Afturhallatregða í Ómari?

omar Jæja, Framtíðarlandið ætlar ekki að bjóða fram til Alþingis, eins og kom fram í gærkvöldi. En nú kemur Ómar Ragnarsson fram, og segir líkur á framboði umhverfissinna hafa aukist. Það væri óþarfi að kljúfa Framtíðarlandið, betra væri að koma fram með nýtt, óháð framboð umhverfissinna. En, allt í lagi, segjum svo, að framboð umhverfissinna komi úr skápnum. Hvaða flokkar græða og hverjir tapa?

Sumir segja, að slíkt framboð myndi helst taka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Rökin eru þau, að þar innan húss séu margir hægri-grænir (eða hægri-græn, eins og vinstri-græn myndu segja), sem geti ekki kosið Steingrím Joð og co, en vilji leggja umhverfismálum lið sitt. Þeir gætu því kosið slíkt framboð.

En aðrir segja, og ég þar á meðal, að Vinstri grænir muni e.t.v. tapa mestu á slíku framboði. Rökin eru þau, að ólíklegt er, að 23% íslenska samþykki sósíalisma Vinstri-grænna, heldur sé a.m.k. helmingur þessa fólks fyrst og fremst umhverfissinnar og hafi engan annan vettvang en VG til að fá útrás fyrir þær hvatir. Með nýju framboði gæti fólk þetta, sem e.t.v. er staðsett á miðju stjórnmálanna eða verið opið í báða, ljáð óháðu umhverfisframboði atkvæði sitt, ekki síst þar sem margir eru hissa á VG, fyrir að hafa selt umhverfishugsjón sína fyrir súpudisk í Mosfellsbæ.

Ég held nefnilega, að sjálfstæðismenn muni ekki flykkjast til umhverfisframboðs. Rökin eru þau, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins kjósa flokkinn vegna heildarlífssýnar hans: sjálfstæðisstefnunnar, þó fæstir séu sammála þingflokknum eða flokksforystunni um öll mál. Þeir gætu því varla farið að kjósa flokk, sem væri óskrifað blað í pólítíkinni. Hvaða afstöðu hefði t.d. umhverfisframboð í málefnum ESB og evrunnar, sjávarútvegs, velferðarmála? Ég held að sjálfstæðismenn muni ætla, að umhverfisframboð muni vísast taka sér stöðu á miðju litrófsins og verða eins konar b-lið Samfylkingarinnar í flestum málum. Og það er ekki góðs viti. Þeir munu því varla kjósa þetta framboð, nema e.t.v. i afar litlum mæli.

Ég ætla, að Samfylkingin muni græða allra mest á umhverfisframboði. Ástæðan er sú, að það tekur nær ábyggilega töluvert fylgi af Vinstri grænum og e.t.v. eitthvað fylgi frá Sjálfstæðisflokki. En ég efa, að margir kjósi Samfó vegna umhverfisstefnu flokksins, sem er mjög óljós og flöktandi, eins og alþjóð veit. Þar eð líklegt er, að umhverfisflokkur (t.d. undir nafninu Græningjar) fái ekki marga þingmenn, ef nokkra, gætu þessi atkvæði, sem annars hefðu nýst VG eða XD til uppbótarþingsætis, fallið niður dauð og gagnst Samfó, já og jafnvel Framsóknarflokknum.

Mér er þó til efs, að umhverfisframboð skili neinu. Eins-máls-flokkar hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá þjóðinni. Hvað ætli frambjóðendur slíks framboðs segi um helstu álitamálin í þjóðfélaginu? Sumir eru með t.d. ESB, aðrir á móti, og erfitt að gera málamiðlanir. Slíkur flokkur yrði því hrærigrautur fólks með ólíkar skoðanir á flestum málum. Skipulagt kaos, eins og skáldið sagði. Og hvað ætlar slíkur flokkur að segja í t.d. heilbrigðismálum? "Setja sjúklingana í umhverfismat"? 

En að lokum vil ég rifja upp gamla vísu Flosa um Ómar, æðstaprest ultra-umhverfissinna á Íslandi:

Norðan fjalla Ómar er

afturhallatregur

Prúðan skalla skáldið ber

en skelfing kallalegur.

Og afturhallatregur merkir, að hann hafi þá verið hættur að taka bakföll af hlátri. En nú virðist hann vera orðinn afturhallatregur á fleiri sviðum. Spurning hvort nýja framboðið verði ekki kallað "Afturhallatregir umhverfissinnar"?


mbl.is Ómar Ragnarsson telur auknar líkur á framboði umhverfisverndarsinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband