Síðasta tækifæri Hamas?

islamicjihad2Leiðtogar Hamas, Khaleed Mashaal og Ismail Haniyeh, og leiðtogi Fatah, Mahmoud Abbas, sitja nú í boði Abdullah, kóngs Saudi-Araba, í Mekka til að gera úrslitatilraun til myndunar þjóðstjórnar og sætta hinar stríðandi fylkingar í Gasa og á Vesturbakkanum. En á meðan skjóta Islamic Jihad samtökin eldflaugum á Ísrael, rétt til að leggja sitt af mörkum til að hindra, að friður komist á fyrir botni Miðjarðarhafs, en fjórar Kassam-flaugar lentu á Ísrael í gær.

Palestínumenn eru nú klofnir í herðar niður, og það í fleiri en tvær fylkingar. Annars vegar er Gasa-svæðið, sem de facto er sjálfstætt ríki Palestínumanna, þó Ísraelar hafi þar enn ítök, t.d. í krafti þess, að þeir stjórna rafmagnsflutningum þangað og af fleiri ástæðum. En Palestínumenn stjórna Gasa, eða svo mætti halda. Vandamálið er, hins vegar, að Sýrlendingar, Íranir og jafnvel Egyptar seilast þar til áhrifa. Gasa var öldum saman, eins og Landið helga í heild sinni, hluti af Sýrlandi, og því telja Sýrlendingar sig hafa þar hagsmuni að gæta. Og Egyptar stjórnuðu Gasa nær samfleytt frá 1948-1967. En Íranir stjórna Hizb'Allah hreyfingunni í Líbanon, sem hefur nú seilst til áhrifa á Gasa, þó aðallega með vopna- og peningasmygli, og þjálfun herskárra liðsmanna palestínskra öfgahópa.

imagesCACOUBCQPalestínumenn hafa deilt nokkuð hin síðustu misseri og hefur t.d. Gasa-svæðið verið nánast stjórnlaust frá því síðasta vor. Fatah á forseta landsins, en Hamas hefur meiri hluta á þingi og myndaði stjórn fyrir um ári síðan. En sú stjórn hefur ekki hlotið viðurkenningu t.d. Vesturlanda, enda er Hamas skilgreint sem hryðjuverkasamtök. Sökum óstjórnar ákvað síðan Abbas, forseti heimastjórnarsvæðanna, að boða til þingkosninga. Hamas svaraði með vopnum og síðan hefur geisað borgarastríð á Gasa, ef ekki de juro, þá de facto. Þetta ástand eru leiðtogarnir að reyna að bæta í helgustu borg íslams, Mekku. En jafnframt viðurkenna þeir, að nái þeir ekki samkomulagi nú, muni átök halda áfram og vísast færast í aukana, breiðast jafnvel út á Vesturbakkann.

Það er engin óskastaða fyrir Hamas. Þótt samtökin njóti víða stuðnings á Vesturbakkanum, ekki síst islamismvegna þess, að þau reka þar víðtæka félagsþjónustu fyrir erlent gjafafé (eða gerðu það meðan fé barst frá útlöndum), hafa Fatah liðar yfirburðastöðu hvað snertir fjölda vopnaðra liðsmanna. Og það sem meira er, Hamas telur, og það ekki alveg út í bláinn, að Ísraelar hlaði undir Fatah, bæði með vopnum, fé og hernaðarlega mikilvægum upplýsingum, t.d. upplýsingum um dvalarstað foringja Hamas. Hamas þarf því að stíga varlega til jarðar þetta skiptið. Nú má þeim ekki mistakast, ætli samtökin að halda völdum, einir eða í þjóðstjórn með Fatah. Þessu til viðbótar hefur Abbas lýst því yfir, að náist ekki samkomulag í Mekku, muni hann boða til þingkosninga. Talið er líklegt, að í þeim myndi Hamas tapa fylgi, enda ku hinir almennu borgarar að jafnaði kenna Hamas um það ástand, sem nú ríkir. Heimildamaður úr röðum nánustu ráðgjafa Abbasar segja: "Þetta er síðasta tækifæri Hamas".

En Hamas eru ekki samtök einsömul. Dagblað í Kuwait greinir frá því, að Bashar Assad, forseti Sýrlands, hafi ákveðið taumhald á Hamas. Foringi Hamas, Mashaal, býr í skjóli hans í Damaskus, og frá Sýrlandi berast vopn og vistir til Hamas-liða, jafnan eftir allskonar krókaleiðum. Og Assad hefur nú aðvarað Mashaal, og lagt hart að honum að gera engar málamiðlanir við Fatah.

imagesCAQF2TNFEn á móti kemur að Saudi-Arabar leggja hart að báðum aðilum að slíðra sverðin. Og þeir "hafa mikið að bjóða", sagði einn embættismanna Palestínumanna. Þeir hafa nær ótakmarkað fé, sem nota má til uppbyggingar á Gasa og Vesturbakkanum, og þar að auki eru þeir á afar vinsamlegum nótum við Bandaríkjamenn og Evrópusambandið, og gætu þannig náð að setja þrýsting á Ísraela. Og það sem meira er, eins fáránlegt og það virðist, hafa ýmis samskipti átt sér stað milli þeirra og Ísraela, þrátt fyrir að formlega séð sé Gyðingum bannað að stíga fæti á saudi-arabíska jörð. Það formsatriði hefur þó stundum verið brotið. Það hefur ekki farið hátt, en spurst hefur út, að ef friðarsamningar takast milli Ísraels og Palestínumanna, þess eðlis að tveggja-ríkja lausnin verði endurvakin (en þeirri lausn höfnuðu Arabar 1948 og blésu til stríðs, sem enn stendur formlega séð) og að amk flest helstu deilumálin leysist, muni Saudar taka upp viðskiptasamband við Ísrael, og jafnvel stjórnmálasamband. Saudar hugsa m.a. til þess, að Ísraelum hefur tekist afar vel að rækta upp auðnir og eyðimerkur, bæði heima fyrir og t.d. í Jórdaníu og á Sínaí, en af slíku eiga Saudar nóg. Ísraelar gætu þá aðstoðað Sauda með nauðsynlegri tækniþekkingu, en fengið olíu í staðinn. Og báðir græða.

En til þess að koma á friði, þurfa fylkingar Palestínumanna að friðmælast og taka upp samstarf. Það gæti verið, því vegalagning Ísraela nærri Musterishæðinni, þar sem endurbyggja á brú sem er við það að hrynja, hefur sameinað Fatah og Hamas, og urðu nokkur mótmæli þar í gær. Hafa báðar fylkingar krafist, að frakvæmdirnar verði stöðvaðar, þótt í raun séu það Palestínumenn sem græða, verði brúin lagfærð, því hún mun bæta aðgengi að hæðinni, og sértaklega Al-Aqsa moskunni. En Palestínumenn gruna Ísraela um græsku, að þeir ætli að eyðileggja moskuna eða þaðan af verra. Ég held þó, að þar fari paranoia Palestínumanna offari.

En í veginum fyrir myndun þjóðstjórnar stendur enn, að Hamas neitar algjörlega að viðurkenna Ísraelsríki og hafa talsmenn samtakanna staðfastlega ítrekað þá stöðu sína. En það atriði er grundvallaratriði þess, að Vesturlönd, Rússland og Kína taki mark á ríkisstjórn Palestínumanna. Því verður að álykta, að þrátt fyrir góðan vilja af beggja hálfu til að leysa málin, muni allt stranda á því, að Hamas vill ekki frið í víðara samhengi, heldur áframhaldandi stríðsátök við Ísrael. Þar stendur hnífurinn í kúnni.


mbl.is Samkomulag um nýja Palestínustjórn væntanlega undirritað í þessari viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband