði er að verða vinsælt hér á landi, ekki síst fyrir tilstilli Björns Þorfinnssonar, (Húnsins), sem hefur náð ágætis árangri með því afbrigði. Hann beitt því einnig gegn mér þetta sama kvöld, en tapaði í æsispennandi skák. Síðan gerðist það á föstudagskvöldið, að stigahæsti maður mótsins, Bragi Bjössabróðir, tapaði gegn Ingvari Þór (X-bitanum hér á blogginu) Jóhannessyni í merkilegri skák, þar sem Ingvar endurtók leiki stórmeistarans Fressinets gegn Ingvari á Rvk open 2006 og vann örugglega. Þar má segja, að Ingvar hafi lært af reynslunni. Bragi tók þessu karlmannlega, og þegar ég benti á þetta, meðan á skák þeirra stóð, á Skákhorninu (skak.hornid.com) kom Bragi inn til andsvars og sagði. "Ég heiti Bragi Þorfinnsson. Ég var tekinn". Skemmtilega orðað. Önnur óvænt úrslit urðu, þegar Davíð Ólafsson, þriðji stigahæsti maður mótsins (á eftir þeim Þorfinnssonum), tapaði illa fyrir Jóhanni Ingvasyni úr Keflavík. Þau úrslit komu mér ekki á óvart, en ég hafði rölt upp i Hellisheimili og séð stöðuna. Þá var komin upp kunnugleg staða, sem ég hef oft teflt áður. Dabbi teflir alltaf sín vafasömu afbrigði aftur og aftur, og hafði hér lent í gömlu bragði, sem ég hafði oft beitt á yngri árum. Tap hans kom mér því ekki á óvart, þannig séð, þó fyrirfram hefði ég talið Davíð sigurstranglegri. Ég ætlaði að vera duglegur á laugardeginum og stúdera eitthvað fyrir skákina gegn Sigurbirni á mánudagskvöldið (í kvöld), en einhverra hluta vegna varð lítið um efndir.

Síðan kom enski boltinn og megum við Arsenal-menn ágætlega við una. Bæði Liverpool og Tottenham töpuðu. Ég fagnaði því á umræðuhorni skákmanna (Gjallarhorninu) og fékk yfir mig gusu frá eldheitum Púlurum, sem voru sárir. Síðan tapaði West Ham, Íslendingaliðið, fyrir Watford. Nú verður erfitt fyrir Egg-ert að halda félaginu upp í efstu deild. Þessi úrslit hafa vísast eyðilagt helginga fyrir Ingvar X-bit. Arsenal sigraði síðan leik sinn á sunnudaginn, með dálítilli heppni reyndar.

En jæja, sunnudagurinn var ágætur svosem. Enn nennti ég ekki að stúdera fyrir Sigurbjörn, en hafði í mörgu að snúast. Börnin hans Munda bróður komu í heimsókn, 4 stykki samtals (ég seldi honum minn tveggja barna kvóta!), og þau hjónin með. Þessu litlu krútt eru yndisleg og var sá yngsti, Arnar Máni, ekkert á því að fara aftur og vildi vera áfram hjá Snorra frænda. Flashback frá því sá næst yngsti (Ívar) var á sama aldri. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég hef verulega "soft spot" fyrir þessum börnum. Þau eru svo saklaus og yndisleg, eitthvað sem ég er ekki. Þessir litlu ungar eru, ásamt foreldrum mínum og systkinum, einu persónurnar í heiminum, sem ég myndi glaður deyja fyrir, væri þess þörf. Ég gæti ekki þótt meira vænt um þau, væru þau mín eigin. Jafnframt eru hin sömu þau einu, sem gætu fengið mig til að beita ofbeldi. Ég veit ekki hvað ég myndi gera, ef einhver utanaðkomandi myndi gerast ósæmilegur í þeirra nærveru. Mér þætti líklegt, að þá færi viðkomandi á sjúkrahús, en ég á Hraunið.

En jæja, hluti sunnudags fór í að setja upp leiksýningu á óskáktengdu umræðuhorni okkar skákmanna. Þar tókum við Gunzó (http://gunnarb.blog.is) hefðbundna rimmu um kosti og galla Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Við tökum svona leikrit stöku sinnum, þegar efni standa til, en fyrst og fremst í stríðni. Ég held, með fullri virðingu fyrir öðrum skákmönnum, að við tveir séum stríðnustu skákmenn Íslands. Sumir fatta þó ekki, að þegar hann ræðst á Sjálfstæðisflokkinn á horninu er það m.a. til að egna mig (og etv aðra "Sjalla") til andsvars, og öfugt. Hið sama gildir þegar ég skrifa um Samfó, og því héldu menn að við værum komnir í alvarlegt hár saman! En auðvitað er nokkur alvara að baki, eins og jafnan er með stríðni.

En ég sá fyrir klakkandi Gunzó, og hann hefur vísast grunað, að ég væri glottandi á móti. En við lékum þetta vel, held ég, enda reyndi ég amk að hljóma afar sannfærandi og notaði ýmsar röksemdir. En þetta er góð æfing, því það er mjög erfitt að rífast um pólítík við Gunzó, þar eð hann svarar ekki beinlínis spurningum eða aðfinnslum, heldur kemur fram með aðrar á móti. Því kemur jafnan aldrei nein niðurstaða úr þessu, heldur aðeins skemmtileg útrás fyrir polítískan óveruleika. En jæja, gaman að þessu.

En síðan var helgin búin og mánudagur til mæðu tekur við. C'est la vie!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband